05.04.1938
Neðri deild: 41. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 111 í C-deild Alþingistíðinda. (2383)

39. mál, efnahagsreikningar

Frsm. meiri hl. (Sveinbjörn Högnason):

Það er einkennilegt að sitja hér lengi og hlusta á þm. tala af heilögum eldmóði um það, hvílík firn séu hér á ferðinni. Annars er það aðallega tvennt, sem hefir komið berlega í ljós í þessum umræðum. Í fyrsta lagi hræðslan við það, að missa aðstöðu til þess að fara með sparifé þjóðarinnar án þess að vera krafinn reikningsskapar, og í öðru lagi fyrirlitningin á dómgreind almennings. Þá fyrst var hv. 6. þm. Reykv. í essinu sínu, þegar hann jós sér yfir það, að almenningur, sem ekkert skyn bæri á þessa hluti, ætti nokkuð að fá að fylgjast með. Ég býst við, að hann tali kannske á aðra leið á kjósendafundum. En einmitt fyrir eftirlitsleysi og vöntun á aðhaldi frá almenningi tapast milljónir. Þess vegna er dálítið hart að sitja undir því, að einmitt þeir, sem sekastir eru, skuli verja óhæfuna með oddi og egg og hella sér yfir það, hvað það væri fráleitt, að almenningur ætti að geta haft hönd í bagga með meðferð sins eigin fjár.

Ég ætla ekki að fara út í einstök atriði, sem hér hafa verið rædd, þau hafa ekki verið svo merkileg; æ ofan í æ hefir verið stagazt á því sama. Þessir menn vita ekki, hvaða orðblóm þeir eiga að taka sér í munn til þess að lýsa hneykslan sinni á því, að almenningur eigi að fá að fylgjast hér með. Eins og hún sé ekki sjálfkjörin, þessi stétt þjóðfélagsins, sem lánar milljónir hjá bönkunum. Ég skil ekki hugsunarhátt þennan. Hann er slíka óraleið frá óspilltum hugsunarhætti almennings.

Það er alveg óþarfi fyrir hv. þm. að fara að ókyrrast strax, því að ég á mikið eftir. Og eftir okkar viðræður ætlast ég til, að hann telji það ekki eins sjálfsagt, að hann einn eða kaupsýslustéttin, sem hann er málsvari fyrir, eigi að ráða því, hvernig fer um fé almennings.

Það er aðallega tvennt, sem fram hefir komið í umr. hér frá þeim, sem mælt hafa gegn frv. Í fyrsta lagi, hvað það sé háskalegt að veita almenningi upplýsingar um þetta, og í öðru lagi, að þetta frv. sé fram komið til þess að ala á rógi á hendur útgerðar- og fésýslumönnum. M. ö. o., þeir, sem leggjast á móti þessu máli, ganga út frá því, að eitthvað ljótt hljóti að koma í ljós. Þar getur ekki annað verið á bak við. En ég verð að segja, að það gefur frv. meiri byr í seglin og sannfærir mig enn betur um, að það er þjóðarnauðsyn. að frv. gangi í gegn þegar á þessu þingi.

Það er alveg furðulegt, hvað ýmsum hv. þm. finnst það háskalegt, að almenningur fái að vita eitthvað í þessu efni. Hv. 8. landsk. sagði, að það væri sjálfsagt að birta efnahagsreikninga samvinnufyrirtækja. bara ekki einstaklinga. En ætli það væri þá ekki líka háskalegt fyrir hina og rétt að láta sama yfir báða ganga? Það hefir aldrei vakað annað fyrir mér en að skapa heilbrigt aðhald, til þess að ekki sé sukkað ábyrgðarlaust, eins og of oft hefir átt sér stað.

Það var nokkuð merkileg yfirlýsing hv. 8. landsk. í gær, þegar hann sagðist vera viss um, að fá félög einstaklinga væru svo fjárhagslega sterk, það þau þyldu þá gagnrýni, að efnahagsreikningar þeirra væru birtir. Ég vil ekki álíta, að þetta sé svo. En þessi yfirlýsing hv. þm. sýnir, hvað samvinnufélögin eru miklu heilbrigðari og betri fyrirtæki en þau fyrirtæki einstaklinga, sem hv. 8. landsk. hefir sérstaklega í huga, því að þau hafa þolað þessa gagnrýni ár eftir ár. Hefir hv. þm. gert sér grein fyrir, hversu óskaplegt vantraust þetta er? Það mundi a. m. k. þykja svívirðilegur rógur, ef ég hefði sagt þetta um einkareksturinn. En ef svona er ástatt, þá eiga viðkomandi fyrirtæki að koma til gjaldþrotaskipta. Við skulum taka til dæmis þá, sem urðu gjaldþrota, þegar Íslandsbanki fór um. Hefði ekki verið heppilegra, að efnahagsreikningar þeirra hefðu verið birtir, áður en bankinn fór á hausinn, og gjaldþrot hinna glæfralegu fyrirtækja hefðu verið knúð fram áður en allt þetta tap var komið?

Ég fullyrði, að einmitt það, sem kemur fram hjá hv. minni hl., mælir svo eindregið með því, að frv. verði samþ. nú þegar, að ég skil ekki, að þm. með ábyrgðartilfinningu gagnvart almenningi geti verið á móti því. Yfirlýsingar frá mönnum, sem standa nærri skuldugum fyrirtækjum, gefa of miklar grunsemdir um, að eitthvað sé óheilbrigt á bak við.

Þá talaði hv. 6. þm. Reykv. um, að það væri svo sem ekkert góðverk við menn, að vera að lána þeim fé. Nei, allt er þetta lagt á sig fyrir blessaða þjóðina, þegar farið er í bankana og milljónir teknar að láni og farið með sem eigið fé. Ég er hv. þm. sammála um, að það er ekkert góðverk að láta menn sofna í ábyrgðarleysi. En það er það einkennilega við þessa menn, sem hv. minni hl. er að verja, að þeim finnast þeir vera sjálfkjörnir til þess að ganga í bankana og fá þar fé eftir þörfum.

Af því að ég tel mig ekki í hópi þeirra manna, sem álíta allt leyfilegt, þegar þeir óska að hefta mál eða koma þeim áfram með málþófi, ætla ég ekki að tala meira. Ég tel mig hafa drepið á það helzta og skýrt málið frá mínum bæjardyrum. Vona ég svo, að menn greiði atkv. eingöngu eftir hagsmunum almennings og þjóðarinnar.