26.02.1938
Neðri deild: 9. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 72 í C-deild Alþingistíðinda. (2336)

16. mál, vinnudeilur

*Jón Pálmason:

Eins og hv. þm. Snæf., 1. flm. þessa frv., veik að í ræðu sinni um daginn, þá er það nú í fjórða sinn, sem þetta frv. er flutt hér á hæstv. Alþ. Reynslan, sem fengin er að undanförnu á Alþ. um afgreiðslu þessa máls, er sú, að málinu hefir verið vísað til n. og svo hefir það ekki sézt meira.

Ég hefi ekki blandað mér inn í þær umr., sem fram hafa farið um þetta mál á undanförnum Alþ. En af því að ég geri ráð fyrir, að frv. kunni að fara sama veg nú sem fyrr, að það sjáist ekki eftir að það hefir fengið þá meðferð, sem ég hefi lýst, að vera vísað í n., og af því að ég geri líka ráð fyrir, að þá sjáist heldur ekkert annað frv. hér á þessu Alþ. um vinnulöggjöf, vil ég segja um þetta mál fáein orð frá sjónarmiði okkar sjálfstæðismanna, af því að ég er þess viss, að sú skoðun er ríkjandi í sveitum landsins almennt, að það sé eitt af allra nauðsynlegustu og þýðingarmestu málum fyrir okkar þjóðfélag, að koma á vinnulöggjöf, sem geti komið að mestu leyti í veg fyrir þá óöld, sem verkföll og vinnustöðvanir hafa í för með sér.

Það hefir verið upplýst í þessum umr. af hæstv. atvmrh., að það frv., sem samið hefir verið af þeirri mþn., sem sett hefir verið til þess að athuga þessi mál, hafi verið sent til verklýðsfélaganna til umsagnar. Þetta er ekki nýr leikur, því að það er búið hvað eftir annað að segja hér á þingi, að það eigi að koma vinnulöggjöf. Framsóknarmenn hafa látið í það skína, að þeir séu því fylgjandi, að hér verði sett vinnulöggjöf, og hafa talað um það við kjósendur sína úti um land, að það ætti að setja vinnulöggjöf. Þeir hafa líka verið að þvælast með frv. um vinnulöggjöf, og nú hefir það verið sent til verklýðsfélaganna til þess að tefja það og til þess m. a., að það komi ekki til greina að samþ. það hér á þessu Alþ. Ég veit ekki til, að frv. þetta hafi verið sent til kaupfélaga til umsagnar. En þau eru á vissan hátt mótaðili hvað þetta snertir. Og ef nauðsyn er að senda frv. um þessa hluti til verklýðsfélaganna til umsagnar, þá er ekki síður nauðsynlegt að senda það til þeirra annara aðilja, sem hagsmuna hafa að gæta í sambandi við ákvæði þess.

Ég tel mjög mikla nauðsyn á því, að samþ. verði l., sem að einhverju haldi koma gagnvart því, að á undanförnum árum hefir það verið látið haldast uppi, að einstakir æsingamenn hafa æst upp þá stétt í okkar þjóðfélagi, sem kölluð er verkamenn, og ekki hefir neitt gert eins mikið illt okkar atvinnuleyfi og framleiðslu.

Hv. síðasti ræðumaður talaði um það nú og áður, hvort það væri virkilega meiningin að setja lög um þessa hluti móti vilja verkalýðsins. Ég tek það fram fyrir mig, að ég er sannfærður um, að aldrei verður sett vinnulöggjöf, sem nokkurt gagn er í, ef á að miða hana við vinnu þeirra manna, sem gert hafa sér það að lífsatvinnu að blekkja fólkið í landinu og telja því trú um, að því sé til hagsbóta sú starfsemi, sem þeir reka og hafa rekið á undanförnum árum. Ef því á að setja slíka löggjöf hér, sem gæti komið í veg fyrir verkfallsbölið, til hagsbóta, ekki aðeins fyrir allar aðrar stéttir í landinu en verkalýðsstéttina, heldur líka fyrir verkalýðinn, þá verður að gera það móti vilja þeirra manna, sem reka sína pólitík eins og hv. síðasti ræðumaður og aðrir, sem í svipuðum anda hafa unnið. Um það, að meiri hl. þjóðarinnar sé gegn því að setja vinnulöggjöf, og að síðustu kosningar sanni, að svo sé, þá vil ég segja, að það er bara algerlega öfugt. Því að síðustu kosningar sanna kannske ekkert betúr en það, að það hafa komið kröfur frá yfirgnæfandi meiri hl. þjóðarinnar um, að sett verði vinnulöggjöf. Því að allur Sjálfstfl., Bændafl. og líklega yfirgnæfandi meiri hl. Framsfl. eru fylgjandi því, að koma góðri skipun á í þessu máli, sem komið geti í veg fyrir þá óöld, sem ríkt hefir hér á landi, á stundum til ákaflega mikils tjóns fyrir landsmenn marga og þjóðarbúið í heild.

Það er ákaflega einkennandi fyrir hugsunarhátt þeirra manna, sem gert hafa sér það að verkefni, sem ég minntist á, þetta sem hv. síðasti ræðumaður sagði, að brýn þörf væri á því fyrir verkafólkið að geta gert skyndiverkföll, því að ef það væri útilokað, að hægt væri að ákveða verkfall nema með viku eða 14 daga fresti, áður en verkfall mætti hefja, þá væri það sama sem að eyðileggja verkfallið. Hvað segir hv. 5. þm. Reykv. með þessu? Hann hefir líklega ekki athugað, hvað hann óbeinlínis sagði með þessum orðum. Hann sagði með þessu óbeinlínis, að ef frestur fengist á verkfalli, þá mundi verkalýðurinn fá næði til þess að sjá, hvað honum væri fyrir beztu, og heilbrigð skynsemi fá ráðið svo miklu bjá fólkinu, að ákaflega erfitt væri að æsa það upp. Hv. þm. var að tala um slysahættu og að það gæti verið brýn þörf á að geta sett á skyndiverkföll vegna slíkrar hættu. En við höfum önnur l. í því sambandi hér á landi. Ég hefi ekki heyrt getið um það, að á okkar skipum væri sérstaklega þörf á að stofna til slíkra skyndiverkfalla vegna útbúnaðar þar.

