06.04.1938
Neðri deild: 42. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 124 í C-deild Alþingistíðinda. (2389)

39. mál, efnahagsreikningar

*Frsm. minni hl. (Garðar Þorsteinsson):

Það eru aðeins nokkur orð í ræðum nokkurra hv. þm., sem ég vildi svara, þar sem þeir hafa reynt að hrekja nokkur atriði í máli mínu við fyrri umr. þessa máls.

Ég held, að það hafi allir hlotið að taka eftir því, sem heyrðu ræður hv. frsm. meiri hl., hina síðari sérstaklega, að hann fór ekki hið minnsta inn á efni þessa frv., þannig að hann færði fram nokkur rök fyrir því. að rétt væri að samþ. það.

Hann fór ekki inn á einstakar gr. þess, heldur stagaðist stöðugt á því, að almenningur þyrfti að vita um lánveitingar til einstakra manna, og sló svo fram, að eitthvað ljótt hlyti að vera falið, úr því að við vildum ekki láta þetta koma fram. Ég vil fyrst benda þessum hv. þm. á það, að hann virðist nú ekki, þrátt fyrir þær umr., sem hér hafa farið fram, og þrátt fyrir nál. og þau önnur álit, sem þessu máli fylgja, þrátt fyrir bæði gildandi íslenzka löggjöf um þetta efni, sem er hlutafélagalögin, og þrátt fyrir það, sem í grg. frv. er tekið fram, að sé gildandi í löggjöf um þetta efni á Norðurlöndum — þrátt fyrir allt þetta hefir sá hv. þm. ekki gert sér ljóst, að tvennt ólíkt gildir um birtingu efnahagsreikninga hlutafélaga, samvinnufélaga og opinberra stofnana annarsvegar og einstaklinga hinsvegar. Og rökin fyrir þessu eru þau að því er snertir hlutafélögin, að þá er aðgangur að þeim til þess að eignast hlutdeild í þeim. Hana eignast menn með því að kaupa þau skjöl, sem hlutabréf eru nefnd og hljóða á handhafa. Það eru engar hömlur við því settar, að menn fái slík bréf keypt. Það er þess vegna eðlilegt, að almenningur, sem hefir þannig greiðan aðgang að því að kaupa þessi bréf og verða meðeigandi í fyrirtæki, fái að hafa aðstöðu til þess að dæma um efnahag fyrirtækisins. Þetta gildir um hlutafélög, og það er einmitt þess vegna, sem 35. gr. hlutafélagalaganna leggur hlutafélögum þá skyldu á herðar að láta birta niðurstöðutölur efnahagsreikninga sinna við hver áramót. Að því er snertir samvinnufélögin og kaupfélögin, þá gildir þar um að nokkru leyti það sama, vegna þess að borgararnir hafa þar fullan aðgang að því að geta orðið félagar í þeim félögum, hvenær sem er. Þetta eru þannig lagað opinber fyrirtæki, að menn geta gengið inn í skrifstofur þeirra og lálið innrita sig í þau sem félaga, þeir taka á sig ábyrgð gagnvart fyrirtækinu o. s. frv. Af þessum ástæðum er það eðlilegt, að menn hafi aðgang að efnahagsreikningum þessara félaga. En það gildir allt annað um einstaklingana, vegna þess, að þó að t. d. hv. 1. þm. Rang. ræki eitthvert fyrirtæki undir sínu nafni, þá hefði ég engan aðgang að því að vera meðeigandi hans í þessu fyrirtæki. Ég veit kannske, að fyrirtækið er gott, og mig langar til að eignast það með honum, en ég hefi þó engan aðgang að því, nema hann samþ. það. Allt annað væri, ef hann stæði fyrir félagi, sem væri hlutafélag; þá gæti hann ekki varnað mér að verða sameigandi sinn að því, af því að ég gæti keypt mér hlutabréf af Pétri eða Páli og þannig gerzt sameigandi í félaginu. Þetta er meginmunur á aðstöðu til að verða meðeigandi í fyrirtækjum.

