06.04.1938
Neðri deild: 42. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 130 í C-deild Alþingistíðinda. (2390)

39. mál, efnahagsreikningar

Frsm. meiri hl. (Sveinbjörn Högnason):

Ég skal ekki vera langorður, því að satt að segja nenni ég ekki að tala yfir tómum stólum. Ég get þó ekki látið hjá liða að minnast örfáum orðum á þau atriði, sem ég tel nokkru skipta, í ræðum andstæðinganna.

Hv. þm. Snæf. talaði um það, að ég hefði lagt sérstaklega mikið kapp á þetta mál fyrst í allshn., og síðar hefði ég talað af hita hér í hv. d. um það, að málið næði fram að ganga. Það hafa fleiri komizt í hita út af þessu máli heldur en ég, því að ég man ekki betur en að hv. þm. Snæf. hafi verið eitthvað vanstilltur á skapsmunum, þegar við afgr. þetta mál í allshn., svo að hiti eða kapp um þetta mál er sennilega á báðar hliðar. Annars er ekkert við það að athuga, þó að menn fylgi máli sínu fram með kappi, ef þeir telja það rétt, en það, sem gerir það að verkum. að ég mun fylgja þessu máli sérstaklega fram, auk þess sem það er mín persónulega sannfæring, að það komi að mjög miklu liði, er það, að þetta er mál, sem Framsfl. hefir ákveðið að berjast fyrir. Flokksþing framsóknarmanna samþ. það fyrst og óskaði eftir, að það yrði borið fram, og það hefir einnig verið samþ. af miðstjórn flokksins og af þingflokki hans, og þegar flokkurinn hefir einu sinni tekið að sér mál, sem hann telur til hagsbóta og nauðsynlegt að koma á, þá er það ekki vani hans að líta til hægri eða vinstri, heldur að láta málið ganga fram. Hinsvegar hefi ég bæði í n. og í þessari hv. d. tekið fullkomið tillit til þess, sem komið hefir fram frá andstæðingunum. Og eins og ég tók fram í fyrstu ræðu minni, sendi ég beiðni til margra stofnana í bænum um umsögn þeirra um frv., til þess að koma á móti hv. minni hl., sem hafði mikið við frv. að athuga, en það var fyrirfram vitað, að þetta var til þess eins að fá mótmæli, vegna þess að slík löggjöf er að miklu leyti sett gagnvart þessum stofnunum. Það er ekki venja hér á þingi, ef setja á l. sem þessi, að leita umsagnar þess aðilja, sem l. eiga sérstaklega að vera sett sem varúðarráðstafanir gegn.

Hv. þm. Snæf. var að tala um, að ég gerði lítið úr bankaráði og endurskoðendum bankanna og felldi þar með þungan áfellisdóm yfir samherjum mínum, Jóni Árnasyni og Jónasi Jónssyni, hv. þm. S.- Þ., sem eiga sæti í bankaráði. Hv. þm. veit, að verksvið bankaráðs og endurskoðenda er ekki að meta hvert einstakt lán og hversu réttlátt er að veita það, enda gersamlega ómögulegt fyrir þessa aðilja að komast yfir það. Þó að ég sem endurskoðandi eins. bankans vildi fara yfir hvert lán, þá er það gersamlega óhugsandi, og það er ekki hlutverk þessara manna, heldur hitt, að sjá um, að þetta sé reikningslega rétt framkvæmt. Þeir geta ekki tekið nema einstök sýnishorn af því, hvernig einstök lán eru veitt. Hv. þm. virtist vera særður yfir því, að ég sagði, að þeir væru að sjálfsögðu „interesseraðri“ í lánveitingum, sem sætu í bankaráði. Ég veit ekki betur en að það sé hverjum manni kunnugt t. d., að formaður Sjálfstfl. sé í bankaráði Landsbankans, og það veit hvert mannsbarn í landinu, að hans fyrirtæki er einn af stærstu skuldunautum bankans, og þessum hv. þm. er kunnugt um, að það fyrirtæki hefir fengið lánað mikið umfram eignir, og hversu óvarlegt er að lána því fyrirtæki. Svo að það er síður en svo, að ekki sé hægt að finna réttlætanleg dæmi um það, að ég hefi ekkert ofsagt í þessu efni.

Ég vil segja það strax út af ummælum hv. þm. Snæf., að það er heppilegast fyrir þá menn sjálfa, sem virkilega vilja vel og standa á heilbrigðum grundvelli með atvinnurekstur sinn, að allt hið sanna komi í ljós, svo að þessum stöðugu aðdróttunum og umræðum um þá og fyrirtæki þeirra fari að linna. Og þó að hagur þeirra sé erfiður, og jafnvel þótt staðreyndirnar séu ljótar, eru grunsemdirnar alltaf hættulegri en ljótar staðreyndir. Þessi löggjöf er sérstaklega í þágu þeirra atvinnurekenda og jafnframt þeirra lánsstofnana, sem sætt hafa árásum fyrir að lána óvarlega.

Hv. þm. Snæf. talaði um, að frv. væri eingöngu flutt í þágu niðurrifsmannanna. Ég vil bara spyrja: Hverjir eru niðurrifsmennirnir í landinu? Eru það ekki þeir, sem leitt hafa töpin yfir þjóðina. eyðilagt eða lamað atvinnuvegina, svo að öll þjóðin verður að borga töpin með sköttum, vöxtum og langvinnu striti og sparnaði til að vinna sig aftur upp? Er það ekki vegna þeirra niðurrifsmanna, sem þjóðin þarf að beita sig harðræði til að geta byggt aftur upp þjóðfélag sitt á öruggum grunni? Og á hún ekki heimting á að fá að sjá, hvort niðurrifsmennirnir ætla enn að eyðileggja þann grunn?

