11.04.1938
Neðri deild: 46. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 142 í C-deild Alþingistíðinda. (2401)

39. mál, efnahagsreikningar

*Frsm. minni hl. (Garðar Þorsteinsson):

Hv. 5. landsk. er stöðugt að leggja áherzlu á það, að með birtingu efnahagsreikninga fái menn að vita sannleikann og ekkert annað en þann hreina sannleika um efnahag manna. Þetta er misskilningur, eins og ég hefi hér oftar en einu sinni bent á. Efnahagsreikningarnir, eins og þeir eru gerðir upp til skatts, eru ekki það sama eins og eignin stendur einstaklingum i. Allar fasteignir eru gefnar upp til skatts með fasteignamatsverði. Við skulum taka dæmi um þetta, þar sem fyrir lægi efnahagsreikningur einhvers, þar sem sæist, að þessi maður skuldaði 100 þús. kr. Það, sem kæmi á móti, væri ein fasteign, sem væri metin að fasteignamati 70 þús. kr., og útistandandi skuldir, 30 þús. kr. M. ö. o., samkvæmt efnahagsreikningi þessa manns eru eignirnar jafnmiklar skuldunum. En til þess nú, að skorið yrði úr um það, hvort þessi maður ætti fyrir skuldum. kemur margt til greina. Þá er það fyrst, hvort fasteignin er meira virði en fasteignamatið er. Það fer t. d. eftir því, hvar þessi eign er, hvort hún er suður í Hafnarfirði eða hér við austurvöll. Á því er mikill munur. Svo kemur það líka til greina, hvort skuldirnar eru 30 þús. kr. virði eða t. d. 10 þús. kr. virði. Sannleikurinn er sá, að þeir, sem dæma ættu um efnahag manna, væru engu nær, þó að efnahagsreikningarnir væru birtir, því að það má deila um það óendanlega, hvers virði eignir eru. Og get ég nefnt mörg dæmi þess í gjaldþrotamálum, að sækjandi og verjandi hafa deilt um, hvort viðkomandi hafi átt fyrir skuldum á þessu og þessu tímabili. Sá eini árangur, sem yrði af birtingu efnahagsreikninganna, væri sá. að menn yrðu dregnir fram og um það deilt og rifizt, hvort þessi eða hinn ætti fyrir skuldum. En um þetta er aldrei hægt að segja með vissu, hvorki uf almenningi eða dómstólunum. Þetta yrði því í 99 tilfellum af 100 aðeins til að veikja lánstraust manna og gera menn tortryggilega. Það eru að sjálfsögðu stjórnir lánsstofnananna á hverjum tíma, sem eiga að dæma um það, hverjum þær treysta sér til að lána. Ef þessir hv. þm., sem bera þetta fram, telja. að núverandi stjórnir þessara stofnana séu ekki starfi sínu vaxnar, þá eiga þeir að koma með till. um ráðstafanir til að bæta úr því.