26.02.1938
Neðri deild: 9. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 77 í C-deild Alþingistíðinda. (2339)

16. mál, vinnudeilur

*Garðar Þorsteinsson:

Ég sé ekki ástæðu til að tefja mikið fyrir því, að þetta mál gangi til n., og get auk þess látið mér nægja að vísa til þess, sem hv. 1. flm. hefir um þetta mál sagt, og til þeirrar grg., sem frv. hefir fylgt á undanförnum þingum. En það eru aðeins nokkur atriði — og þá sérstaklega hjá hæstv. atvmrh. —, sem ég tel ástæðu til að fara nokkrum orðum um.

Hæstv. ráðh. hefir á undanförnum þingum, þegar þetta frv. hefir verið til umr., haldið því fram, að hér væri um algerða þrælalöggjöf að ræða, og nú fyrir tveim dögum lét hann þau orð falla, að það kæmi að sjálfsögðu ekki til nokkurra mála að samþ. þetta frv., því að verkalýðurinn myndi ekki sætta sig við þessa löggjöf. Jafnframt tók hann það fram, að verkalýðurinn myndi að vísu sætta sig við vinnulöggjöf, en ekki slíka sem þessa, heldur þá, sem feist í því frv., sem nú hefir verið boðað og prentað er í áliti vinnulöggjafarnefndarinnar. Nú vil ég benda hæstv. ráðh. á það, að til þess að hann geti stimplað þetta frv., sem hér liggur fyrir, sem þrælalöggjöf, en jafnframt talað um, að hitt frv., sem í vændum er, sé þannig lagað, að verkalýðurinn muni sætta sig við það, þá verður hann að sjálfsögðu að benda á einhver þau atriði í þessu frv., sem sérstaklega gangi á rétt verkalýðsfélaganna umfram það þá, sem í hinu frv. er. Ég hefi ekki heyrt hann nefna eitt einastá dæmi þessu til sönnunar. Hann hefir að vísu nefnt I. kafla frv., sem er um rétt stéttarfélaga og afstöðu þeirra til atvinnurekenda, en ég vil benda hæstv. ráðh. á það, að allur sá réttur, sem í þessum I. kafla frv. vinnulöggjafarnefndarinnar felst til handa verkalýðsfélögunum, er sumpart fram tekinn í okkar frv. og sumpart leiðir hann af stjskr. sjálfri. Það þarf t. d. ekki að taka það fram í lagagrein, að menn eigi rétt til þess að stofna stéttarfélög í þeim tilgangi, að vinna að sameiginlegum hagsmunamálum verkalýðsstéttanna og launtaka yfirleitt. Sá réttur, sem hæstv. ráðh. vill nú halda fram, að þetta frv. sérstaklega veiti verkalýðsfélögunum, felst í stjskr. Og í öðru lagi vil ég benda honum á það, að í frv. okkar er einmitt þessum rétti verkalýðsfélaganna slegið föstum, því að þar stendur, að samninga milli verkalýðsfélaga og vinnuveitenda skuli gera skriflega. M. ö. o., það hefir engum dottið í hug að skerða þann almenna rétt, sem verkalýðsfélögin hafa að þessu leyti til, og allt tal hæstv. ráðh. um það, að l. kafli þessa frv. veiti verkalýðsfélögunum einhver aukin réttindi fram yfir frv. okkar til l. um vinnudeilur, nær þess vegna ekki neinni átt.

Í öðru lagi minntist hæstv. ráðh. á það, að réttur verkalýðsfélaganna væri aukinn í frv. vinnulöggjafarnefndarinnar, með því að þeim veittist kostur á að setja sérstaka trúnaðarmenn á vinnustöðvum og við afgreiðslur skipa. Ég vil nú benda á það, að flm. þessa frv. hafa ætíð lýst því yfir, að þeir væru reiðubúnir til þess að taka brtt., sem mættu verða til samkomulags, og það er a. m. k. víst, að þetta atriði gæti ekki sérstaklega réttlætt það, að þetta frv. væri borið fram, sem nú er þó í vændum, vegna þess að í þeim samningum, sem undanfarið hafa verið gerðir milli verkamanna og vinnuveitenda, eru einmitt ákvæði svipuð sem þessi víða tekin fram, sem sé að verkamenn fái að hafa trúnaðarmenn. Það eru þá þessi tvö atriði — aukinn réttur verkalýðsfélaganna og rétturinn til þess að hafa trúnaðarmenn —, sem mér virðist hæstv. ráðh. byggja þau ummæli sín á, að annarsvegar liggi fyrir þrælalöggjöf og hinsvegar það frv., sem verkalýðurinn gæti fellt sig við.

