07.04.1938
Neðri deild: 43. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 27 í C-deild Alþingistíðinda. (2288)

7. mál, vitabyggingar

*Emil Jónsson:

Ég vildi segja nokkur orð um brtt. þær, sem komið hafa frá hv. n., einkum þó þá brtt., sem hv. þm. Barð. ræddi nú síðast. Í frv. er gert ráð fyrir þrennum breytingum frá núgildandi l. Tvær þeirra eru ekki þýðingarmiklar, en sú þriðja hefir úrslitaþýðingu í fjárhagslegu tilliti. Fyrsta breytingin er þess efnis, að í n. þá, sem á að gera árlegar till. og áætlanir um fjárveitingar til vitamála, skuli bætt formanni Farmannasambands Íslands, og er ekki nema gott eitt um þá till. að segja, þó að hún sé í rauninni ekki mikils verð. Þá er í öðru lagi nokkur breyting á upptalningu nýrra vita, sem reisa skal, og get ég vel fallizt á hana, þó að hún sé ekki aðkallandi. Þýðingarmesta atriði frv. er 2. gr., sem fer fram á það. að varið sé öllu fé vitagjaldsins til vitamála. En með samþykkt till. nokkurra nm. í sjútvn., um að fella þessa gr. aftur úr frv., væri kjarni þess tekinn burt. Vitagjaldið var upphaflega sett til þess að gera ríkissjóði kleift að standa straum af kostnaðinum vegna vitamálanna. Hefir það verið notað til þessa frá öndverðu, og hefir ríkið varið til þessara mála misjafnlega miklu fé ár hvert, stundum meira en gjaldinu nam, en stundum minna, og hefir það jafnað sig upp nokkurnveginn. Þetta var svo fram til ársins 1930, en þá er ekki nærri allt vitagjaldið notað til vitamála. Hefir nú safnazt veruleg upphæð, sem notuð hefir verið til annara hluta.

Ég hefði talið það mikinn feng, ef með frv. hefði náðst, að vitagjaldið yrði algerlega bundið við vitamálin. Því get ég ekki verið samþykkur brtt. þeirra þriggja hv. sjútvnm., sem vilja fella niður þetta ákvæði frv. En þó að þessi brtt. þeirra næði samþykki, myndi ég mæla með því, að reynt yrði að komast að samkomulagi, svipuðu því. sem hv. 6. þm. Reykv. stakk upp á, enda þótt ég teldi það neyðarúrræði.

Ég get þess, að í brtt. n. hefir slæðzt inn lítilsháttar villa í 2. gr. Þar sem felldur hefir verið niður úr skránni Málmeyjarvitinn, samkvæmt minni till., hefir láðst að taka upp í staðinn vitann á Straumnesi. Í l. stendur, að reistur skuli viti annaðhvort á Straumnesi eða í Málmey, og er nokkur bót að vitanum norðan á Málmey, en samt vantar vita á Straumnes til að fullkomna öryggi siglinga nyrzt í Skagafirði. Hvort sem þetta hefir fallið niður af því, að það háfi verið óljóst í bréfi mínu, eða af einhverjum öðrum ástæðum, þá þarf þetta ákvæði að komast inn í frv. aftur fyrir 3. umr.