29.04.1938
Efri deild: 57. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 148 í C-deild Alþingistíðinda. (2412)

39. mál, efnahagsreikningar

*Jóhann Jósefsson:

Herra forseti! Ég vil taka undir þær aths., sem hv. 10. landsk. þm. hefir gert við þetta frv. Um frv. má segja, að það sé tímanna tákn, og í sjálfu sér er ekkert undarlegt, þótt það sé komið fram, þegar athuguð er stjórnmálaafstaða þeirra tveggja hv. flm. þessa frv. — Frv. er einn liður í þeirri herferð, sem hefir verið hafin á hendur framtaki einstaklingsins í þessu landi. enda er það satt og rétt, sem hv. 10. landsk. sagði, að í hv. Nd. voru það kommúnistar, sem tóku frv. að sér sem sitt eigið mál og fögnuðu mjög yfir, að það var fram komið. Enda er þetta eðlilegt frá þeirra sjónarmiði, því að þeir hafa gengið í broddi fylkingar þess hóps niðurrifsmanna í landinu, sem árum saman hefir staðið í því að eyðileggja atvinnuvegi landsmanna eftir megni. Því er eðlilegt, að sérstaklega kommúnistar fylltust fögnuði yfir því, að þeim kom liðsauki frá 2 þm. Framsfl., enda sá liðsauki þannig til kominn, að leggja á undir öxi niðurrifsmanna þá menn þessa lands, sem þarfastir eru við framkvæmdir allar, og þar af leiðandi getur á hverjum tíma staðið svo á fyrir, að þeir séu í skuld við bankanna um meiri eða minni fjárupphæðir.

Við, sem nú lifum, höfum orðið vottar að því, hvernig þessi herferð hefir verið rekin í blöðum og hér á Alþ. Ekki er langt síðan sósíalistar báru hér fram till. um að Leggja lánastarfsemi Landsbankans undir samþykki Alþ. Með þessu frv. á að ýta málinu lengra áfram á þessari braut. Það sýnist vera heldur lítill skilningur á þeirri þörf, sem er hér á Íslandi fyrir framtak og atvinnurekstur, þegar alþm. vilja endilega stefna einkaframtakinu og fjárráðum einstakra manna undir dóm landsmanna, sem alltaf er meira og minna óbilgjarn, á þann hátt, sem þetta frv. leggur til. Hv. flm. hafa sjálfsagt ekki gengið að því gruflandi, að þetta frv. hlýtur að leiða það af sér, að einstaka menn myndu verða að draga saman seglin, ef þeir eiga ekki að eiga á hættu að verða dregnir inn í þá hringiðu, sem ýmsir hér á landi hafa verið dregnir inn í á undanförnum árum. Ýmsir helztu framkvæmdamenn landsins, sem hafa veitt fjölda manna atvinnu og borið hita og þunga dagsins í mörg ár, sumir jafnvel í tugi ára, — þessir menn verða fyrir því. þegar illa árar, markaðir bregðast og veiðin bregzt og þeir verða fyrir tapi, að þá er skotið að þeim örvum í vissum blöðum mörg undanfarin ár. Menn hafa verið teknir fyrir og nafngreindir, auðsjáanlega í þeim tilgangi að bera þá sökum, sönnum og ósönnum, ár eftir ár, sökum þess hvað þeir skulda. En aldrei á það minnzt í þessum skrifum, þótt þessir menn veiti hundruðum manna atvinnu og borgi þeim ætíð skilvíslega fullt kaup, eins og vera ber. Nei, það er aðeins sagt, að þeir skuldi Landsbankanum svo og svo mikið, og þar að auki mega þessir menn búast við, að einkalíf þeirra sé dregið inn í þessar deilur, ef það kemst í skotmál þessara niðurrifsmanna þjóðfélagsins. Þetta frv. er einn liðurinn í því að stækka hóp þeirra manna, sem komast innan skotmáls þeirra kommúnista og annara niðurrifsmanna.