Auk þessa, sem ég nú hefi tekið fram, þá er það vitað og viðurkennt, að þetta frv. um vinnudeilur er sniðið nákvæmlega eftir löggjöf þeirri, sem gildir um þessi mál á Norðurlöndum, löggjöf, sem þar hefir verið praktiseruð um marga áratugi, og sem ekki er vitað, að alþýða manna né heldur vinnuveitendur hafi sett sig á móti. Hæstv. ráðh. verður því að slá því föstu, að ef okkar frv. er þrælalöggjöf, þá sé heimildin, sem bak við það liggur, sem sé vinnulöggjöf Norðurlanda, líka þrælalöggjöf.

Hæstv. ráðh. sagði í sambandi við ummæli hv. þm. Snæf., að það væri ekki hægt við sáttatilraunir í vinnudeilum að knýja fram gagntilboð. Og þetta er rétt. En með þessu er líka annað játað, sem þeim, er á móti þessari vinnulöggjöf standa, virðist erfitt að viðurkenna, og það er, að verkfallsrétturinn er áfram óskertur. En hæstv. ráðh. gleymdi hinsvegar því, að þó ekki sé hægt að knýja fram gagntilboð, þá er sáttasemjurum með þessu frv. gefinn aukinn réttur og skylda til þess að fylgjast með öllum samningum milli atvinnurekenda og vinnuþega, og hefðu þeir því miklu meiri möguleika til þess að koma á sáttum heldur en þeir hafa nú.

Bæði hv. 5. þm. Reykv. og hv. 5. landsk. hafa talað um það, að verkalýðsfélögin séu ákveðið á móti þessari vinnulöggjöf. Hæstv. ráðh. hefir líka áður sagt þetta og segir það enn að vissu leyti, en takmarkar það þó aðeins við annað frv. En ég fæ ekki betur séð en að síðustu kosningar, bæði til Alþ. og bæjarstjórnar, hafi ótvírætt skorið úr um það, að verkalýðurinn er ekki á móti setningu vinnulöggjafar, því að við báðar þessar kosningar var það eitt af aðalnúmerunum, sem þessi hæstv. ráðh. kom með á þingmálafundum og í útvarpinu, að nú ætlaði íhaldið að skella á þessari þrælalöggjöf, ef það kæmist í meiri hluta. Ef Sjálfstæðisfl. kæmist til valda, mundi hann setja vinnulöggjöf. Hvernig fór við síðustu kosningar bæði til Alþ. og bæjarstjórna? Þannig, að Sjálfstfl. stórjók atkvæðamagn sitt og fékk kosna 4 þm. af 6 hér í Reykjavík og 9 af 15 fulltrúum kosna í bæjarstjórn. Dettur nokkrum í hug, ef jafnmargir meðal verkalýðsins væru andvígir þessari stefnu Sjálfstfl. og sumir vilja vera láta, að þá mundu þeir fylkja sér utan um frambjóðendur hans eins og raun ber vitni um? Dettur hv. þm. í hug, að verkalýðurinn hér í Reykjavík gengi með Sjálfstfl. í þúsunda tali, ef Sjálfstfl. samt sem áður væri búinn að lýsa yfir því, að hann ætlaði að setja og framkvæma þrælalöggjöf og binda verkalýðinn í slíkar viðjar, sem þessir menn eru að reyna að lýsa? Verkalýðurinn hefir gert sér það ljóst, að það er honum sjálfum fyrir beztu, að sett verði vinnulöggjöf. Hinsvegar er enginn, sem neitar því, að það væri æskilegt, að hægt væri að gera það með samkomulagi allra aðilja. því að vitanlega verður framkvæmd l. betri, ef svo er, og þess vegna er Sjálfstfl., eins og hann hefir ætið tekið fram við flutning frv., reiðubúinn til að semja um einstök atriði, eins og hann er nú reiðubúinn til að semja á þessu þingi um þær till., sem hér kunna að koma fram til breyt. Það er enginn vafi á því, hvað sem fá má menn inn á á einhverjum æsingafundum eða í einhverjum verkalýðsfélögum. þar sem málið er ranglega flutt, jafnvel vísvitandi, að þá sannar það á engan hátt, ef málið væri rétt flutt fyrir verkalýðnum, að hann sannfærðist ekki um, að þessi löggjöf er honum ekki hættuleg, og á pólitískum fundum, þar sem báðir aðiljar hafa rætt málið, hefir verkalýðurinn átt kost á að sjá, hvað er sannleikur í þessu máli.