Ég vil ekki vera að endurtaka það, sem ég sagði í sambandi við það lánstraust og traust hjá almenningi, sem enginn getur neitað, að er hverjum þeim einstaklingi og hverju félagi nauðsynlegt, sem rekur einhverja atvinnu. Hinsvegar er það alveg ljóst, að ef efnahagur einstaklinga og fyrirtækja liggur undir gagnrýni þess opinbera, þá getur það riðið trausti þeirra að fullu. Þeir missa þá möguleika, sem þeir annars hefðu í sambandi við atvinnureksturinn. Hv. frsm. var ákaflega harðorður í þessu efni og hélt því fram, að það væri síður en svo athugavert við það, þó að menn, sem ekki ættu fyrir skuldum, lentu fyrir gagnrýni, því að það væri skylda þeirra að gefast upp og þeir ættu skilyrðislaust að gera það, áður en þeir fengju ef til vill tugi þúsunda króna að láni. Þetta kann að vera rétt, ef litið er á strangasta bókstaf gjaldþrotaskiptal., en eftir brtt. hv. meiri hl. n. á niðurjöfnunarnefnd að votta, að reikningarnir séu réttir, þó að allar þær fasteignir t. d., sem gefnar eru upp til skattaframtals, séu ekki færðar með raunverulegu verði, heldur fasteignamatsverði, og niðurstaðan geti hæglega orðið sú, að samkvæmt þessum uppgefnu efnahagsreikningum eigi einstaklingar eða fyrirtæki ekki fyrir skuldum, þó að þau eigi það í raun og veru. Eftir framsetningu hv. 1. þm. Rang. að dæma, vill hann ekki taka tillit til þess, heldur miða við það, sem efnahagsreikningarnir sjálfir segja til um. En jafnvel þótt hann vilji ekki leggja svo strangan skilning í þetta, þá er sjálfsagt enginn vafi á því, að pólitískir andstæðingar muni reyna að draga þetta þannig fram; þeir mundu vilja gera þessa menn tortryggilega með því að vísa til efnahagsreikninganna og sýna fram á, að samkvæmt tölunum einum ættu hlutaðeigandi fyrirtæki ekki fyrir skuldum. Það er mjög erfitt fyrir viðkomandi mann eða fyrirtæki að sýna sérstaklega fram á, að tölur, sem upp eru gefnar, séu of lágar. Það er auðveldara að slá fram dylgjum og árásum í þessu sambandi heldur en að hreinsa sig af þeim, og það mundi þess vegna í mörgum tilfellum verða þannig, að fyrirtæki eða einstaklingur, sem raunverulega ætti fyrir skuldum, en berðist kannske í bökkum og ætti einhverjar eignir, sem færðar væru á efnahagsreikning neðan við raunverulegt verð, mundi verða ofurseldur opinberri gagnrýni og missa það traust, sem hann hefði kannske hjá almenningi, svo að hann ætti ekki annars úrkosta en að gefa sig upp sem gjaldþrota. Ég hygg, að það sé ekki tilætlun þingsins að ganga þá leið, að gera einstaklingum miklu erfiðara fyrir heldur en annars þyrfti að vera, og þó að hv. 1. þm. Rang. og sá kommúnisti, sem hér hefir talað í þessu máli, vilji gera eitthvert gys að því að telja það lánstraust, sem einstaklingar og fyrirtæki hafa hjá almenningi, eign, sem í raun og veru ætti að vera varin af stjskr., þá er það misskilningur þeirra, en ekki minn, því að það er að sjálfsögðu ekki hvað minnst verðmæt eign hvers einstaklings eða félags, sem rekur einhverja atvinnu, að hafa traust almennings og að hafa lánstraust, þó að sú eign sé kannske ekki talin mikils virði við skattaframtal eða uppskriftir.

