11.04.1938
Neðri deild: 46. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 141 í C-deild Alþingistíðinda. (2400)

39. mál, efnahagsreikningar

*Gísli Guðmundsson:

Ég skal ekki vera langorður. Það er þegar búið að ræða þetta mál svo, að ég geri ráð fyrir, að það muni ekki mikið skýrast héðan af.

Ég vil taka það fram út af þeirri till., sem fram er komin um að vísa málinu til stj., að ég get fyrir mitt leyti ekki fallizt á hana. Ég tel, að það sé ekki ástæða til að vísa málinu þá leið, og mun greiða atkv. móti því og vænti þess, að hún verði ekki samþ.

Hv. þm. Snæf. mælti hér nokkur orð, þar sem hann gerði fáeinar aths. út af minni ræðu, en það var í raun og veru ekkert svo veigamikið í þessari ræðu hans, að um það þurfi að fjölyrða. — Viðvíkjandi orðum grg. þessa frv. um, að hliðstæð ákvæði finnist í öðrum löndum, þá hefi ég gert grein fyrir, að þetta er réttmætt orðalag, og ummæli hv. þm. Snæf. breyta því ekki að neinu leyti, enda gekk hann ekkert inn á rök í því efni.

Þá vildi hv. þm. leggja áherzlu á það, að sú umsögn, sem kom frá S. Í. S., hafi aðeins verið frá einum af framkvæmdarstjórum þess. Ég vil af þessu gefna tilefni geta þess, að þessi eini maður er aðalforstjóri S. Í. S., Sigurður Kristinsson. og hann gaf þessa umsögn vitanlega fyrir hönd viðkomandi stofnunar.

Hv. þm. Snæf. vildi gera mikið úr því, að ef efnahagsreikningar yrðu birtir, þá mundi það verða upphaf að miklum opinberum umr. um hag fyrirtækja. Einnig hafa andmælendur frv. mikla áherzlu lagt á það, að hlutaðeigandi fyrirtæki mundu bíða fjárhagslegt tjón við birtingu efnahagsreikninganna. Hinsvegar hafa talsmenn frv. haldið því fram, að þetta mundi ekki valda neinu tjóni og að þrátt fyrir það, þó að engin I. væru um þetta, þá væri ekki fyrir það girt, að árásir væru gerðar á efnahag einstakra fyrirtækja.

Hv. þm. Snæf. segir loks í sinni síðustu ræðu, að þær pólitísku árásir, sem gerðar séu á einstök fyrirtæki, séu þýðingarlausar og á þeim sé ekkert mark tekið, nema aðeins í þeim flokkum, sem þær séu gerðar. Þetta hlýtur að vera hv. þm. mikill hugarléttir, því að þá þarf hann ekki að hafa áhyggjur út af því, að samþykkt frv. leiði til pólitískra árása, sem til tjóns geti orðið, því að það, sem ekki er tekið mark á, getur ekki skaðað fyrirtæki.

Ég skal svo ekki orðlengja þetta frekar.