24.02.1938
Neðri deild: 7. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 48 í C-deild Alþingistíðinda. (2327)

16. mál, vinnudeilur

*Flm. (Thor Thors):

Þetta mál er nú flutt hér á Alþ. í fjórða sinn. Það ætti því að vera hv. þm. fullkunnugt, hvert efni þess er og tilgangur í heild. Ég kann þó ekki við að láta með öllu hjá líða að fara um það nokkrum orðum.

Hér er um það að ræða, að setja ákveðnar reglur um eitt merkasta og helzta svið þjóðlífsins, atvinnulífið. Allar þjóðir hafa látið þessi mál til sín taka; alstaðar með menningarþjóðum er þessum málum skipað með lögum, og þjóðfélögin hafa látið þetta mál þeim mun meira til sín taka, þeim mun sterkara sem ríkisvaldið er. Í engum löndum er þessum málum jafnákveðið skipað og í einræðisríkjunum, Þýzkalandi, Ítalíu og Rússlandi. Við megum ekki sækja fyrirmyndir okkar þangað, en þegar að því kemur, að við, eins og aðrar þjóðir, hverfum að því, að láta þessi mál taka til hins opinbera, þá finnst mér rétt — og ég held, að flestir séu á eina máli um það —, að við sækjum okkar fyrirmyndir til þeirra þjóða, sem okkar ern skyldastar. Þannig höfum við flm. farið að ráði okkar, því að þetta frv. er í öllum aðalatriðum sniðið eftir því, sem Norðurlandaþjóðirnar hafa gildandi hjá sér í þessum efnum, og allir stjórnmálaflokkar þar virðast vera sammála um að hafa þessi ákvæði gildandi. Það er vitað, að vinnudeilur í þjóðfélaginu eru óumflýjanlegar, en það er hlutskipti löggjafans að reyna að afstýra því, að vinnudeilur leiði til vinnustöðvana, því að það hefir þráfaldlega sýnt sig, að vinnudeilur eru báðum aðiljum, sem í stríðinu standa, til tjóns og þjóðfélaginu æfinlega til ófarnaðar.

Eins og áður er fram tekið, er það aðalefni þessa frv., að reyna að afstýra því, að vinnudeilur leiði til vinnustöðvana, en réttur verkamanna til þess að beita verkfalli og vinnuveitenda til þess að skella á verksviptingu er látinn haldast, en aðeins sem örþrifaráð. Það er þess vegna hinn herfilegasti misskilningur og blekkingar, þegar því er haldið fram, að þessi löggjöf þýði það, að verkfallsrétturinn sé tekinn af verkamönnum.

Í I. kafla þessa frv. eru ákvæði um vinnusamninga, verföll og verksviptingu. Þar er svo ákveðið, að allir slíkir samningar skuli vera skrifl. og að ákveðinn uppsagnarfrestur skuli tekinn fram. Ennfremur er svo ákveðið, að allir samningar einstakra vinnuveitenda og verkamanna, sem brjóta í bága við samning félags hvors aðilja fyrir sig, séu ógildir. Og loks er svo ákveðið, að ekki skuli þurfa að koma til vinnustöðvana vegna réttarágreinings aðilja, þ. e. þegar deilt er um, hvað felist í gerðum samningi, því að þeim ágreiningi á æfinlega að skjóta til sérstaks óvilhalls dómstóls. Ennfremur eru í þessum kafla sett ákveðin skilyrði fyrir því, að vinnustöðvun megi skella á, og þau skilyrði eru nákvæmlega þau sömu og nú gilda í Danmörku og þar hafa gilt frá 1899, en það er hin svokallaða septembersætt, sem gerð var milli verkamanna og vinnuveitenda. Það samkomulag var gert af hálfu beggja aðilja eftir langvarandi, yfirgripsmiklar deilur. Þessi sætt hefir staðið í gildi í þessi nærri 40 ár, sem liðinu eru síðan hún var gerð, og báðir aðiljar eru sammála um, að hún eigi að vera áfram í gildi.

