03.03.1938
Neðri deild: 13. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 93 í C-deild Alþingistíðinda. (2367)

36. mál, skipaviðgerðir

Flm. (Ísleifur Högnason):

Þetta frv. hefir verið flutt á 3 undanförnum þingum, en alltaf dagað uppi.

Aðaltilgangurinn með frv. er að koma í innlendar hendur viðgerðum á skipaflotanum, sérstaklega togaraflotanum. En viðgerðarkostnaður þessi nemur nú árlega um 1 millj. kr. alls. Þar af eru framkvæmdar viðgerðir í landinu fyrir um 400 þús. kr., en erlendis fyrir um 600 þús. kr. Þetta er afarmikið fé og vinna, sem þarna fer út úr landinu, eins og menn geta séð af því, að 2/3 af viðgerðarkostnaðinum mun vera vinnulaun.

Ég skal viðurkenna, að eins og sakir standa, þá mun stálsmiðjurnar hér á landi vanta tæki til þess að geta framkvæmt viðgerðirnar á svo skömmum tíma sem útgerðarmenn krefjast, en á því er enginn vafi, að ef þetta frv. yrði að 1., mundu smiðjurnar afla sér þeirra tækja, sem þarf til þess, að viðgerðirnar gætu farið fram svo fljótt, að ekki yrði meiri töf að því en að láta gera við skipin erlendis.

Það má líka geta þess, að í frv. er gert ráð fyrir, að viðkomandi ráðuneyti samþ. eða löggildi þær skipasmiðjur, sem teljast fullnægjandi, og þótt l. yrðu samþ., þá kæmu þau ekki til framkvæmda fyrr en tryggt væri, að þessar smiðjur gætu leyst verkið eins fljótt og vel og ódýrt af hendi og þær erlendu.

Ég ætla ekki að fjölyrða um frv., en geri það að till. minni, að því verði vísað til sjútvn. og 2. umr. Vona ég, að n. taki málið til ýtarlegrar íhugunar og skili nú nál., þar sem þetta er í 3. sinn, sem hún fær það til meðferðar. Ég vænti því, að málið fáist nú afgr. frá n., svo að almenningi gefist kostur á að heyra undirtektir þingsins undir málið.