Hv. 5. þm. Reykv. sagði, að eitt af því, sem útgerðarmenn heimtuðu, væri frjáls umráð yfir gjaldeyrinum, og að þeir vildu selja hann fyrir það verð, sem þeim sýndist, en það þýddi kauplækkun fyrir verkalýðinn. Ég fæ ekki séð, að það sé ósanngjörn krafa, þó að útgerðarmenn vilji fá nauðsynleg umráð yfir gjaldeyri til þess að nota til að kaupa það, sem þeir þurfa til útgerðarinnar, og ég man ekki betur en að hv. 5. þm. Reykv. greiddi atkv. með till., sem kom fram um þetta efni á síðasta þingi frá hv. þm. G.-K. Það er a. m. k. víst, að þessi till. var samþ. hér í hv. d., þó að hún yrði ekki að l., vegna þess að ákvæðið um það, að útgerðarmenn fengju frjáls umráð yfir sínum gjaldeyri til notaþarfa útgerðarinnar, var fellt í hv. Ed. Þessi hv. þm. var með þeirri till. (EOl: Hv. þm. skýrir algerlega rangt frá). Hálfbróðir þessa hv. þm., hv. 3. þm. Reykv., greiddi einnig atkv. með þessari till. Ég fæ ekki séð, að það ætti að verða einhver kauplækkun fyrir verkalýðinn, að útgerðarmenn fengju gjaldeyri til þess að kaupa útgerðarvörur fyrir. Það er þvert á móti. því að með því að fá umráð yfir erlendum gjaldeyri, mundu útgerðarmenn komast að betri kjörum, og það mundi þýða kauphækkun, en ekki kauplækkun, svo að hv. 5. þm. Reykv. hefir algerlega misskilið þetta atriði. Og þó að þetta gengi enn lengra, eins og hv. þm. virðist vilja skilja þetta, og útgerðarmenn fengju umráð yfir öllum sínum gjaldeyri, ef það ekki bryti í bága við neitt annað, þá mundi það samt sem áður þýða kauphækkun, en ekki kauplækkun fyrir þá, sem vinna við útgerðina, því að kaupið verður því hærra sem hærra verð fæst fyrir vöruna, og ef andvirði vörunnar er greitt í erlendri mynt, þá fást fleiri íslenzkar krónur fyrir hana en ella. Það er því sama, hvort þetta er tekið í viðtækari eða þrengri merkingu, þetta er ætíð fyrir verkalýðinn, en ekki á móti honum.

Hv. 5. þm. Reykv. nefndi tvö dæmi þess, að nauðsynlegt væri að leyfa skyndiverkföll. Annað var það, að þar sem slæmur aðbúnaður væri á vinnustað, gæti það haft í för með sér slys. ef verkamenn hefðu ekki rétt til þess að leggja strax niður vinnu. Það er búið að sýna þessum hv. þm. fram á það, að slíkt kemur þessu máli ekkert við. Getur hv. þm. bent mér á nokkurt dæmi þess, að nauðsynlegt hafi verið að leggja niður vinnu strax af þessum ástæðum? (EOI: Já). Ég held ekki. Það er óhætt að segja, að sérhver atvinnurekandi, skipstjóri eða verkstjóri við upp- eða útskipun viti, að það er skylda þeirra að ganga þannig frá útbúnaði, að ekki sé hætta á ferðum, og auk þess bakar það mönnum, sem þar að standa, refsiábyrgð, ef svo er ekki, svo að það þarf ekki að gera skyndiverkfali af þessari ástæðu. Það er því ekki verið að taka neinn rétt af verkamönnum að þessu leyti, þó að þeim sé ekki leyft að gera fyrirvaralaust verkfall af þessum sökum.

