25.02.1938
Neðri deild: 8. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 84 í C-deild Alþingistíðinda. (2344)

20. mál, dýralæknar

Flm. (Vilmundur Jónsson):

Frv. þetta, sem er flutt m. a. fyrir einróma áskorun kjósenda minna í N.-Ísf., samþykkta á þing- og héraðsmálafundi þar, miðar aðeins að því að bæta 1 dýralækni í tölu skipaðra dýralækna, sem nú eru 5, og fá honum aðsetur á Vestfjörðum. Það er svo með bændur í báðum Ísafjarðarsýslum og Strandasýslu, að þeir eiga þess engan kost að ná til lærðs dýralæknis, og enn siður geta þeir fengið slíkan dýralækni á heimili sín, sem stundum getur verið þýðingarmikið fjárhagsatriði, ekki sízt í sambandi við loðdýrarækt, sem nú er þar talsverð orðin og fer vaxandi. Því verður ekki með rökum mótmælt, að Vestfirðingar eigi sama rétt til þess að hafa fullgildan dýralækni og íbúar í öðrum landshlutum. Ég vil líka vekja athygli á því, að auk hinnar almennu nauðsynjar á því, að bændur eigi þess kost að vitja dýralæknis, þá er það ómetanlegt, að dýralæknar sitji í öllum stærstu kaupstöðunum, til þess að hægt verði að koma þar við viðunandi eftirliti með matvælum, þ. e. með kjöt- og mjólkurframleiðslunni, sem illa verður rækt nema með aðstoð dýralækna. Það er að sjálfsögðu ekki vinsælt á þessum tímum að biðja um fjölgun starfsmanna hins opinbera, en ég vil í því sambandi geta þess, að hér er raunverulega ekki um mikil aukaútgjöld að ræða fyrir ríkissjóð, vegna þess að á Vestfjörðum starfar nú einn dýralæknir, án embættis, kominn að fótum fram og hefir verið styrktur árlega með 1200 kr., auk þess sem aðrir ólærðir menn í Vestfirðingafjórðungi hafa haft nokkra þóknun fyrir að veita aðstoð við dýralækningar. Ef þessu fé yrði varið til að launa einn lærðan dýralækni, mundu þetta verða lítil aukaútgjöld. Ég vil að lokum biðja sem bezt fyrir þessu frv. og óska eftir, að því verði, að lokinni þessari umræðu vísan til landbúnaðarnefndar.