Hv. 1. þm. Rang. taldi, að það væri ákaflega lítils um vert, þó að fyrirtæki lentu undir gagnrýni, því að það hefði verið þannig og enginn um fengizt. Ég vil benda hv. þm. á, að það hafa ekki risið upp svo fá mál fyrir íslenzkum dómstólum einmitt í sambandi við það, að félög eða einstaklingar hafa orðið fyrir árásum í sambandi við sinn atvinnurekstur og efnahag. Hv. þm. nefndi S. Í. S. í þessu sambandi. Það er rétt, að S. Í. S. hefir staðið í málaferlum oftar en einu sinni einmitt til þess að fá menn dæmda í skaðabætur fyrir það tjón, sem félagið telur sig hafa orðið fyrir vegna árása pólitískra andstæðinga. Ég skal taka það fram, að ég álít, að það eigi að taka hart á því, ef fyrirtæki eða einstaklingar verða fyrir slíkum árásum, sem hnekkja þeirra atvinnurekstri. Ég vil benda á eitt dæmi í þessu sambandi, sem þessi hv. þm. man kannske eftir, en það var, þegar ritstjóri Tímans þáverandi, Tryggvi Þórhallsson, var dæmdur í 12000 kr. skaðabætur, ef ég man rétt, til Garðars Gíslasonar, fyrir það, að í Tímanum stóð grein, sem Garðar Gíslason sannaði, að hefði bakað sér tjón. Ég veit, að þessi hv. þm. man líka eftir skaðabótamáli, sem S. Í. S. höfðaði gegn Birni Kristjánssyni, Garðari Gíslasyni og fleirum. Þessi dæmi sýna, að það koma fyrir tilfelli, þegar slík fyrirtæki telja blaðaárásir baka sér tjón, og í einstökum tilfellum fá þau dæmdar skaðabætur. Vill hv. þm. halda því fram, að þetta sé gott fordæmi og að löggjafinn eigi að setja einhver ákvæði, sem óumflýjanlega verða til þess, að slík tilfelli verða tíðari? Það er að sjálfsögðu enginn vafi á því, að ef farið verður að birta rekstrar- og efnahagsreikninga einstakra manna og þeir síðan dregnir inn í blaðadeilur og umræður á fundum, þá yrði það til þess að skaða þessa menn, og þá er ekki alltaf sagt frá málavöxtum sem sannast, heldur reynt að draga allt til verri vegar. Þetta mundi geta komið af stað málaferlum eins og þeim, sem ég nefndi, og Alþ. ætti sízt af öllum að ýta undir slíkt fordæmi. — Ég man eftir einu máli, sem mjög mikið var rætt um á sínum tíma og höfðað var af hinu opinbera gegn Carli Behrens. Í sambandi við það mál var ekki aðeins deilt um það í blöðum, hvers virði þær eignir voru, sem hann átti á ýmsum tímum, samkvæmt hans efnahagsreikningi, heldur var líka deilt um það fyrir dómstólunum. Þetta dæmi sýnir líka mjög vel, að slíkt vekur oft harðar deilur, sem jafnvel geta gengið svo langt, að sekt eða sýknun eins manns af refsiákæru byggist beinlínis á því, hvort hægt er að sýna með rökum fram á, að þessi eða hin eign hans sé metin á þessa eða aðra upphæð. Menn geta ímyndað sér, hvernig fara mundi, ef þessir reikningar væru almennt birtir, og þeir, sem hlut eiga að máli, þyrftu að hlíta því, að um þetta væri rætt opinberlega og það gert eins tortryggilegt og hægt væri.