Hitt dæmið, sem hv. þm. tók, var, að nauðsynlegt væri fyrir verkalýðinn að gera skyndiverkfall, ef kaup fengist ekki greitt. Ég efast um, að það geti nokkurntíma leitt til þess, að verkalýðurinn fái fyrr greitt sitt kaup, ef hann getur stöðvað vinnuna. Það getur verið, að það komi fyrir í einhverju tilfelli, að einhver maður sé þvingaður til þess að greiða kaup. sem fallið er í gjalddaga, fyrr heldur en ella, en það er aðeins undantekningartilfelli, sem skiptir engu máli, þegar dæma á um réttmæti fyrirvaralausrar vinnustöðunnar. Það, sem til greina kemur í þessu sambandi, er sérstaklega það, að verkalýðurinn á landi og á sjó er sérstaklega tryggður með sín vinnulaun. Krafa hans er forgangskrafa í bú þess, sem lætur vinna. Það veit hv. á. þm. Reykv. Og í öðru lagi eru sjómenn sérstaklega tryggðir með löggjöf með sjóveði í skipunum, þannig að þó að þetta gæti komið fyrir og þó að það mætt nefna dæmi þess, þá er það undantekning frá reglunni, svo að það er engin ástæða til þess að leyfa slik fyrirvaralaus verkföll. Þegar verið er að meta, hvort vegna slíkra undantekningartilfella ætti að heimila með l. fyrirvaralaus verkföll af þessum ástæðum, þá verður annarsvegar að miða við það, hve mörg dæmi eru fyrir slíku, og hinsvegar, hvað mikið er í húfi almennt, og mér er óhætt að segja, að fyrir ríkisvaldið og hina almennu heild er miklu meira í húfi, ef fyrirvaralaus verkföll eru leyfð, heldur en þó að ef til vill mætti finna einhver dæmi þess, að slík verkföll gætu gefið verkamönnum einhver sérstök aukin réttindi.

Þegar hv. 5. þm. Reykv. er að tala um, að verkföll séu nauðsynleg til verndunar lýðræðinu, þá er það í rauninni ekki svaravert. Ég held, að það sé meira hugmyndaflug, sem þessi hv. þm. hefir, heldur en almennt gerist, og ef til vill stendur þetta eitthvað í sambandi við grein, sem birtist eftir hann sjálfan í Þjóðviljanum í haust, þegar sameiningin milli Alþfl. og Kommfl. var strönduð, þar sem hv. þm. er að reyna að finna rök fyrir því, hvers vegna ekki megi standa í stefnuskrá þessa væntanlega sameinaða flokks, að hann skuli vinna á grundvelli lýðræðis og þingræðis. Hann vill sem sé halda því fram, sem ef til vill ætti að vera einhver rök fyrir hans afstöðu til þessa atriðis í hinu svo kallaða sameiningarmáli, að sá meiri hluti, sem fer með völd á Alþ., hafi ekki meiri hluta þjóðarinnar að baki sér, sem er að sjálfsögðu rétt. En það er það ástand, sem þessi hv. þm. hefir nú undanfarið lagt blessun sína yfir, því að það er vitað, að sá minni hluti, sem verið hefir á Alþ. undanfarin ár, hefir haft meiri hluta þjóðarinnar að baki sér. Hv. þm. finnst ekkert athugavert við slíkt lýðræðisbrot, ef það er honum og hans flokki í vil.