Í II. kafla frv. er rætt um sáttatilraunir af hendi ríkisvaldsins. Eins og hv. þm. er kunnugt, gilda nú l. um þetta atriði frá 1925. Þau l. voru á sínum tíma sett með góðu samkomulagi allra stjórnmálaflokkanna. Það er vitað, að löggjöfin hefir leitt til þess, að deilur hafa oft verið leystar samkv. till. sáttasemjara. En löggjöfin er nú orðin á eftir tímanum. Hún var á sínum tíma sniðin eftir því, sem þá gilti hjá nágrannaþjóðunum, en síðan hafa þær sett ýtarlegar reglur, og það er nauðsynlegt, eins og atvinnulífinu er komið hér og eins og staðhættirnir eru, að auka þessi ákvæði frá því, sem nú er. Í þessum kafla er gert ráð fyrir, að atvmrh. skipi einn ríkissáttasemjara og þrjá héraðssáttasemjara, sem búsettir verði á Ísafirði, Akureyri og Seyðisfirði. Það hefir sýnt sig, að það er nauðsynlegt að hafa sáttasemjara víðar en í Reykjavík, en að sjálfsögðu eiga þessir sáttasemjarar að vera í sambandi hver við aðra og jafnan að fylgjast með í því, sem gerist á sviði atvinnulífsins. — Eitt veigamesta ákvæði þessa frv. er það, að sáttasemjari getur og er stundum skyldugur til þess að fresta vinnustöðvunum, á meðan á sáttaumleitunum stendur. Hann getur þó aldrei gert þetta lengur en 4–14 daga, og er það sama ákvaði og nú gildir í Noregi. Danir hafa hinsvegar í sinni löggjöf heimild fyrir sáttasemjara til þess að fresta vinnustöðvunum. Ég tel þetta atriði um vald sáttasemjara til að fresta vinnustöðvunum bráðnauðsynlegt, til þess að honum vinnist tími til þess að koma á sættum, án þess að til vinnustöðvana þurfi að koma.

Í III. kafla frv. eru ákvæði um vinnudómstól Íslands, en í honum er gert ráð fyrir, að eigi sæti 5 menn, 3 tilnefndir af hæstarétti, en 2 tilnefndir sinn frá hvorum aðilja. Þessi dómstóll á að hafa það hlutverk með höndum, að skera á réttarágreiningi aðilja. Það getur verið um tvennskonar ágreining að ræða milli verkamanna og vinnuveitenda; annarsvegar réttarágreining, hinsvegar hagsmunaágreining. Réttarágreiningi, sem er um það, hvað felst í gerðum samningi, ber ætíð að vísa til þessa dómstóls. Hagsmunaágreiningur er oft um það, hvað skuli vera kaup og hver kjör verkafólks. Þeim ágreiningi má aldrei vísa til þessa dómstóls. Það er þess vegna hin herfilegasta blekking, sennilega vísvitandi blekking, þegar reynt er að telja mönnum trú um, að vinnudómstóll Íslands, samkvæmt þessu frv., þýði sama og gerðardómur í kaupdeilum. Vinnudómstóll á nákvæmlega ekkert skylt við slíkt. Hann á aldrei að láta hagsmunaágreining neitt til sín taka. Í þessum kafla eru svo ákvæði um það, hvenær vísa eigi þessum réttarágreiningi til dómstólsins, og ýtarleg ákvæði um það, hvaða meðferð dómurinn eigi að hafa á málum sínum, og er sérstaklega lögð áherzla á það, að dómurinn flýti málsmeðferð sem allra mest.

