09.04.1938
Neðri deild: 45. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 44 í C-deild Alþingistíðinda. (2313)

7. mál, vitabyggingar

*Bjarni Ásgeirsson:

Ég á hér brtt. á þskj. 210 við 3. gr. frv., um það, að í staðinn fyrir að slá því föstu, að væntanlegur viti á innsiglingunni inn Borgarfjörð verði reistur á Þjófakletti, skuli standa í lögunum: Á Þjófakletti eða Miðfjarðarskeri í Borgarfirði. Ástæðan til þessarar brtt. er sú, að ýmsir, sem þarna fara um, og þar á meðal yfirmennirnir á skipinu Laxfossi, hafa látið í ljós við mig, að þeir teldu vitann betur settan á Miðfjarðarskeri en á Þjófakletti.

Út af umræðum, sem hér hafa farið fram, get ég lýst yfir því, að ég er þeim mönnum samþykkur, sem vilja verja til nýrra vita eins miklu fé og fært er á hverjum tíma. Ég vil taka undir með þeim um þörfina, og þá sérstaklega vitna til leiðarinnar milli Akraness og Borgarness, en það er sú leið hér við land, sem flestir farþegar fljóta nú um árlega, þúsundir manna, og er alveg vitalaus.

Samt sem áður get ég ekki annað en fallizt á brtt. á þskj. 183, um að fella niður 2. gr. frv. og láta haldast þetta skilyrði núgildandi laga: ,.ef ástæður ríkisins leyfa“ — fyrir því að vitagjaldinu öllu skuli skilmálalaust varið til vitabygginga. Enda lit ég svo á, að með þessu ákvæði einu væri ekki tryggt, að fénu yrði öllu þannig varið. Á undanförnum árum hefir það ekki verið unnt, og ég er hræddur um, að það ástand haldist, því miður, að það þyki ekki fært, hvorki vegna gjaldeyris né ríkissjóðs.

Því hefir verið haldið fram, að ákvæði 9. gr. um, að þessir vitar skuli reistir, „þegar fé er veitt til þess í fjárlögum“, nægi til þess að gera skilyrðið: „ef ástæður ríkissjóðs leyfa“ — óþarft. Mér virðist það misskilningur. Því að þegar búið er að ákveða afdráttarlaust, svo sem gert er í 8. gr., að öllu vitagjaldinu skuli verja til nýrra vita, er ómögulegt að leggja meira inn í áðurnefnd orð 9. gr. en að fjárveitingavaldið ráði því árlega, í hvaða röð vitarnir séu teknir. Ef brtt. á þskj. 183 verður samþ., sé ég ekki betur en að Alþingi sé á hverjum tíma bundið við að verja gjaldinu til vitamála. En þegar það er ekki hægt, er það ekki heldur neitt vit. Hitt er annað mál, að þegar gjaldeyrir er til og hagur ríkissjóðs leyfir, er sjálfsagt að verja þessu fé og miklu meira til vitabygginga.

Ég mun greiða atkv. með brtt. meiri hl. sjútvn.