02.05.1938
Efri deild: 59. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 319 í B-deild Alþingistíðinda. (232)

4. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Ég vil vekja athygli á því, að í 14. lið 1. gr. frv. er prentvilla, sem fjhn. sá þó ekki ástæðu til að bera beinlínis fram brtt. við, vegna þess, að þá hefði málið þurft að fara aftur til hv. Nd. og tefjast, en nú er áliðið þingtímans og því óheppilegt, að mál tefjist. Prentvillan er sú, að í þessum lið stendur (með leyfi hæstv. forseta): „Á árinu 1939 greiðir ríkissjóður ekki hærra framlag til sýsluvegasjóðs en það sem ákveðið er til móts við 41/2 % úr héruðum, sbr. lög nr. 102 19. júní 1933“. En þessi l., sem þarna er vitnað til, tala um „pro mill“, en ekki „pro cent“. Nú vil ég skjóta því til hæstv. forseta, hvort ekki megi líta svo á, að þetta megi leiðrétta án atkvgr. og án brtt. Í brtt. þeirri, sem útbýtt hefir verið og leyfð afbrigði fyrir, er einmitt sama prentvillan. Þetta atriði þarf því einnig að taka til athugunar viðvíkjandi brtt., ef hún skyldi verða samþ. En liti hæstv. forseti svo á, að ekki megi leiðrétta þetta í prentun, þá mun ég bera hér fram skrifl. brtt. En það er svo alveg augljóst, að um prentvillu er hér að ræða, þar sem vitnað er til einstakra l., þar sem talað er um, að ríkissjóður leggi fram helming á móti því, sem lagt er fram úr héruðum, þar sem talað er um 2–4% o. s. frv.