Ég skal ekki fara fleiri orðum um frv. sjálft. Það er, eins og ég gat nm áðan, nú flutt í fjórða sinn hér á Alþingi, og öllum ætti að vera kunnugt um, og ég held, að öllum sé í raun og veru kunnugt um, hvert efni þess er, enda þótt þess hafi mjög gætt af hendi einstakra hv. þm., að þeir hafa reynt að afflytja málið á herfilegasta hátt. — Undirtektir sjórnmálaflokkanna undir þetta mál hafa verið nokkuð misjafnar. Framsfl. hefir jafnan talað svo, a. m. k. við hátíðleg tækifæri, að vinnulöggjöf væri mikið áhugamál þess flokks. Hæstv. forsrh. hefir tvisvar haft þann boðskap helzt að flytja þjóðinni í nýársræðu sinni, að nauðsyn væri á slíkri löggjöf. Við síðustu áramót var það eitt helzta atriðið í boðskap ráðh., að vinnulöggjöf yrði að komast á hér á landi og hlyti að komast á, og hann skildi ekki í þeim mönnum, sem svo væru af guði gerðir, að þeir fyndu nokkra ástæðu til þess að andmæla þessu. Flokksþing Framsfl. 1937 samþ. einnig mjög ákveðna áskorun til þingflokksins um að setja löggjöf um þessi efni, svipaða því, sem gildir á Norðurlöndum, en líkt er okkar frv. Á fyrra þinginu 1937 báru framsóknarmenn fram 2 frv. um þetta efni, sem voru spor í rétta átt. Þau köfnuðu í þingrofinu, eins og fleira, sem fyrir lá, en á síðasta þingi bólaði ekki á þeim. Nú hefir hæstv. atvmrh. gefið hv. þm. bók nýlega, sem er álit vinnulöggjafarn. um þessi mál. Þessi n. var skipuð af hæstv. atvmrh. með þeim einkennilega hætti, að í n. voru aðeins valdir fulltrúar stjórnarflokkanna. Nú er svo að sjá sem samkomulag hafi verið um að leggja frv. fram á þessu þingi. Þegar það er athugað, hvað á undan er gengið í þessu máli, tel ég fullkomna ástæðu til að efast um, að frv. það, sem boðað er í þessari bók, verði nokkurntíma lagt fyrir þingið, og ætla ég, að svo stöddu, ekki að ræða efni þess. Ég mun gera það seinna í þessum umr., ef tilefni gefst til þess, en ég verð að segja það, að mér virðist því í mörgum veigamiklum atriðum vera mjög ábótavant, þó að hinsvegar megi telja frv. spor í rétta átt. En afstaða okkar sjálfstæðismanna er sú, að við teljum frv. það, sem hér liggur fyrir, vera þannig gert, að það sé bæði sanngjarnt og jafnframt nógu ákveðið til þess að koma að gagni í þjóðfélaginu, enda er það sniðið eftir reynslu nágrannaþjóða okkar. — Hvað viðvíkur framkomu Alþfl. í þessu máli, er það því miður að segja, að flokkurinn snerist í upphafi mjög öndverður gegn málinu og gekk í bandalag við kommúnista um það að skapa æsingu gegn málinu. Það er þó vitað, að af hendi mikils hluta verkamanna er óskað eftir sanngjarnri vinnulöggjöf. Þetta hefir m. a. komið fram í því, að þegar forsprakkar sósíalista létu verkamenn um stund í friði með að semja við Vinnuveitendafélag Íslands um kauptaxta, þá gengu fulltrúar verkamanna inn á atriði, sem er eitt af veigamestu atriðum vinnulöggjafarinnar. Þeir samþ. í 9. gr. þessa samnings, sem gerður var, að til vinnustöðvunar mætti ekki gripa um vikutíma, á meðan aðiljar væru að semja með sér um ágreininginn. Það virðist svo eftir þessu nál. vinnumálan. að dæma, að forsprökkum Alþfl. hafi nú snúizt hugur í þessu máli, og það má segja, að það sé betra að iðrast seint en aldrei. Þeir hafa lært af reynslunni og vilja setja vinnulöggjöf, a. m. k. er svo að sjá á yfirborðinu, þar sem þeir leyfa fulltrúum sínum að skila sameiginlegu nál. með framsóknarmönnum. En vegna þeirra ummæla, sem féllu hjá hæstv. atvmrh. hér í gær, þar sem hann sagði, að þessum till. n. yrði nú útdeilt meðal allra verkalýðsfélaga landsins, og þau, sem ekki hefðu þegar fengið þær, mættu eiga von á þeim einhverntíma seinna, vil ég taka það fram, að svo er að sjá sem enn eigi að verða talsverð bið á því, að Alþfl. þori að stíga þetta nauðsynlega spor. Það hefir oft verið bent á það, að allur frestur í þessu máli er hættulegur, og hann er hættulegastur fyrir þá, sem með ríkisvaldið fara. Allar vinnustöðvanir hljóta fyrr eða síðar að beinast mjög gegn ríkisvaldinu. Það sýnir sig í því, að hvenær sem í öngþveiti er komið, er það bein skylda ríkisvaldsins að reyna að grípa í taumana og leiða til sætta eða útkljá deiluna á annan hátt. Ég minnist þess, þegar við á síðasta þingi, hæstv. atvmrh. og ég, þreyttum umr. um þetta mál, að hann vildi lítið gera úr aðvörun minni um, að frestur í þessu máli gæti verið hættulegur. Ég hafði þá m. a. látið þess getið, að nauðsyn væri á vinnulöggjöf, vegna þess að um þessi áramót féllu margir kaupgjaldssamningar úr gildi og þess vegna mætti búast við vinnustöðvun. Ég benti honum m. a. á það, að á Akureyri hjá KEA og öðrum iðnrekendum þar mætti vænta kaupdeilna. Ég fullyrði, að ef til hefði verið öflug og sanngjörn vinnulöggjöf undanfarið ár, þá hefði ekki þurft að koma til þeirrar vinnustöðvunar, sem varð á Akureyri á síðasta hausti. Þá hefði verið á staðnum sáttasemjari, sem þegar frá öndverðu hefði haft skyldu til þess að fylgjast með þessu máli og láta það til sín taka, áður en það var orðið of seint. Ég ætla líka að leyfa mér að fullyrða, að ef til hefði verið skörp og ákveðin vinnulöggjöf, þá þyrftu togararnir ekki að liggja núna í höfn. Sáttasemjari hefði þá haft skyldu til að gripa inn í þá deilu miklu fyrr en hann gerði. Og full ástæða er til að ætla, ef hann hefði kynnt sér málið frá rótum í langan tíma og hefði haft aðstöðu til þess að ákalla almenningsálitið, að ekki hefði nú komið til þessarar vinnustöðvunar. Í stað þess að ríkisvaldið léti mál þetta þegar í öndverðu og nægilega tímanlega til sín taka, þá hefir deiluaðiljum verið frjálst, hvernig þeir hafa hagað viðtölum sínum og hversu sjaldan þau hafa verið.