Þetta mál hefir verið borið undir bankana. Þeir hafa talið þessa enga þörf, og sérstaklega hefir Landsbankinn ýtarlega mótmælt því, að þessi birting efnahagsreikninga einstakra manna væri að nokkru gagni, auk þess, eins og ég hefi þegar tekið fram, að það er megnasta vantraust á stjórn bankans, bankaráð og bankanefnd, já, meira að segja á fjmrh. sjálfan, sem farið ei fram á með aðgerðum þessa frv. Til hvers er verið að velja trúnaðarmenn þess opinbera við lánsstofnanir landsins, ef þeim er ekki trúandi til að athuga þessa efnahagsreikninga? Það er fullkunnugt, að Landsbankinn, og sennilega Útvegsbankinn líka, skyldar þá viðskiptamenn sína, sem skulda nokkuð, sem um munar, til að senda efnahagsreikninga sína til bankans á hverju ári. Þessir reikningar eru lagðir fyrir bankaráð, ef þörf þykir og óskað er, og þeir eru þeir trúnaðarmenn þjóðarinnar, sem hafa bezt vit á þessum málum, og geta þeir athugað þau í ró og næði og dæmt um þau. Frv. ætlar þessum upplýsingum að dreifast, ekki einasta til allra landsmanna, heldur einnig útlendinga, sem kunna að geta gert sér mat úr því að hafa yfirlit yfir, hvað fyrirtækin skulda, og leiðir það til þess, að erlendir keppinautar íslenzkra athafnamanna geta hnýstst í hag þeirra og notað sér þær uppýsingar til framdráttar.

Ég verð að segja, eins og hv. 10. landsk., að ég beið með dálítilli eftirvæntingu eftir að heyra, að hv. flm. þessa frv., sem nú er orðinn atvmrh., nefndi okkur og sannaði með réttum tilvitnunum, að það sé satt, sem stendur í grg. frv., að hliðstæð ákvæði um birtingu efnahagsreikninga séu til erlendis. Úr því að hæstv. ráðh. kærði sig ekki um að gefa svar við því, eftir að hv. 10. landsk. hafði falað, þá er ég vonlítill um, að hann eigi hægt með að færa þau rök fram, þótt fleiri krefji hann sagna um þá hliðstæðu löggjöf, sem hann fullyrðir, að sé til.

Ákvæði þessa frv. miða í stuttu máli að því að skapa ófrið í landinu um atvinnufyrirtækin. Við sáum glöggt dæmi þess hér fyrir skömmu, hvað af því leiðir, þegar skapaður er slíkur ófriður um einstök fyrirtæki, sem sé um h/f Kveldúlf. Við sáum, hvernig fór, þegar það hlutafélag, sökum þessa ófriðar, var sett til baka með athafnir sínar, og ég hygg. að þessi ófriður á síðasta þingi, sem varð til þess að félagið fékk ekki nægilegt öryggi um starfstilhögun á þessu ári, muni eiga sinn þátt í því, að það varð að selja síldarlýsi sitt fyrir lakt verð og varð að sætta sig við að selja afurðir sínar seinna en önnur fyrirtæki. Ég segi ekki, að þessi ófriður hafi verið eina ástæðan til þessa, en ég segi, að þetta hafi skeð að miklu leyti vegna þess öryggisleysis, sem skapaðist af honum. Ég verð að, ætla, að hv. flm. þessa frv. hafi gert sér ljóst, að með frv. er verið að gefa óvönduðum mönnum þessa þjóðfélags tækifæri til að hefja svipaða herferð í hendur öðrum einkafyrirtækjum og þá herferð, er hafin var gegn h/f Kveldúlfi.

Það er næsta spaugilegt ákvæði, að birting efnahagsreikninganna skuli kostuð af þeim, sem reikningana eiga, en svo eigi fjármálaráðuneytið að hafa afraksturinn af því að selja þessi plögg og dreifa þeim utan lands og innan. Ég get ekki neitað, að mér finnast það alleinkennilegar leiðir, sem þeir vilja fara, sumir af ráðamönnum þessa lands, til að afla ríkissjóði tekna og bjarga honum úr því öngþveiti, sem hann er í, og fleiri en þessi eina leið munu orka nokkuð tvímælis, hve heppilegar þær eru. En allar eiga þessar leiðir það sameiginlegt, að þær stefna í þá átt, að auka öryggisleysið í atvinnumálunum og veikja aðstöðu athafnamanna og auka framtaksleysið, m. ö. o., auka atvinnuleysið og örbirgðina í landinu.

