26.02.1938
Neðri deild: 9. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 67 í C-deild Alþingistíðinda. (2335)

16. mál, vinnudeilur

Einar Olgeirsson [frh.]:

Herra forseti! Það er leitt, að hv. flm., hv. þm. Snæf., skuli ekki vera viðstaddur, en það verður að hafa það. Hann fór í síðustu ræðu sinni nokkrum orðum um það, sem ég sagði viðvíkjandi því, hvort meiningin væri að framkvæma þessi l. á móti vilja verkalýðsins. Hann fór rangt með þetta. Ég talaði ekki um framkvæmdina, heldur hvort það ætti að samþ. l. á móti vilja verkalýðsins. — Hv. þm. fór að vitna í síðustu kosningar og atkvæðatölur þeirra. Ég vil í þessu sambandi benda á, að það kom greinilega fram í þeim kosningum, að Alþfl. og Kommfl. voru á móti vinnulöggjöf, a. m. k. þeirri, sem gengur á móti verkalýðssamtökunum. Yfirgnæfandi meiri hluti verkalýðsins lýsti sig andvígan slíkri vinnulöggjöf, svo að það þarf engum blöðum um það að fletta. Ég spurði hv. þm. einmitt um það, hvort hann vildi reyna að kúska í gegn hér á þingi löggjöf, sem annar aðilinn, sem hlut á að máli, væri algerlega andstæður. Það þarf engum getum að því að leiða, hvernig verkalýðsfélögin mundu taka í slíka löggjöf, sem þannig væri samþ. Þau mundu taka því á sama hátt og samvinnufélögin, ef fulltrúar stóratvinnurekenda og stórkaupmanna hér á þingi ætluðu að samþ. einhverskonar þvingunar- og þrælalög á móti þeim. Ég býst við, að þau létu ekki bjóða sér slíkt. Í hvert skipti, sem á að reyna að kúga hina vinnandi stétt, þá ris hún upp á móti með þeim tækjum, sem hún getur beitt. Það er ekki einu sinni vist, að það þyrfti að koma til þess, því að ef ekki tekst að lama verkföllin, þá eru þau nægilega sterk til þess að sýna þeim í tvo heimana, sem ætla að svipta verkalýðinn frelsi sínu.

Viðvíkjandi því, sem hv. þm. talaði í ræðu sinni um framkvæmd l., vil ég segja það, að það væri nær fyrir þingið að sjá til þess, að þau l., sem eru sett verkalýðnum til heilla. væru framkvæmd, áður en farið er að kosta til einhverra stórkostlegra ráðstafana, eins og ríkislögreglu, til þess að beita sér fyrir framkvæmd vinnulöggjafar. Á meðan l. um greiðslu verkkaups, bann kjallaraíbúða og l. um verkamannabústaði eru ekki betur framkvæmd en raun ber vitni um hér á landi, er sannarlega ekki hægt að ætlast til þess, að verkalýðurinn taki með þögn og þolinmæði á móti slíkri löggjöf, sem framkvæmd yrði á móti vilja hans út í yztu æsar. — Þessi sami hv. þm. var að tala um, að ég hefði minnzt á það í einhverri grein, að einhverjir af forsprökkum Kveldúlfs mundu verða gerðir landrækir. Ég býst ekki við, að það komi nokkurn tíma til slíks. Um það leyti, sem „Kveldúlfarnir“ væru búnir að setja Landsbankann á hausinn, mundu þeir vera stungnir af, áður en ríkisvaldið næði til þeirra.