Þá talaði sami hv. þm. um, að þetta frv. væri öpun eftir erlendum fyrirmyndum án þess að taka tillit til íslenzkra staðhátta. Það er sniðið eftir þeirri löggjöf, sem sósíalistar á Norðurlöndum hafa sett hjá sér. Og það er ekki langt farið í kröfum um skipun á þessum málum, þó að farið sé eftir svipuðum línum í þessu efni og sósíalistar í Danmörku, Noregi og Svíþjóð hafa farið eftir hjá sér. — Hv. þm. segir, að það sé öðru máll að gegna hér á landi en þar, og það er satt. En það er öðru máli að gegna hér en þar bara alveg á öfugan hátt við það, sem hv. 5. þm. Reykv. vill vera láta, því að það eru minni líkur til þess hér á landi heldur en á öðrum Norðurlöndum, að verkalýðurinn þurfi að verja sig gegn yfirgangi auðmanna. Það er nú komið svo langt hér hjá okkur, m. a. fyrir atbeina þeirra manna, sem fyrir ýmsum óhappaverkum verkalýðsins hafa staðið, að eignir þeirra atvinnurekenda, sem haldið hafa uppi atvinnu í landinu, eru nær gengnar til þurrðar vegna langvarandi rekstrarhalla á atvinnurekstrinum.

Þá kom sú makalausa yfirlýsing hjá hv. þm., sem er sannarlega ekki ný hjá sósíalistum hér á Alþ., að þótt l. yrðu sett um þessa hluti, þá væru þau óframkvæmanleg, ef þau væru sett móti vilja verklýðssamtakanna. Það er sagt með þessu, að ef Alþ. setji l. móti vilja einhverrar stéttar í landinu, þ. e. verkalýðsins, þá er höfð hótun um að gera uppreisn gegn þessum l. og hlíta þeim ekki að neinu leyti. Það er skoplegt að heyra menn, sem tala svona, í öðru orðinu tala um það með fjálgleik miklum, að þeir séu svo miklar lýðræðissinnar. Með því að hóta því að gera uppreisn, ef ekki verði farið að vilja þeirra í einstöku máli, þá eru þeir í hinu orðinu að tala um lýðræðið og helgi þess. Það er ekki nýtt að heyra hótanir frá þessum mönnum, því að í útvarpsumræðunum síðustu hér á Alþ. hefir formaður Kommfl. sagt, að ef Sjálfstfl. myndaði ríkisstj. með formanni Alþfl. og Framsfl., þá yrði sú ríkisstj. ekki liðin.

Þá talaði hv. þm. um, að verkalýðsstéttin hér á landi væri undirokuð stétt og einskonar þrælar atvinnurekendanna. Í því sambandi var hann að útmála, hversu sterk væri aðstaðan, sem atvinnurekendurnir hefðu gagnvart verkalýðsstéttinni að því er til atvinnumála kemur. Um þetta er það að segja, að það er kunnugt, að nú um a. m. k. heilan áratug hafa allir þeir menn, sem starfað hafa fyrir sósialistaflokkana hér á landi, unnið að því beint og óbeint að telja fólkinu trú um, að það væri heppilegra fyrir þess framtíð að vera í verkamannastétt heldur en að reka atvinnu. Þessi áróður, bæði félagslega og í ræðum og ritum og á Alþ., hefir haft þau áhrif, að smátt og smátt hefir unga fólkið hópazt úr sveitum landsins, þar sem það hefir skilyrði til þess að reka atvinnu og vinna fyrir sér sjálft, og í hina stærri kaupstaði. Og eftir því sem þessi svíkamylla hefir gengið lengra, eftir því hefir aðstaðan orðið örðugri fyrir þetta fólk í kaupstöðunum. Því að það er bæði sveitunum og fólkinu til óhollustu, að fólkið fari frá þeim stöðum, þar sem það getur unnið fyrir sér, og bætist við atvinnuleysingjahópinn í kaupstöðunum. Hér á landi eru náttúruskilyrði svo mikil, að hér þarf ekkert atvinnuleysi að vera í landinu, ef skynsamlega er á málum haldið.

Þá var síðasti ræðumaður að segja, að þeir menn, sem gætu æst upp einhver verklýðsfélög til verkfalla, án þess að það væru hagsmunir félaganna sjálfra, sem um væri barizt, væru ofurmenni og sannfæringarkraftur þeirra langt fyrir ofan það, sem fulltrúar atvinnurekenda hefðu ráð á. Þetta er algerður misskilningur, því að það er tvennt ólíkt, að byggja upp eða rífa niður. Það kostar t. d. allmikil átök og vinnu og langan tíma að byggja vandað hús; við skulum segja, að það sé úr timbri. En það þarf ekki nema eina eldspýtu til þess að brenna húsið upp til agna, og það er einmitt þetta. sem þessir menn hafa verið að vinna á undanförnum árum og hugsa sér að fá færi á að vinna í framtíðinni — að brenna upp þau verðmæti, sem hafa haldið uppi okkar þjóðlífi, til þess að fá tækifæri til að koma á þeirri stefnu, sem þeir telja, að sé heillastefna fyrir okkar þjóðfélag, — þeirri stefnu, þar sem allir eiga að eiga allt og enginn neitt.