Hv. þm. N.- Þ. sagði, að það stæði allt öðruvísi á í þessu efni hér en annarsstaðar; það væri meiri ástæða til þess að birta efnahagsreikninga einstaklinga hér á landi og setja um það löggjöf heldur en á Norðurlöndum, t. d. Ég tel, að það hefði verið heppilegra, að hv. þm. hefði tekið það fram í grg., að hér þyrfti strangari löggjöf í þessu efni, heldur en að segja í grg., að löggjöfin eftir þessu frv. sé sú sama og á Norðurlöndum, en fyrir misskilning, væntanlega, hefir hann ekki gert það. Þetta er bara öfugt, af því að það er hægt að færa fram margar ástæður fyrir því, að það er ekki jafnmikil þörf á því að birta efnahagsreikninga hér á landi og setja um það löggjöf eins og á Norðurlöndum. Það stafar m. a. af því, hvað þessi þjóð er fátæk og smá, og hvað menn þekkjast hér persónulega meira heldur en í stórborgum í öðrum löndum, þar sem millj. manna búa og hver maður er ekki dreginn fram í dagsljósið vegna sinna athafna og gerða opinberlega, heldur fyrir það, sem hann gerir sem einstaklingur „prívat“. Hv. þm., sem hefir verið ritstjóri í mörg ár, veit um þær blaðadeilur, sem hér hafa átt sér stað, og hann hefir sjálfur margsinnis verið dæmdur í háa sekt fyrir meiðyrði um náungann, en slíkt er algengara hér á landi heldur en annarsstaðar, þar sem siðleysi kunningsskaparins er ekki eins mikið. Það er þess vegna síður en svo, að það sé meiri ástæða hér á landi til þess að draga fram opinberlega ýms atriði, sem snerta rekstur einstaklinga og félaga, og gefa mönnum þannig tækifæri til þess að ráðast á mótstöðumenn sína út af efnahag þeirra, heldur en annarsstaðar.

Hæstv. atvmrh. er hér ekki, svo að ég skal ekki fara inn á mörg atriði, sem hann minntist á, en það er að sjálfsögðu algerður misskilningur hjá honum, þegar hann telur, að óþarft sé að birta efnahag ríkissjóðs, af því að allir flokkar hafi aðstöðu til þess að endurskoða reikninga hans. Hv. þm. Snæf. hefir sýnt fram á og fært svipuð rök fyrir því, að það gilti allt annað um það, sem er þjóðareign, eins og opinberar stofnanir, svo sem póstur, sími, útvarp o. s. frv., þar sem hver einstakur borgari er í raun og veru meðeigandi og hefir fullan rétt og kröfu til þess að fylgjast með rekstrinum, heldur en um einstaklinga, sem hafa fyrst og fremst sinna hagsmuna að gæta og sitt fé að verja, en ekki fé almennings.

Ég get ekki verið hæstv. ráðh. sammála um það, að ef finna á einhvern mælikvarða fyrir því að skylda einstaklinga til þess að birta efnahagsreikninga. þá skuli skuldarupphæðin lögð til grundvallar, af því að það er ómótmælanlegt, að sá einstaklingur, sem á t. d. hús hér í bænum, sem er um 100 þús. kr. að fasteignamati, fær lán í bönkum og sparisjóðum út á þá eign, sem nemur allt að þeirri upphæð, og mun enginn minnast á það, að slíkt veð væri ekki tryggt. Hinsvegar getur maður, sem skuldar 10–20 þús. kr., verið miklu verr stæður, og þær skuldir, sem hann stendur í við banka eða aðra lánsstofnun, verið miklu verr tryggðar, og áhætta bankans af þeim manni um það, að það fé tapist, sem sá einstaklingur hefir að láni, er miklu meiri heldur en af þeim manninum, sem skuldar 100 þús. kr., en hefir betra veð. Skuldarupphæðin sjálf er þess vegna enginn mælikvarði.