Viðvíkjandi nokkrum staðhæfingum og deiluatriðum, sem fram komu hér á milli hv. þm. Snæf. og hæstv. atvmrh., bæði um það vinnulöggjafarfrv., sem hv. þm. Snæf. leggur fram, og eins frv. það, sem komið hefir frá hinni stjórnskipuðu n. í þessum málum, vil ég segja nokkur orð. Hv. þm. Snæf. talar um, að skyndiverkföllin, sem verkalýðnum eru sérstaklega nauðsynleg, séu í raun og veru óþörf og að það eigi að vera hægt að afnema þau. Þetta er algerlega rangt. Það er óhjákvæmilegt fyrir verkalýðinn að hafa einmitt tryggðan rétt til þess að gera verkföll undireins, vegna þess að sá frestur, sem settur er, t. d. 7 daga eða 10–14 daga, eins og gert er ráð fyrir í þessu frv., bókstaflega eyðileggur verkfallsvopnið. Ég ætla að taka dæmi í sambandi við vinnu við höfnina hér í Reykjavík. Það eru til ýmiskonar ákvæði um, að það eigi að vera góður aðbúnaður við vinnuna á þessum stað. Ef það kemur fyrir í skipum, sem á að skipa upp úr, að stroffur eru svo ónýtar, að það er hættulegt að vinna við þær, vegna þess að það er við því búið, að þær slitni þá og þegar, og annar aðbúnaður er einnig hættulegur, þá er það eitt af því sjálfsagðasta, sem verkamenn geta gert undir slíkum kringumstæðum, að neita að vinna við slík skip. Þetta er eina ráðið til þess að knýja það fram, að ekki sé bókstaflega valdið slysum með slæmum aðbúnaði í sambandi við lest, spil og stroffur. Það er því gefið, að ef vinnulöggjöf verður komið á, þá yrði kært um þetta og dæmt, eftir því sem frv. verður skilið. Undir slíkum kringumstæðum býst ég við, að verkfallsvopnið sé nógu sterkt til þess að knýja strax fram lagfæringu á þessu. Sama gildir um innheimtu kaupgjalds, en það er eitt af því, sem er í landslögum, og venjulega er samið um, að kaup skuli greitt vikulega. Ef það væri ekki greitt eins og gera ber, þá þyrfti eftir þessu frv. að hefja málsókn út af því. Það er mikið áhrifameira fyrir verkamenn undir slíkum kringumstæðum að stöðva vinnuna og knýja þannig atvinnurekendur til þess að borga undireins, og það er gert undir slíkum kringumstæðum. En þessi réttur er nokkuð, sem verkamenn mundu ekki fá, ef þetta frv. yrði að l., enda er það vitað, að þetta ákvæði er til mikils baga í Svíþjóð, en þar hefir það verið sett. Hér á landi horfir sérstaklega við hvað þetta snertir. Það er ekki til nokkurt „kapitalistískt“ land, þar sem önnur eins óregla ríkir um greiðslu vinnulauna og hér. Í stórum atvinnugreinum hefir hvað eftir annað verið „spekúlerað“ með vinnulaun verkalýðsins, eins og t. d. í sambandi við síldarvinnuna. Atvinnurekendur, sem ekki sjá sér fært að borga vinnulaunin á réttum tíma, treysta því, að þeir geti það, þegar búið er að selja síldina, og það eru oft hreinustu vandræði fyrir verkamenn að innheimta vinnulaun sín á síldarvertíðinni. Það er því gefið, að skyndiverkföll, eru óhjákvæmileg til þess að knýja það fram, að réttur verkamanna í þessum efnum sé tryggður.

Ennfremur vil ég benda á annað í sambandi við þetta frv., og það er það, að yfirleitt eru þessi frv. algerlega sniðin eftir útlendum fyrirmyndum án þess að taka nokkurt tillit til íslenzkra staðhátta. Erlendis eru fagfélög í verkalýðshreyfingunni, sem ná yfir mjög takmarkað svið, og meira að segja mestmegnis yfir þá menn, sem hafa vinnu. Atvinnuleysingjarnir fara af sjálfu sér út úr þeim. Hér er tekið upp samskonar ákvæði og er í vinnulöggjöf erlendis, sem á við þessi fagfélög, og hér er meiningin að láta það gilda gagnvart félögum, sem eru allt örðuvísi samsett og öðruvísi háttar til um, eins og t. d. Sjómannafélag Reykjavíkur, sem hefir á annað þúsund meðlimi, og þar eru menn, sem ekki eru alltaf sjómenn, en stunda hafnarvinnu og vegavinnu hér og hvar úti um land. Hvaða vit er nú í því, lögfræðilega séð, að setja þau ákvæði, að til þess að ákveða verkföll þurfi svo og svo margir að mæta, eins og gert er ráð fyrir í hinum ströngu ákvæðum 21. gr. í frv. hv. þm. Snæf. og í hinum tiltölulega ströngu ákvæðum í frv. hæstv. ríkisstj.? Það er alveg gefið, að í Sjómannafélaginu væri slíkt alveg óframkvæmanlegt. Það væri að gera sjómönnum ómögulegt að gera verkfall. Þetta ákvæði er apað eftir erlendum fyrirmyndum án þess að taka nokkurt tillit til íslenzkra staðhátta. Það nær því ekki nokkurri átt frá neinu sjónarmiði að samþ. slíkt. Mjög mikil vinna hér á landi er tímabilsvinna, vertíðarvinna og annað slíkt. Mennirnir, sem eru t. d. í Sjómannafélaginn eða Dagsbrún, eru langt í burtu frá heimili sínu svo og svo langa tíma til þess að leita sér atvinnu. Sama gildir um fjölda af öðrum verklýðsfélögum á landinu. Hlutverk félaganna hér er allt öðruvísi en verklýðsfélaganna í öðrum löndum. Aðstaða félaganna nú til að taka ákvarðanir um vinnustöðvanir sem slíkar er allt önnur hér eða erlendis. Tökum t. d., að í einni verstöð, á Siglufirði, eru saman komnir menn úr mörgum verklýðsfélögum á landinu. Það þyrfti ákvarðanir og samþykktir úr mörgum félögum á landinu, eftir þessu frv., ef að l. yrði, til þess að fá í gegn lagalega heimild fyrir því, að þessir menn mættu gera verkfall. Svona ákvæði ná ekki nokkurri átt, því að þau keyra verkalýðinn í þær viðjar, að það, sem hér er gert ráð fyrir, er brot á frelsi verkalýðsins. Þar að auki er þetta lögfræðilega skoðað óframkvæmanleg vitleysa, að ætla sér að keyra þetta í gegn sem l. móti samtökum verkamanna og samþykki þeirra, sem vitanlega hafa mest með þetta að gera.

