06.04.1938
Neðri deild: 42. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 133 í C-deild Alþingistíðinda. (2391)

39. mál, efnahagsreikningar

*Thor Thors:

Ég vildi aðeins gera örfáar aths. við ræðu hv. 1. þm. Rang., ef hann má vera að því að hlýða á mál mitt.

Þm. sagði, að hér væri um flokksmál Framsfl. að ræða. Ég verð að draga mjög í efa, að svo sé. Því að mér er kunnugt, að umsögn Landsbankans, þar sem frv. er mótmælt, var samþ. einróma á fundi bankaráðsins, en þar voru á fundi m. a. formaður Framsfl., Jónas Jónsson, og bankaráðsformaðurinn, Jón Árnason, sem verður að teljast mjög framarlega í flokknum.

Þm. sagði, að það væri ekki venja þingnefnda að leita umsagnar þeirra aðilja, sem setja ætti einhverjar skorður við með nýrri löggjöf. En ég held einmitt, að það væri mjög happasæl regla og nauðsynleg, því að einungis þeir, sem við lögin eiga að búa, geta sagt, hvernig heppilegast er, að þær skorður séu settar. — Þm. hélt því fram, að þetta frv. hefði verið sent nokkrum aðiljum til þess eins að ganga ögn til móts við okkur, andmælendur þess. Ég tel, að hann misskilji mjög sitt hlutverk, ef hann vill hafa till. aðilja að engu við lagagerð yfirleitt, og þar á meðal í þessu máli. Frv. að vinnulöggjöf hafa verið send aðiljum og frestað afgreiðslu þeirra þing eftir þing, til að geta fengið umsagnir verkalýðsfélaganna. Og vita menn þó, að slík löggjöf hlýtur ætíð að fela í sér nokkra skerðing bæði á frelsi vinnuveitenda og vinnuþiggjenda:

Þá var þessi hv. þm. að skrafa um lánveitingar í Landsbankanum. Ég hygg, að allar stórar lánveitingar til meiri háttar fyrirtækja séu ákveðnar beint af bankaráðinu. Hvað snertir þær staðhæfingar hv. þm., að einstakir bankaráðsmenn hafi beinlínis gætt sinna hagsmuna í lánveitingum, vil ég taka fram, að sú venja hefir verið upp tekin, að formaður Sjálfstfl. víkur ætíð úr sæti, þegar bankaráðið gerir ályktanir um lánveitingar til þess fyrirtækis, sem hann stendur fyrir. En ég hygg, að þeirri reglu sé ekki fylgt um Jón Árnason, þegar Sambandið á í hlut.

Þm. sagði, að samþykkt þessa frv. mundi kippa grundvellinum undan rógi um öll heilbrigð fyrirtæki. Það er of mikil bjartsýni. Þó að efnahagsreikningar séu birtir, bera þeir ekki með sér nema ósundurliðaðar heildartölur, án skýringa, svo að almenningur er í rauninni engu nær og getur ímyndað sér hvað sem er, eins og áður.

Hverjir séu niðurrifsmenn, þýðir víst ekki að deila um við hv. 1. þm. Rang. Það hélt ég væru þeir menn, sem stöðugt sýna í orði og verki, að þeir vilja atvinnufyrirtækin feig, og í okkar þjóðfélagi eru það sérstaklega kommúnistar, því að hrun atvinnuveganna færir þá nær því langþráða marki þeirra, að almenn þjóðnýting verði upp tekin. En þeir, sem ganga í áttina til niðurrifsmannanna og hjálpa þeim til, geta líka orðið þjóðinni háskalegir.

Þegar hv. þm. vill rökstyðja mál sitt með því, að sama skylda eigi að liggja á fyrirtækjum, sem eiga ekki nokkurn skapaðan hlut sjálf, og á ríkisfyrirtækjum, þá fer hann alveg í kringum frv. eins og það liggur fyrir. Þar er fyrirtæki gert að skyldu að birta efnahagsreikninga. ef það skuldar 50 þús. kr., þó að það eigi kannske 500 þús. kr. hreina eign. Ef það vekti fyrir honum að leggja þessa skyldu eingöngu á fyrirtæki, sem skulda svo mikið, að hætta er á ferðum, og ákvæði frv. væru miðuð við það, að þau skulduðu t. d. ákveðinn hundraðshluta móts við eign, þá mundu forgöngumenn þessa frv. hitta í mark. En allt fleipur um, að fyrirtækin, sem frv. nær til, séu eiginlega ekkert annað en ríkisfyrirtæki, fellur gersamlega sjálfdautt.

Hv. þm. sagði, að þetta yrði til stórmikils gagns, ef hætt yrði að láta stórhættuleg fyrirtæki fá lán og engir fengjust framar til þess að leggja fé sitt í hættulegar atvinnugreinar. Ég verð bara að spyrja: Hvaða atvinnuvegir eru það hér á landi, sem ekki eru hættulegir, og það stórhættulegir? Bendir afkoma sjávarútvegsins í heild á það, að hann sé lítið hættulegur? Hv. þm. þekkir nógu vel t. d. skuldaskil smábátaútgerðarinnar til þess. að hann verður að játa, að það sé stórhættulegt að leggja fé í þá atvinnugrein. Eða man ekki hv. þm. eftir því, þegar samvinnuútgerðin á Ísafirði gat ekki borgað nema 5% af skuldum sínum? Hefir hann ekki veitt því athygli, hvernig togaraútgerðin öll er komin, að hún á varla fyrir skuldum? En vill hann þá neita því, að þessar hættulegu atvinnugreinar hafi verið og séu þjóðinni nauðsynlegar, að þær hafi hreint og beint orðið henni til lífsbjargar? Vill hv. þm. ekki líta á landbúnaðinn, hvort hann geti ekki verið hættulegur, og það stórhættulegur? Grasbrestur og óþurrkar geta lamað hann um langt árabil. Fjárpest eins og mæðiveikin getur svipt fjölda bænda eignum sínum og gert þá að nauðleitarmönnum hins opinbera. Víst er það því að kenna, að atvinnuvegurinn er hættulegur. Vill þm., að menn hætti að leggja út í þann atvinnurekstur? Nei, áreiðanlega ekki. Ég held, að allir hljóti að vera sammála um, að við verðum að halda áfram að hætta fé í þessa atvinnuvegi og heldur auka framlögin en draga úr þeim. Ég hygg, að hv. 1. þm. Rang. hafi einmitt sjálfur sannað það með sinni ræðu, að frv. er óþarft og skýtur gersamlega framhjá markinu.