26.02.1938
Neðri deild: 9. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 75 í C-deild Alþingistíðinda. (2337)

16. mál, vinnudeilur

Ísleifur Högnason:

Hv. þm. A.-Húnv. taldi í upphafi sinnar ræðu það hið mesta áhugamál sveitamanna að koma á vinnulöggjöf. Ég er ekki viss um, að þessi skoðun hans sé rétt, a. m. k. virðist manni það við dálitla yfirvegun, að það sé beinlínis á móti hagsmunum bænda, að gengið sé svo á rétt verkamanna, að þeim verði ekki lífvænlegt í kaupstöðunum, því að sá markaður, sem bændur hafa að styðjast við, byggist að mestu leyti á verkalýðnum í kaupstöðunum. En þessi löggjöf miðar að því að hefta frelsi verkalýðsins til verkfalla. Þetta kom greinilega fram hjá hv. 4. landsk. við útvarpsumr. við 1. umr. fjárlaganna, að nauðsyn bæri til þess að fella gildi krónunnar og setja á vinnulöggjöf. Þetta eru leiðirnar, sem eiga að bjarga við stóratvinnurekstrinum hér í kaupstöðunum. En frá sjónarmiði bænda er þetta hið mesta óráð, vegna þess að með því að skerða kaupmátt verkalýðsins, hlýtur sá markaður, sem þeir hafa hér innanlands, að þverra, og þeir verða að sitja uppi með sínar framleiðsluvörur óseldar. Þetta ættu framsóknarmenn, sem eru sérstaklega fulltrúar bænda, að taka til yfirvegunar.

Hv. þm. A.-Húnv. sagði, sem rétt er, að ríkisstj. hefði sent verkalýðsfélögunum úti um land þetta vinnulöggjafarfrv., sem Alþfl. og Framsfl. legðu fram, til athugunar og að von sé á svörum þeirra fyrir 5. marz. Mér vitanlega hefir þetta frv. ekki verið tekið til athugunar í félögunum, enda mun svo komið fyrir þm. Alþfl., að þeir standa einangraðir frá verkalýðsfélögunum víðsvegar um landið, og má gera ráð fyrir, að þau verði öll ákveðin á móti þessari löggjöf, enda er hér um svo áberandi réttarskerðingu að ræða, að ekki kemur til mála, að þau samþ. hana. — Ég hefi ekkert á móti því og get fallizt á það með hv. þm. A.-Húnv., að frv. þetta sé sent til kaupfélaga og annara aðilja víðsvegar um landið, og það látið dragast eitt ár enn, að þetta mál komi til úrslita. Það er nauðsynlegt, að þjóðin fái að kynna sér jafnveigamikið frv. sem þetta, sérstaklega þar sem stjskr. ákveður, að eigi megi skerða atvinnufrelsi manna, nema almenningsheill krefji. Ég sem samvinnumaður get sagt það, að enginn vafi er á því, að þetta er hinn mesti bjarnargreiði við kaupfélögin, að fá þessa vinnulöggjöf setta, því að hún er stór réttarskerðing frá því sem nú er.

Þá dró hv. þm. A.-Húnv. það út úr ræðu hv. 5. þm. Reykv., að við kommúnistar hefðum í hótunum um að gera uppreisn gegn þessum lögum, ef þau yrðu sett. Sama kom fram í ræðu hv. 4. landsk. við útvarpsumr. um daginn, þar sem hann hafði það eftir mér, að verkalýðurinn myndi hafa þessi lög að engu. Nú er það mála sannast, að ég hefi aldrei viðhaft þessi orð. En formaður Sjálfstfl., hv. þm. G.-K., sagði í fyrra, þegar frv. hv. þm. Ísaf. um breyt. á l. um vigtun síldar var til umr., að þótt lögin yrðu samþ., þá myndu sjómenn ekki hafa þau að neinu. Það er hann, formaður Sjálfstfl., sem hefir lýst því yfir hér á Alþ., að verkalýðsstéttin muni ekki hafa lög, sem þingið setur, að neinu. En það er ekki að undra, þótt hv. 4. landsk. minnist ekki á þetta, því að hann á undir högg að sækja, þar sem formaður Sjálfstfl. er.

Það vill svo til, að skírskotað hefir verið til vinnulöggjafanna á Norðurlöndum, enda hefir vinnulöggjafarnefndin skrifað landssamböndum verkamanna á Norðurlöndum, og vill svo vel til, að ég hefi hér í höndum bréf frá formanni Landssambands verkamanna í Svíþjóð, þar sem hann drepur á helztu ágalla þessarar löggjafar. Í bréfinu segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Sérstaklega hefir óánægju innan byggingariðnaðarins orðið vart, bæði út af hinum almennu vinnusamnings- og vinnudómstólslögum og hinum svokölluðu aðvörunarlögum. Ástandið innan þessa iðnaðar er líka nokkuð sérstætt. Sökum þess að innan þessarar atvinnugreinar eru oft heldur óáreiðanlegir eða alveg ógjaldfærir atvinnuveitendur, verða byggingarverkamenn frekar öðrum verkamönnum að vera á verði um innheimtu kaupsins og að gæta þess, að farið sé eftir gildandi samningum. Reynslan hefir líka sýnt, að í vissum tilfellum er nauðsynlegt að grípa til ráðstafana fyrirvaralaust, og frá sjónarmiði þessara verkamanna er lagaleg skylda um vissan aðvörunartíma, áður en vinna er lögð niður, óheppileg“.

Þetta er nú álit jábræðra Stefáns Jóhanns og þeirra, sem mest berjast fyrir því að koma í gegn þessari vinnulöggjöf. — Það er, eins og hv. 5. þm. Reykv. benti á, auðvitað það bezta vopn í höndum verkamanna, til þess að tryggja, að öll tæki, sem notuð eru við vinnuna, séu í lagi, að neita að vinna, fyrr en úr ágöllunum sé bætt. Hv. þm. A.- Húnv. sagði, að það væri önnur löggjöf. sem tryggði menn fyrir slysförum. En ég geri ráð fyrir, að verkamenn vilji heldur halda lífi og limum heldur en að fá nokkrar krónur í skaðabætur. Skyndiverkföll geta verið bráðnauðsynleg í mörgum tilfellum, og mætti finna þess dæmi hér á landi. Til dæmis, ef formaður Sjálfstfl. hefði framkvæmt fyrirætlun sína, þegar hann var ráðh. hér um árið og ætlaði að setja fleiri hundruð manns í fangelsi, — hvaða ráð áttu þá verkamenn að hafa til þess að brjóta það á bak aftur? Ekki hefði verið hægt að hafa hálfsmánaðar fyrirvara á að afstýra því. En samkv. frv. Alþfl. og Framsfl. er ekki leyfilegt að gera pólitísk verkföll, og mega þeir vara sig á því, því að ef Íhaldsflokkurinn tæki við völdum, þá myndi hann beita þeim ofbeldísaðferðum, að skyndiverkföll væru nauðsynleg til þess að vernda lýðræðið. Ég mun því, eins og hv. 5. þm. Reykv., greiða atkv. gegn því, að þessu frv. verði vísað til 2. umr. og nefndar.