07.04.1938
Neðri deild: 43. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 33 í C-deild Alþingistíðinda. (2295)

7. mál, vitabyggingar

Pétur Ottesen:

Ég held, að nokkur hluti af þeirri ræðu, sem hv. þm. Barð. hélt, og þá um leið eitthvað af þeirri orku, sem hann lagði í að byrsta sig, hafi verið óþarfur. Ég var ekkert að skorast undan þeirri ábyrgð, sem á mér hvílir út af því, að vitagjöldunum hefir ekki að undanförnu öllum verið varið til viðhalds og byggingar nýrra vita. Ég tek fyllilega á mig minn hluta af þeirri ábyrgð. Hitt er svo annað mál, að ef maður fer að skyggnast lengra inn í ábyrgð hv. þm. Barð., sem nú er farinn inn í ráðherraherbergi að kveikja sér í pípu og þannig að bæta upp orkumissinn í ræðunni, þá er það að athuga, að hann og hans flokkur hefir verið í stjórnaraðstöðu á þessu tímabili og hefir haft aðstöðu til að ráða miklu meira en ég um almenna meðferð fjármálanna hér á Alþ. En það má um þetta segja, að það er of seint að iðrast eftir dauðann. Hv. þm. Barð. hefði verið nær að beita áhrifum sínum á fjármálastjórn þessa lands þannig, að ekki hefði til þess þurft að koma, að klípa við neglur sér framlög til svo mikils nauðsynjamáls sem það er, að lýsa upp strendur landsins.

Hv. þm. Barð. var að tala um, að ef þessi till. yrði felld, þá væri opnuð leið fyrir andstæðinga stj. til að bera á hana og meiri hl. Alþ., að hann væri að brjóta l. og reglur með því að verja ekki öllu vitagjaldinu til vitanna. Ég held, að í þessu felist ekki neinn skjöldur fyrir ríkisstj. á hverjum tíma til þess að hlaupa á bak við, ef út af ber, að hægt sé að framfylgja vitalögunum.

Hv. þm. Barð. sagðist ekki skilja í því, að ég skyldi koma með aðra eins rökvillu eins og þá, að bera saman framlögin til vitanna og hafnargerða. Ég held fast við það, að þetta er sambærilegt, og það er ekkert meiri ástæða til að vera að súrra það niður, að eftir vitalögunum skuli farið, heldur en gert er um almennar fjárveitingar til hafnargerða.

Hv. 5. landsk. talaði um, að hann vænti þess, að þegar til þess kæmi að greiða atkv. um fjárlögin, þá mundi ég greiða atkv. með því, að öllu vitafénu yrði varið til vitaframkvæmda á þessu ári. Ég hefi ekki dregið dul á, að ég hefi undanfarið ekki gert ágreining út af þessu, af því að ekki hefir verið hægt að framfylgja þessu. Ég geri ráð fyrir, að svo geti farið enn, að þetta verði ekki hægt, og mun ég þá hafa sömu afstöðu sem ég hefi áður haft, að beygja mig fyrir þeirri nauðsyn, sem er á hverjum tíma til að sveigja frá því, sem maður annars hefði viljað fylgja og teldi sjálfsagt að fylgja, ef kringumstæður leyfðu.

Í gær fór hér fram atkvgr. um það, hvort menn treystu þeirri ríkisstj., sem nú er við völd. Þessi atkvgr. var ekki sízt miðuð við það, hvaða traust menn bæru til stj. í fjármálum. Mín afstaða var sú, að ég treysti ekki stj. Afstaða þessa hv. þm. var hinsvegar sú, að hann bjó til eitt ákaflega stórt „núll“. Með því markaði hann sína afstöðu til stj. Ég veit ekki, hvað í þessu núlli felst, hvort hann treystir stj. eða ekki. En það er sjáanlegt, að mín afstaða er hér miklu skýrari en þessa hv. þm. Ég vildi bara láta það koma fram hér, að mín afstaða til stefnu stj. í fjármálum er jafnskýr eins og afstaða þessa hv. þm. er óskýr.