Ég sé ekki ástæðu til að svara hv. 5. þm. Reykv., en þó vil ég aðeins minnast á það atriði í hans löngu ræðu, þegar hann var að vaðla um Íslandsbanka og talaði um, að bankastjórn hans hefði, hálfum mánuði áður en gjaldþrotið varð, lýst yfir því, að engin hætta væri á ferðum og allt í bezta lagi. Ég vil benda hv. þm. á það, að efnahagsreikningur bankans var alltaf birtur, og ef það á að vera svona dæmalaust mikið sálarhjálparatriði í þessu efni að birta þessa efnahagsreikninga, eins og þessi hv. þm. heldur, — hvers vegna fór þá svona fyrir Íslandsbanka? Ef það á að vera það ráð, sem dugir, að birta efnahagsreikningana opinberlega, þá átti þetta almenningsálit að koma svo sterkt fram, að þessi töp hefðu ekki orðið á Íslandsbanka. (EOl: Heldur hv. þm., að allir reikningar séu falsaðir?) Ef þetta er það eina, sem með þarf í þessu efni að áliti hv. þm., þá ætla ég að benda honum á. að þetta lá ekki fyrir í þessu tilfelli, því að reikningar bankans voru alltaf birtir. Hv. þm. gætir ekki að því, að til þess að eitthvert gagn sé í þessu, þarf meira til; þá þarf þessi dómari, almenningur, að sjá, hvernig þær eignir eru, sem taldar eru fram. Segjum t. d., að í mínum efnahagsreikningi gæfi ég upp, að eignir og skuldir stæðust á, og ég gæfi upp sem heildarupphæð, að ég ætti hjá öðrum 10000 kr. og teldi það sem eign. Hvernig veit hv. þm., sem er einn af almenningi, sem um þetta dæmir, hvort þessi 10000 kr. krafa hjá öðrum er þess virði eða einskis virði? Til þess að geta gagnrýnt, hvort rétt væri, að ég fengi lán í banka, þyrfti hann líka að vita, hvers virði þær eignir eru, sem ég tel fram í einni heildartölu. Að þessu leyti er þetta frv. því hvorki fugl né fiskur. Segjum, að ég ætti 5000 kr. hjá þessum hv. þm. og 5000 kr. hjá öðrum. Það má vel vera, að þessi hv. þm. gæti snarað út þeirri upphæð, hvenær sem er, en ef til vill gæti hann það ekki. Hvernig ætlar hann að dæma um það af því, að sjá minn efnahagsreikning, hvort ég á fyrir skuldum eða ekki? Það fyrsta, sem hann þarf að gera, er að athuga trygginguna að baki mínum eignum.

Ég vík ekki frá því, að sá hugsunarháttur, sem fram kemur í nál. hv. meiri hl., að ekki megi minni kröfur gera en þær, að almenningur fái að fylgjast með öllum lánveitingum, er alveg kommúnistiskur. Það mat, sem á þessu á þó að vera, yrði þá dregið úr höndum hins rétta aðilja, sem að sjálfsögðu er þær stjórnir, sem bankarnir hlíta, en ég verð að telja, að ef þessir hv. þm., sem með þessu frv. mæla, telja, að stjórn lánveitinga sé betur borgið hjá almenningi að þessu leyti heldur en hjá þeim stjórnum, sem bankarnir hafa, þá eiga þeir að fara hina réttu leið og fá annað skipulag á stjórn bankanna heldur en nú er. Ef þeir treysta svo illa þeim mönnum, sem stjórna þeim, þá verða þeir að fá aðra menn til þess. Ef fyrirkomulagið er skakkt, þá á að breyta því, en ekki að vera með svona dulbúna árás á þessa stofnun, þorandi ekki að segja það, sem þeir meina, en koma að þessu leyti aftan að þessari stofnun. Ég veit, að eftir hugsunarhætti hv. 5. þm. Reykv. fellur þetta frv. mjög vel í hans kram, og satt að segja efast ég fyrirfram um ágæti þess máls, sem þessi hv. þm. fylgir eins ötullega og þessu, og ég held, að það hafi komið nokkurt hik á hæstv. atvmrh., sem er 1. flm. frv., þegar hv. 5. þm. Reykv. mælti eins ötullega með því eins og hann gerði. Það er ef til vill það, sem vakir fyrir hv. 5. þm. Reykv., að hér eigi allt að vera eins og í Rússlandi, og efnahagurinn megi ekki vera öflugri en það, að menn eigi eina kú, tvo úlfalda eða sex geitur. Það er það, sem menn mega eiga þar.

Ég skal svo ekki hafa þessi orð miklu fleiri, en ég vil vænta þess, að Alþ. samþ. ekki þetta frv. núna. Eins og ég hefi tekið fram, eru tvö sjónarmið, sem koma til greina í þessu sambandi, annað sjónarmiðið gagnvart hlutafélögum og opinberum stofnunum, en hitt gagnvart einstaklingum, og því má alls ekki blanda saman, og löggjöf í þessa átt, eins og frv. er sniðið að því er snertir hlutafélögin, er óþörf, vegna þess að það eru fyrir í l. ákvæði um það. En að því er snertir einstaklinga, er það svo, að slík löggjöf myndi leiða af sér meira illt en gott.