11.04.1938
Neðri deild: 46. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 143 í C-deild Alþingistíðinda. (2402)

39. mál, efnahagsreikningar

*Ísleifur Högnason:

Hv. 8. landsk. hefir nú haldið hér fyrirlestur um það, hvernig falsa megi reikninga fyrirtækja, og ég efast ekki um, að hann hefir þekkingu á því, hvernig lögfræðingar geta látið reikninga sýna annað en það rétta. Til hvers er yfirleitt verið að heimta, að ríkið birti sína efnahagsreikninga? Vitanlega til þess, að almenningur, og fyrst og fremst stjórnmálaflokkarnir, geti myndað sér skoðanir um það, hvernig ríkissjóður er stæður og þau fyrirtæki, sem hann hefir með höndum. Sami er tilgangurinn með þessum lögum: að almenningur geti haft eitthvað eftirlit með því, hvernig þeir menn stjórna sínum fyrirtækjum, sem fara með milljónir af sparifé landsmanna eftir sínum eigin geðþótta, og hvernig bankarnir ívilna ákveðnum mönnum í lánveitingum, umfram það, sem sanngjarnt er. Það er vitanlegt, að margir með góð efni og nægar tryggingar koma kannske dag eftir dag í bankana að biðja um lán, en fá ekki einn eyri, vegna þess að bankarnir hafa fé í stórum fyrirtækjum, sem enginn hefir eftirlit með, hvernig mokað er í millj. á millj. ofan. En það er enginn vafi á því, ef þessir efnahagsreikningar yrðu birtir, að bankarnir mundu verða gætnari í útlánum sínum til stórskuldugra fyrirtækja.

Það er nokkuð fljótt að fara að tala um það, að blöð og stjórnmálaflokkar muni að ósekju ráðast á skuldug fyrirtæki. Tíminn mun leiða það í ljós. En eins og ég sagði áðan, þá tel ég minni ástæðu til þess, að fyrirtæki séu borin röngum ásökunum, eftir að efnahagsreikningar þeirra hafa verið birtir. (GÞ: Það þarf ekki annað en að lesa Þjóðviljann). Ég hefi aldrei séð í Þjóðviljanum órökstuddar árásir á einkafyrirtæki, en ef hv. 8. landsk. getur bent á slíkt, þá komi hann með það.

Hv. 8. landsk. talaði um það, að ef það væri álit Alþ., að bankarnir færu illa með fé landsmanna, þá væri sjálfsagt fyrir ábyrga stjórnmálaflokka að gera einhverjar ráðstafanir. Það virðist eiginlega liggja beinast við, að þessi hv. þm. sjái misfellur á rekstri bankanna, — en hvað hefir hans ábyrgi stjórnmálaflokkur gert til þess að kippa þessu í lag? — Nú fyrst er af Framsfl. stigið spor í þá átt, að hafa eftirlit með rekstri bankanna, og við kommúnistar fögnum þessu, því að þar með er hægt að stemma stigu fyrir þeirri fjármálaspillingu, sem þar hefir ríkt.