04.03.1938
Neðri deild: 14. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 94 í C-deild Alþingistíðinda. (2370)

39. mál, efnahagsreikningar

Flm. (Skúli Guðmundsson):

Frv. þetta á þskj. 42 er fram borið í þeim tilgangi, að gefa almenningi kost á að kynnast hag verzlana og atvinnufyrirtækja félaga og einstaklinga, er hafa að láni mikið fé frá bönkum og sjóðum hérlendis. Við flm. lítum svo á, að alla landsmenn varði, hvernig varið er fé því, sem slíkar stofnanir eiga.

Ríkið birtir árlega efnahags- og rekstrarreikninga ríkissjóðs og stofnana ríkisins. Verður ekki séð, að minni ástæða sé til að birta reikninga þeirra fyrirtækja, er skulda bönkunum og öðrum lánsstofnunum fé, þar sem bankarnir eru að mestu leyti eign ríkisins og reknir á þess ábyrgð.

Frv. ákveður, að öll fyrirtæki, félög og einstaklingar, er skulda bönkum eða sjóðum samtals 50 þús. kr. í árslok eða meira, skuli birta slíka reikninga. Við sáum ekki ástæðu til að krefjast reikninga af aðiljum, sem skulda minna eða þá ekkert.

Í frv. er ekki gengið eins langt í kröfum um reikningsskil og nú á sér stað um ríkisstofnanir, þar sem hér er nær eingöngu krafizt efnahagsreikninga, en rekstrarreikningum að mestu sleppt, þó að fjármálaráðuneytinu sé heimilað að krefjast líka rekstrarreikninga undir vissum skilyrðum.

Í 6. gr. frv. er prentvilla. Þar á að standa 100–10000 kr. um upphæð sektanna, en ekki 100–1000 kr.

Óska ég svo þess, að frv. verði, að umr. lokinni, vísað til 2. umr. og allshn.