Í sambandi við frv., sem hér liggur fyrir, og í sambandi við allt, sem vinnulöggjafarn. hefir lagt hér fyrir, má geta þess, að í hvorumtveggja till. er lagt bann á pólitísk verkföll, að svo miklu leyti, sem þau beinast gegn ríkisstj. Slíkt nær ekki nokkurri átt. Það nær ekki nokkurri átt annað en að verkalýðurinn geti haldið því valdi, sem hann hefir, til þess að láta í ljós sínar skoðanir og berjast fyrir sínum réttindum á þann hátt, sem hann bezt ætlar, að hafi áhrif. Við vitum, að pólitísk verkföll hafa verið notuð úti um allan heim, m. a. til þess að knýja fram það núverandi borgaralega lýðræði. Þau hafa verið notuð af hálfu verkamanna til þess að knýja fram t. d. almennan kosningarrétt. Og vitanlega eru verkföllin sterkasta vopnið, sem verkalýðurinn hefir til þess yfirleitt að gæta réttar sins með. Við vitum, að hvað eftir annað, þegar afturhaldssöm lýðræðisstjórn hefir ætlað að framkvæma skerðingu á lýðræðinu, þá hefir verkalýðurinn svarað með verkföllum, alveg eins og þegar fasistar hafa reynt að steypa stjórn, sem þeim hefir verið illa við. Með þessu frv., ef að l. yrði, væri verið að svipta íslenzkan verkalýð sínu sterkasta vopni til þess að vernda þann mesta rétt, sem hann nú hefir, hið núverandi lýðræði.

Þá er ennfremur eitt atriði í sambandi við þetta frv., sem ég vil vekja sérstaka athygli á. Það er ákvæðið um sektir og skaðabætur. Það er eitt af allra hættulegustu ákvæðum frv. fyrir verklýðshreyfinguna. Eftir þeim er hægt að dæma í nokkuð háar sektir og í skaðabætur, sem geta orðið geysiháar. Það, að gera slíkt mögulegt, er að opna algerlega sjóði verklýðsfélaganna fyrir atvinnurekendum, þannig að þeim er gert mögulegt að láta dæma verkalýðsfélögin svo þungum dómum, að sjóðir þeirra verði gerðir upptækir. Og mér þykir leitt að sjá, að líka í þessum till., sem vinnulöggjafarn. leggur hér fyrir, eru þessi sektarákvæði látin halda sér, og hækkuð þar í 10 þús. kr., og skaðabótamöguleikinn líka látinn haldast. Hinsvegar man ég ekki eftir, að í því frv., sem hv. þm. N.- Þ. flutti á Alþ. í fyrra um sáttatilraunir í vinnudeilum, væri þetta skaðabótaákvæði. Þessi ákvæði mæta skörpum mótmælum verkalýðsins, sérstaklega vegna þess óréttar, sem kemur fram í sambandi við þetta.

