07.04.1938
Neðri deild: 43. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 39 í C-deild Alþingistíðinda. (2302)

7. mál, vitabyggingar

*Finnur Jónsson:

Ég er einn af flm. þessarar brtt. á þskj. 183, sem mestum deilum hefir nú valdið hér í hv. d. Ég geri þá grein fyrir mínu atkv., að ég hefi ekki getað fundið leiðir, eins og sakir standa nú, til þess að verja öllu vitafénu til vitabygginga á næsta ári. Og á meðan get ég ekki gengið inn á þær breyt. á l. um stjórn vitamála og um vitabyggingar frá hv. 6. þm. Reykv., sem eru ekki bornar fram til neins annars en að sýnast. Svo framarlega að meiri hl. Alþ. getur ekki fundið niðurskurð á fjárl. á móti þessum útgjöldum eða tekjuöflunarleiðir til þess að standast þessi útgjöld, þá er það ekkert nema fals að ganga inn á þá breyt. á l., sem hv. 6. þm. Reykv. hér hefir flutt. Og ég sé enga ástæðu til þess að taka þátt í þeim skrípaleik.

Hv. þm. Borgf. vildi réttlæta sína afstöðu gagnvart vitalögunum eins og þau eru nú og eins og þau verða, ef brtt. okkar meiri hl. sjútvn. verður samþ., hann vildi réttlæta hana með því, að það hefði verið komið fram á árið 1933, þegar farið hefði verið að nota vitaféð til annara þarfa ríkissjóðs. En á árinu 1930 var búið að verja til vitamála 51 þús. kr. meira en þá hafði fengizt í vitagjöld. Á árinu 1931 breyttist þetta nokkuð, þannig að að því ári loknu voru um 40 þús. kr. komnar inn í ríkissjóð af vitafé umfram það, sem varið var til vitabygginga. Árið 1932, þegar einn vel metinn sjálfstæðismaður var ráðh. sjávarútvegsmálanna, þá var í árslok komið inn í ríkissjóð um 300 þús. kr. af vitafé með vitagjöldum. Og árið 1933, einmitt þegar þetta frv. var lögfest, sem nú er verið að gera till. til breyt. á, þegar hv. þm. Borgf. sagði, að ekki hefði komið í ljós, að vitagjaldið hefði verið notað til annara þarfa, þá var farið að nota af því fyrst í alvöru til annara þarfa ríkissjóðs heldur en til vitamála. Svo kemur hv. þm. Borgf. og ber sér á brjóst og talar um, að stolið hafi verið úr sjálfs sín hendi viðvíkjandi vitafénu. Hann greiðir samt atkv. með því í fjvn., að fé, sem innheimtist með vitagjöldum, sé notað til annara þarfa ríkissjóðs en vitamála. Ég veit ekki, hvað svona frammistaða er almennt kölluð. A. m. k. er hún ekki fallin til þess að auka þeim ágæta málstað fylgi, að auka fjárveitingar til vita. Það er rétt, sem hv. þm. Borgf. tók fram, að það er hörmulegt til þess að hugsa, að alla leiðina frá Borgarnesi og upp að Snæfellsnesi sé enginn viti. Það er líka hörmulegt, að e.s. Laxfoss skuli þurfa að sigla með mörg hundruð manna í náttmyrkri og oft kafaldsbyl frá Akranesi til Borgarness, sem er hættuleg leið, án þess að nokkur ljóstýra sé til þess að lýsa þá leið. Það er hörmulegt, að á Þormóðsskeri er ennþá enginn viti. Og hæstv. alþm. verða að leggjast á eitt um það að reyna að koma þessum málum öðruvísi fyrir. En það verður ekki gert með því, að þm. samþ. till. til breyt. á einstökum l., sem svo er tekin aftur í næstu gr. á sama þskj., eins og gert væri, ef ekki væri samþ. brtt. meiri hl. sjútvn., en frv. þetta samþ. óbreytt. Það væri ekki gert með því, að hv. þm. færu að falsa fyrir sjálfum sér einstök lagafrv., heldur með því að reyna að breyta fjárl. á þann hátt, að verulega ríflegar fjárveitingar verði veittar til vitamálanna. Að því ber að stefna, en ekki hinu, að falsa hér einstök frv. í d., sem fjvn. gerir svo að markleysu.