Ég held fram, að hér í þessu þjóðfélagi, eins og alstaðar annarsstaðar, sé nauðsyn á því, að ríkisvaldið setji einhverjar reglur um þessi deilumál. Og ég held fram, að þeim mun fátækari sem við erum öðrum þjóðum, þeim mun síður höfum við ráð á að láta þessi mál afskiptalaus af hendi ríkisvaldsins. Ég tel því brýna nauðsyn á því að flýta þessu máll og afgr. það þegar á þessu þingi. Það er krafa okkar sjálfstæðism., að það komi skýrt fram — og það skal koma skýrt fram á þessu þingi —, hvaða flokkar vilja í alvöru koma á vinnulöggjöf og láta þessi mál taka til ríkisvaldsins. Þing eftir þing hefir þessu máli verið slegið á frest, og það hefir verið látið heita svo, að leita eigi álits verklýðsfélaganna um þetta mál. Og enn á ný talar hæstv. atvmrh. nú um, að taka eigi þennan frest. Það er því ástæða til að ætla, að hér sé nú, eins og svo oft tíðkast, aðeins um skrípaleik að ræða af hendi stjórnarflokkanna, þegar þeir láta sína sendimenn skila sameiginlegu áliti um þetta. En ég vona, að svo sé nú ekki. Og hvort svo er eða ekki, skal koma fram á þessu þingi. Ég hefi áður getið þess við umr. um þetta mál, að við sjálfstæðismenn erum fúsir til að taka öllum skynsamlegum og sanngjörnum brtt., sem fram kunna að koma við þetta frv., og við munum freista þess í þeirri n., þar sem þetta mál verður tekið til meðferðar, að koma á samkomulagi um málið.

Vil ég svo mælast til að frv. verði, að lokinni þessari umr., vísað til 2. umr. -og allshn.