Ég hefi bent á, hvernig afstaða atvinnurekenda er gerð í þessu frv. Hv. þm. Snæf. vildi nú samt sem minnst út í það fara. Ég talaði um, að atvinnurekendur gætu gert verkfall, þ. e. a. s. vinnustöðvun, án þess að það varðaði við lög. Þeir geta sagt: Það borgar sig ekki lengur að reka þessi framleiðslutæki. Þá heitir það ekki „lockout“ eða verksvipting. En verkamaðurinn má ekki segja: Það borgar sig ekki fyrir mig að vinna þetta. Þá er það verkfall, sem varðar við lög og hægt er að dæma í skaðabætur fyrir. Hv. þm. Snæf. vatt sér út úr að svara þessu. Hann sagði, að það væri í einstökum tilfellum hægt að sjá, hvað væri verksvipting. En flestar vinnustöðvanir, sem hér á landi hafa verið gerðar af atvinnurekendum, þær hafa verið gerðar svo, að sagt hefir verið, að ekki borgaði sig að gera út. Er það meiningin, að það eigi að banna þeim að segja þetta? Nei, vitanlega, það er ekki meiningin með frv. Það er ekki eftir frv. hægt að dæma atvinnurekendur í sektir eða skaðabætur fyrir svona vinnustöðvun, ef þeir sjálfir kalla hana ekki „lockout“. En það er hægt að dæma verkamenn fyrir að vilja ekki vinna, þó að þeir beri ekki fyrir aðrar ástæður en þessar viðbárur atvinnurekendanna, sem ég nefndi. Þetta ákvæði er ranglátt, og mér þykir leitt, að vinnulöggjafarn. skuli hafa viljað halda þessu ákvæði.

Þá vil ég víkja að því, sem hv. þm. Snæf. var að tala um æsingamenn, sem er hans uppáhaldsorð í sambandi við það, þegar hann talar um sósíalistaforingja. Ég verð að benda honum á, að það er svo afskaplega fjarri því, að það sé tiltölulega lítill hópur manna, sem séu sósíalistar, sem beita sér fyrir því, að fólk verði sósíalistar, og að það séu þeirra fáu manna áhrif, sem geri það að verkum, að verkalýðurinn verði sósíalistar. Nei, það eru beinlínis hagsmunir verkalýðsins, sem safna honum undir merki sósíalismans. Verkamannastéttin hefir ekkert af að lifa nema sína vinnu. Hún er sett gagnvart atvinnurekandanum eins og ánauðugir bændur gagnvart jarðeigandanum og eins og þrælarnir gagnvart þrælaeigandanum. Hún er undirokuð stétt, af því að hún ræður ekki yfir sínum lífsskilyrðum. Þegar þessir undirokuðu menn finna til réttar síns og gera kröfu til þess að geta lifað, þá gera þeir kröfu til þess að eiga atvinnufyrirtækin. Það verður krafa verkamannastéttarinnar sem heildar, og því ríkari sem stéttin finnur meira til sín í þjóðfélaginu. Það er krafa verkamannastéttarinnar, en ekki krafa fárra æsingamanna. Ef það væri rétt, sem hv. þm. Snæf. heldur fram um þessa æsingamenn, sem hann svo kallar, þá væri það bókstaflega eins og þeir væru færir um að umsnúa hugsunarhætti heilla stétta í þjóðfélaginu bara með sínum eigin sannfæringarkrafti, án þess veruleg skilyrði væru fyrir hendi önnur til slíkrar hugarfarsbreytingar. Það er verið að gera þessa fáu menn að ofurmennum, sem geti snúið tugum þús. manna til fylgis við sínar skoðanir með eigin krafti einum saman. Nei, verkamannastéttin er stétt, sem hefir verið undirokuð, en rís upp til þess að heimta framleiðslutækin í sínar hendur; það er það, sem er að gerast. Ef á að tala um einhverja menn sérstaklega, sem framkalli þessa hreyfingu, þá væri miklu betra að tala um vissa auðmenn og vissa stóra atvinnurekendur hvað slíkt snertir. Ef nokkrir æsa upp nokkra menn hér á landi til slíks, þá væri það Kveldúlfur eða einhverjir þess háttar. Verkamenn, sem ganga þúsundum saman atvinnulausir, horfa á, að ein fjölskylda hefir farið í þjóðbankann og fengið þar að láni 6–10 millj kr., og svo er sagt, að þessi fjölskylda sé eitthvað, sem hjálpi verkalýðnum til að geta lifað. Þessum mönnum, sem tala um æsingamenn, er bezt að stinga hendinni í sinn eiginn barm.