Það var annaðhvort hv. 5. þm. Reykv. eða hv. 5. landsk., sem sagði það við hæstv. atvmrh., að hann og hans flokksmenn hér á þingi stæðu uppi fylgislausir, þeir hefðu að vísu kjörbréfin í höndum, en enga kjósendur bak við sig, og í slíku tilfelli er það ákaflega bagalegt, að meiri hluti Alþ. skuli styðjast við fylgislausa þm. Hv. 5. þm. Reykv. ætti ekki að vera að beita sér sérstaklega á móti þessu frv. af því, að það sé hætt við, að því lýðræði, sem hann þykist vilja vernda, sé sérstaklega stefnt í voða, ef ekki er leyft að beita verkfallsréttinum. Hann ætti a. m. k. að þora að setja það inn í stefnuskrá þess flokks, sem hann vill stofna, að hann eigi að starfa á grundvelli lýðræðis, ef hann vill vernda lýðræðið með verkföllum. (EOl: Stendur það ekki?). Nei, sameiningin sprakk á því, eins og allir vita. Annars fer betur á því, að þeir rifist um það hálfbræðurnir, hv. 3. þm. Reykv. og hv. 5. þm. Reykv., annarsvegar og svo þessir umboðsmenn Alþfl. hinsvegar.

Hv. 5. þm. Reykv. finnst rangt, að það skyldi vera sett inn í þetta frv. ákvæði um skaðabætur. Ég vil benda hv. þm. á það, að í öllum þeim l., sem gilda um þetta atriði á Norðurlöndum, eru einmitt ákveðnar sektir og skaðabætur, og það er meira heldur en að það sé gert, því að það er líka ákveðið, að mótaðilinn hafi rétt til þess að ganga eftir innheimtu þessara skaðabóta og annara bóta í viðbót, og þessar sektir renna ekki til ríkissjóðs, eins og gert er ráð fyrir í frv. vinnulöggjafarnefndar, heldur til mótpartsins. Hvað segir hv. þm. um slíkt ákvæði? Af þessu dæmi er það auðséð, hvað þessi frv., sem hér er um að ræða, ganga skemmra að þessu leyti heldur en þau l., sem annarsstaðar gilda um þessi efni.

Ég vil svo að endingu aðeins endurtaka það, sem vitanlega er aðalatriðið í þessu máli, en það er það, að ríkisvaldið verður að hafa aukinn íhlutunarrétt um það böl, sem a. m. k. annarsstaðar er viðurkennt sem þjóðarböl, þegar verkfall skellur á verkall ofan, en atvinnuleysi eykst á þann hátt í landinu. Það er a. m. k. viðurkennt alstaðar annarsstaðar en hér. Það er einmitt þetta aukna íhlutunarvald ríkisins, sem við viljum fá fram, með því að sáttasemjara gefist meiri möguleikar til þess að koma á sáttum í vinnudeilum heldur en verið hefir. Og alveg á sama hátt er þetta og hlýtur að verða vilji almennings, eins og það var vilji almennings, að löggjöf var sett um sáttatilraunir í vinnudeilum 1925. Ég veit, — að hér er enginn til, sem ekki viðurkennir, að þau l. séu réttmæt. Enginn neitar því, að í fjölmörgum tilfellum hefir sáttasemjara ríkisins tekizt að koma á sáttum, þar sem annars hefðu haldið áfram vinnudeilur. Hvers vegna má þá ekki reyna að fikra sig áfram á þeirri braut, sem farin hefir verið og gefizt hefir vel? Hvers vegna megum við ekki feta í fótspor annara þjóða og auka þetta vald, eins og hér er lagt til í þessu frv.? En hinsvegar hefir okkur aldrei komið til hugar að svipta verkalýðinn þeim rétti, sem hann hefir í fyrsta lagi til að slá sér saman í félag. Sá félagsskapur er viðurkenndur réttur samningsaðili í þessu frv. Og hinsvegar hefir verkalýðurinn sama rétt og áður, innan vissra takmarka, um frest til þess að gera verkfall út af ágreiningi um kaup. Og að síðustu vil ég svo taka það fram, sem ég legg áherzlu á, og andstæðingar þessa máls vilja gleyma, að dómstóllinn á aldrei að dæma um kærurnar sjálfar, heldur aðeins um gildi samninganna, sem gerðir hafa verið. Verkalýðurinn hefir sama rétt áfram til þess að ákveða, fyrir hvaða kaup hann vinnur.