26.02.1938
Neðri deild: 9. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 82 í C-deild Alþingistíðinda. (2340)

16. mál, vinnudeilur

Einar Olgeirsson:

Ég ætla að segja nokkur orð út af því, sem hv. 8. landsk. sagði í síðustu ræðu sinni, í fyrsta lagi viðvíkjandi gengislækkuninni og hættunni á henni og kröfum stórútgerðarmanna um umráð yfir gjaldeyri fyrir þær vörur, sem þeir framleiða og mun hafa verið um 40 millj. kr. eftir síðustu ársframleiðslu að dæma. Það, sem rætt var um í fyrra hér á þinginu og fólst í brtt. hv. þm. G.-K. í sambandi við frv. til l. um gjaldeyrisverzlun, sem lá þá fyrir þinginu, var það, að útgerðarmenn fengju umráð yfir þeim hluta af sínum gjaldeyri, sem þeir þyrftu til innkaupa á nauðsynlegum útgerðarvörum. Það þýðir, að í staðinn fyrir, að þeim gjaldeyri er nú ráðstafað til hringa og heildsala, sem verzla með olíu, kol og salt, fengju útgerðarmenn gjaldeyrinn beint í sínar hendur. Við kommúnistar fluttum till. á þinginu, sem gengur í líka átt og tryggir útgerðarmönnum sjálfum gjaldeyrisleyfi fyrir þessum vörum, en við göngum lengra, því að við viljum tryggja útgerðarmönnum umráð yfir þessum gjaldeyri á undan hringunum. Það er eðlilegt og sjálfsagt að hjálpa sérstaklega smáútvegsmönnum til þess að fá umráð yfir þessum gjaldeyri til þess að kaupa nauðsynjar til útgerðarinnar. Það, sem um er að ræða nú og kemur fram í kröfum stórútgerðarmannanna, er það, að þeir vilja í rauninni fá umráð yfir öllum gjaldeyri útgerðarinnar til þess að geta braskað með hann, og það þýðir það, að þeir geta selt hann dýrara en hann nú er og fellt þannig íslenzku krónuna í verði, a. m. k. um 20%, og gagnvart verkalýðnum þýðir þetta það, að verð á innfluttum afurðum hækkar sem því svarar, og ef vöruverð hækkaði um 20%, þá mundi kaup og kjör verkamanna og bænda rýrna að sama skapi. Þarna er um tvennt ólíkt að ræða, sem ekki má blanda saman. Kommfl. og Alþfl. eru einu flokkarnir, sem eru á móti tilraunum stórútgerðarmanna til þess að lækka gengið, sem veldur stórkostlegri dýrtíð og lækkuðu kaupi hjá verkalýðnum, bæði beint og óbeint.

Hv. 8. landsk. minntist á, að atvinnurekendur hefðu hagsmuni af því að sjá um, að aðbúnaður á vinnustöðum væri í lagi. Staðreyndirnar tala bara öðruvísi. Það eru ekki fá slys í verksmiðjum og við uppskipun, sem beinlínis stafa af algerðu hirðuleysi viðkomandi atvinnurekenda og fulltrúa þeirra um aðbúnað, og menn vita, hvað sagt er, þegar verkamenn kvarta yfir slíku. Það er sagt: það er hægt að nota þetta. Atvinnurekendur reyna að spara og spara og láta tækin ganga sér til húðar.

Hv. 8. landsk. hefir nú heyrt það, sem hv. 5. landsk. vitnaði hér áðan til álits formanns Landssambands verkamanna í Svíþjóð, sem hann skrifaði til vinnulöggjafarnefndar, þar sem kvartað er undan því, að vinnulöggjöf sé því til hindrunar, að byggingarverkamenn fái greitt kaup, sem þeir eiga rétt á, og enn verra yrði hér uppi á teningnum í þessu efni.

Það var eftirtektarvert, að hv. 8. landsk. talaði í allri sinni ræðu um verkföll, en í frv. þeirra sjálfstæðismanna er reynt að láta lita svo út sem verið sé að gera verkamönnum og atvinnurekendum jafnhátt undir höfði. Hv. þm. talar um, hvað ríkisvaldið eigi mikið í húfi, ef verkföll verði leyfð, en sami hv. þm. minnist ekki einu orði á, hvað ríkisvaldið eigi í húfi, ef vinnustöðvanir atvinnurekenda eru leyfðar. Þarna gægist nokkuð vel fram undan sauðargærunni það, sem undir henni býr.

Hv. 8. landsk. var að tala um, að það væri óvarlegt af mér að fala um verkföll til verndunar lýðræðinu. Það vill nú svo vel til, að það er til nokkuð ljóst dæmi um þetta, og meira að segja frá síðasta áratug, þegar okkar eiginn konungur hafði í frammi sitt alkunna framferði og gerði „statskup“. Þá gerðu verkalýðsfélögin dönsku allsherjarverkfall til þess að bjarga lýðræðinu undan þingræðinu. Ef þessi hv. lögfræðingur vill athuga, hvað þingræði yfirleitt þýðir, þá sér hann, að samkvæmt íslenzku stjskr. hefir konungur jafmikinn rétt og þetta löggjafarþing, sem við sitjum á, meðan því er ekki breytt. Það þýðir, að konungur getur neitað að staðfesta l., svo að löggjafarvald Alþ. er alls ekki fullkomið. Það er vitanlegt, að lögfræðingar dæma ekki eftir öðru en bókstaf l., og ef við eigum að taka okkar stjskr. og athuga hana, þá verðum við að líta á galla hennar, og þar með vitum við, að þingræði okkar er háð konungsvaldinu. Dæmið frá 1921 í Danmörku sýnir okkur. hvernig konungsvaldinu var beitt þar í landi. Það sýnir, hvernig þingræðið, sem verið er að tala um, að sé svo dýrmætt í þessu sambandi, er notað af hendi einnar persónu í þágu stórgróðamannanna í landinu og afturhaldsins beinlínis á móti yfirgnæfandi meiri hluta landsfólksins. Það er því alveg auðsætt mál, að það getur verið nauðsynlegt fyrir verkalýðinn að gripa til verkfalla hreint og beint til að bjarga lýðræðinu. (Forseti: Ég vil minna hv. þm. á, að þetta er aðeins aths.) Ég ætlaði eiginlega að segja fleira, en þar sem ég sé, að hæstv. forseti er orðinn óþolinmóður, er bezt, að ég sleppi því að sinni.