Það hefðu sjálfsagt einhverntíma þótt nægileg mótrök, þótt öll önnur mótmæli væru lögð á hilluna, þar sem um lánastarfsemi þjóðbankans er að ræða, að bankastjórn hans legði fram svo skýr og greinagóð mótrök gegn málinu eins og felast í nál. minni hl. allshn. í Nd. á þskj. 146, þar sem birt er umsögn bankastjórnarinnar. Flestir menn, sæmilega greindir, hefðu látið sér segjast við þetta, en því er ekki að heilsa hér.

Á meðan Alþ. hefir vanrækt eða verið ákaflega athyglislítið í öllum þeim málum, sem snerta viðreisn atvinnuveganna, þá er þetta mál barið áfram. Af hverju? Ég bíð eftir, að hæstv. ráðh. svari því. Ef hann ekki vitandi vits hefir flutt þetta mál til að draga fleiri og fleiri inn í skotmál þeirra eiturörva, sem einatt er stefnt að atvinnurekendum þessa lands, þá ætti honum nú að vera orðið ljóst, að þetta er ekkert framfaramál né þarfamál, sérstaklega eftir að umsögn þjóðbankans liggur fyrir.

Máltækið segir, að enginn verði ágætur af engu. Útvegsmenn landsins hafa síðan í haust haldið uppi rannsókn og lagt fram till. um ýmislegt viðvíkjandi rekstri sjávarútvegsins. Á undan var gengin rannsókn á hag þessa atvinnuvegar, og það í tvennu lagi, með aðgerðum mþn. og með starfi og skýrslu skipulagsn. atvinnumála. Þótt ekki væri úr öðru að vinna en þeim gögnum, sem fyrir liggja eftir hinar opinberu og hlutlausu rannsóknir þessara tveggja n., þá er árangur þeirra með þeim hætti, að ekki ætti að þurfa að efa ástandið. Síðan hafa útvegsmenn sjálfir lagt fyrir Alþ. og ríkisstjórn gögn, sem réttlæta allt það, sem fram kemur í hinum opinberu skýrslum, og bætt þar mörgum atriðum við. Síðan hefir stjórn S. Í. F., sem hefir innan sinna vébanda bæði bankastjóra Útvegsbankans og Landsbankans og auk þess formann bankaráðs Landsbankans, kveðið svo sterkt að orði í bréfi til ríkisstj., að það lægi ekkert annað fyrir þessum atvinnuvegi en algert hrun, ef ekki væri eitthvað gert honum til stuðnings. Allt þetta hefir stj. fengið á borðið fyrir framan sig. Auk þess hafa nefndir sjávarútvegsmanna og stjórn S. Í. F. átt viðtöl í fundarformi við ríkisstj., og þó hefir sáralítið eða ekkert áunnizt enn sem komið er. Ríkisstj. hefir ekkert haft fram að bera á þessum viðtalsfundum annað en úrræðaleysi. En á meðan þessu fer fram, eru þó a. m. k. tök á því hjá þessum forráðamönnum, að koma fram málum á Alþ. til að vega í sama knérunn sem áður hefir verið vegið í, sem bezt hefir komið fram í viðureigninni við h/f Kveldúlf. Þeir hafa fundið ráð til að leggja verkefni í hendur niðurrifsmannanna í þessu landi.

Að síðustu vildi ég segja, að það er athyglisvert, að þeir, sem hafa gengið í fylkingarbrjósti í þeirri herferð á hendur atvinnuvegunum, sem árum saman hefir staðið yfir í þessu landi, bera sjálfir enga persónulega ábyrgð á neinu fyrirtæki, hvorki til lands né sjávar. Það eru menn, sem aldrei hafa dýft hendi í kalt vatn til þess að fleyta atvinnuvegunum áfram. Þetta eru menn, sem annaðhvort eru í opinberum stöðum eða lifa á því, að gefa út blöð til áróðurs gegn atvinnurekendum. Úr hópi þessara manna eiga atvinnurekendur von á þeim skeytum, sem ég minntist á. Í hópi þessara manna hefir sú kenning fæðzt, að verkamenn eigi að vera fjandmenn atvinnurekendanna, sem er nú farið að bera þann ávöxt, að hvert verkfallið rekur annað.

Ég skal nú láta þetta nægja að sinni, en ég. vænti þess, að sá hæstv. ráðh., sem hefir fætt þetta mál af sér, gefi hér greinagóða skýrslu um löggjöf annara landa í þessu efni, sem hann segist hafa kynnt sér.