Hv. þm. talaði enn um, að andstaðan gegn frv. væri ekki sprottin af því, að neinn væri hræddur við að birta efnahagsreikninga sína, heldur af því, að þeir reikningar væru einkamál. Þeir eru það svo lengi sem menn fara aðeins með sitt eigið fé. En þeir eru sannarlega ekki einkamál, þegar fyrirtækin eru aðallega rekin með fé almennings. Þá geri ég engan mun á fyrirtækjunum og á ríkisfyrirtækjum í þessu efni. Þegar svokallaðir eigendur þeirra eiga lítið eða alls ekkert í þeim, má ekki gera mun á kvöðunum, sem á þau eru lagðar, og á kvöðum ríkisfyrirtækja. Það er fjarri öllu lagi, að það sé einkamál, hvernig farið er með lánsfé úr lánsstofnunum ríkisins.

Þá sagði hv. þm. Snæf., að frv. væri til þess að draga úr áræði manna að leggja fé sitt í stórhættulegan atvinnurekstur. Það mætti það gjarnan. Þjóðin er ekki það sterk fjárhagslega, að hún hafi efni á að hætta fé sínu í fyrirtæki, sem eru stórhættuleg. Fyrst og fremst eigum við að beina því í atvinnuvegi, sem ekki eru mjög áhættusamir. Einmitt af því, að menn hafa gengið þarna of langt, er margur atvinnurekstur svo illa kominn sem er. Annars mundu töpin ekki nema hundruðum þúsunda og milljónum á mörgum fyrirtækjum.

Hv. þm. Snæf. hefir þannig einmitt sannað það ennþá betur, hversu veigalítil rökin eru fyrir því, að bættulegt sé að gera þetta frv. að lögum.

Hv. 8. landsk. sagði í gær, að ég hefði ekki farið inn á efni frv. Efnið er svo óbrotið, að það þarf ekki að ræða lengi. Enda hygg ég, að ég hafi ekki minna rætt um efnisatriðin en hv. 8. landsk. — Hann hélt því fram, að það væri alltaf hægt að kaupa hlutabréf í hlutafélögum hér á landi; það gerði mun á þeim og einkafyrirtækjum. Honum ætti að vera það a. m. k. eins kunnugt og mér, að þetta á sér engan stað nema um örfá hlutafélög. Yfirleitt eru þau ekki opin. Ég hefi í tvö ár verið við skrásetning hlutafélaga og veit það vel, að venjulega eru það fyrstu stofnendurnir einir, sem eiga forgangsréttinn að því að leggja viðbótarfé í fyrirtækið, svo að í reyndinni verður það gersamlega lokað almenningi. (GÞ: Misskilningur). Það þarf ekki annað en gæta í hlutafélagaskrárnar til að sjá, að þetta er rétt.

Hv. 8. landsk. sagði, að það væri ekki lítil eign að eiga lánstraust. Þá erum við sammála og um leið ósammála hv. flokksbróður hans, hv. 6. þm. Reykv., sem hélt, að það væri ekkert góðverk að lána einstaklingunum fé til atvinnurekstrar — og þá þyrftu þeir ekki lánstraust. En ég álít það ómetanlegt að hafa traust hjá lánsstofnunum í landi sínu. Lánstrausts aflar enginn sér nema með því að vera skilvís og standa á nokkuð fraustum grundvelli. Þess vegna er ekkert, sem styrkir betur lánstraust manns en það, að það liggi opið fyrir öllum, hvernig hann fer með féð. — Mér er vel kunnugt um málaferli út af ummælum um fjárhagsástand fyrirtækja, og ég sé ekkert betra ráð til að hindra slíkt í framtíðinni heldur en einmitt það að gera þetta frv. að lögum.

Ég veit, að allir hljóta að hafa tekið eftir þeim galla á málfærslu hv. andmælenda frv., að í öðru orðinu segja þeir, að það sé stórhættulegt lánstrausti félaganna og leiði þau til gjaldþrots, en í hinu orðinu, að það sé engin þörf að setja svona löggjöf, því að allt, sem frv. heimtar, sé þegar fengið: öll félög séu skyld til að skýra frá hag sínum; það þarf ekki að fara nema í hlutafélagaskrár til að fá skýlaus svör gegn hverri grunsemd. (GÞ: Þetta köllum við nú „hundalógik“). Ég var að rekja „lógik“ hv. þm., sem fram í tók, og samherja hans, hv. þm. Snæf., en datt ekki í hug að kenna hana við aðrar lægri verur. — Þegar þetta tvennt rekst á, að frv. sé svo hættulegt, að það megi ekki ganga fram. og svo þýðingarlaust, að það breyti litlu, þótt það gangi fram, þá finnast mér röksemdirnar vera búnar að eyða hver annari, og sé ekki, að hægt sé að mótmæla sér sjálfur rækilegar en hv. andstæðingar frv. hafa gert. (GÞ: Það má ekki blanda saman hlutafélögum og einstaklingum). Mér hefir virzt hv. 8. landsk. telja það fullt eins hættulegt fyrir félög og einstaklinga að birta reikningana.

Að þessu athuguðu finnst mér, að það væri óhætt að gefa upp mótstöðuna gegn frv. og afgreiða þetta mál frá Alþingi, án þess að hv. þm. þurfi að sýna óttamerki á sér.