07.04.1938
Neðri deild: 43. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 38 í C-deild Alþingistíðinda. (2301)

7. mál, vitabyggingar

Ísleifur Högnason:

Sannast að segja þykir mér afstaða hv. þm. Borgf. vera heldur hláleg. Fyrst stendur hann upp til þess að mæla fyrir frv. á þskj. 7, sem flutt er af hv. 6. þm. Reykv. og miðar að því, að verja meira fé heldur en verið hefir til þess að stækka vitakerfi landsins og viðhalda þeim vitum, sem fyrir eru. En nú snýst hv. þm. reiður við og vill hann nú, að mér skilst, ganga frá sinni fyrri skoðun um það, að verja beri meira fé til þessara mála, og lætur sér nú nægja, að ríkisstj. tryggi, að ljós verði látið lifa á þeim vitum, sem til eru. — Annars situr illa á þessum hv. þm. að tala um skýjahorgír okkar kommúnista í sambandi við þetta mál og á hinn bóginn gjaldeyrisvandræði. Því að fyrir stuttu báru þeir íhaldsmenn fram frv. um aukin útgjöld fyrir ríkissjóð um 4–5 millj. kr., sem að mestu áttu að fara til efniskaupa frá útlöndum. Þó að ég vilji láta byggja nokkra vita, sem þarf til afarlitið erlent efni, þá yrði mestur hl. kostnaðarins við byggingu þeirra greiddur innlendum mönnum fyrir vinnu.

Hvernig við kommúnistar hugsum okkur að ná inn tekjum í ríkissjóð í staðinn fyrir þessi útgjöld, mun koma fram í þeim tekjuöflunarfrv., sem við munum bera fram. Við munum ekki láta á okkur standa um að gera till. um niðurskurð útgjalda á fjárl. á gjöldum, sem eru miklum mun ónauðsynlegri heldur en þau framlög, sem hér er um að ræða til vitabygginga. Það mun verða auðvelt fyrir okkur að benda á lækkun útgjalda, sem eru ónauðsynlegri en þau, sem hér er gert ráð fyrir til vitabygginga, um 2–3 hundruð þús. kr.

Að lokum vil ég beina þeirri ósk til þeirra, sem hafa lýst sig þessu máli fylgjandi, að greiða atkv. með því að veita meira fé til öryggis sjómannastéttinni í landinu, með því að byggja nýja vita og stækka þá vita, sem fyrir eru.