11.04.1938
Neðri deild: 46. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 141 í C-deild Alþingistíðinda. (2399)

39. mál, efnahagsreikningar

*Ísleifur Högnason:

Því hefir verið haldið fram, að frv. þetta hlyti að orsaka það, að auknar yrðu árásir á einstök fyrirtæki. Ég er á gagnstæðri skoðun um þetta. Ég held því fram, að birting efnahagsreikninga hlyti að leiða til þess, að menn þyrftu að hafa rök fyrir sínu máli, ef ráðizt yrði á einstök fyrirtæki. Ég álít, að þessu frv. sé ekki beint gegn einstökum fyrirtækjum, heldur sé það aðhald til bankanna um að lána ekki einstökum fyrirtækjum endalaust fé, sem eru komin svo langt í skuldafeninu, að sýnilegt er, að þau komist ekki upp úr því. Við skulum tala t. d. hf Kveldúlf. Það hefir verið ráðizt á efnahag þessa fyrirtækis á undanförnum árum. Ég skil ekkert í því, ef eigendur þessa fyrirtækis fagna því ekki að fá tækifæri til að bera af sér þær getsakir, sem fram hafa komið, með því að leggja gögnin á borðið. Það er bezta vörnin, ef menn eru bornir röngum sökum. Ég hefi ekki orðið var við yfirleitt nein rök. sem fram hafi komið gegn þessu máli.