02.05.1938
Efri deild: 59. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 151 í C-deild Alþingistíðinda. (2414)

39. mál, efnahagsreikningar

*Magnús Jónsson:

Ég get í rauninni sparað mér margar af þeim aths., sem ég hefði viljað gera við frv., því að hv. 10. landsk. og hv. þm. Vestm. hafa hreyft mörgum þessara aths. Ég vildi þó segja hér nokkur orð því til viðbótar.

Mér finnst, að ef litið er á frv. frá sjónarmiði viðskipta- og atvinnulífs, þá sé það ákaflega vanhugsað. Það er í rauninni ekki annað en almennt orðagjálfur um, að almenningur eigi að geta fylgzt með í fjármálaviðskiptum landsins. Er ekki sjáanlegt, hvaða gagn frv. getur gert þar fyrir utan, en hinsvegar getur það gert mikinn skaða. Ég verð nú að segja, að ég fæ ekki skilið, hvernig almenningur á að geta haft gagn af birtingu þessara efnahagsreikninga. Í fyrsta lagi hefir almenningur engin tök á að meta, eftir skuld ákveðins fyrirtækis, hversu skuldin er tryggð. Skuldarupphæðin sjálf segir sáralitið um það, hversu vel féð er tryggt. Það er ekki einu sinni alltaf hægt að segja, hvort t. d. 160 þús. kr. er mikil skuld eða lítil. Það fer eftir því, hvert fyrirtækið er, sem þetta skuldar. Um mótorbát, sem skuldar 160 þús. kr., má segja. að hann sé í skuldum upp yfir höfuð. En togarafélag, sem gerir út 5–6 togara og skuldar 160 þús. kr., getur ekki talizt stórskuldugt. Þó að efnahagsreikningar væru birtir, myndi það ekki sýna annað en ytri mynd af þessum hlutum.

Það eru engar líkur til, að almenningur geti af slíkum reikningum gert sér grein fyrir því, hversu vel skuldarféð er tryggt, þar sem bankarnir geta oft sjálfir verið í vafa um það, hvort óhætt muni vera að lána ákveðnu fyrirtæki eða ekki, enda þótt bankarnir hafi alla þræðina í sínum höndum. Hversu erfitt getur verið að segja um þetta, sést af því, að útgerðarfélag hér á landi, sem skuldar sömu upphæð tvö ár í röð, getur verið mjög illa stætt annað árið, en mátt teljast auðugt hitt. Þetta fer eftir „conjunctur“, ef svo mætti segja, — eftir hagsveiflunum.

En þó að almenningur gæti nú myndað sér rétta skoðun um þessa hluti, þá fæ ég ekki séð, hvernig hann á að fara að því að koma fram vilja sínum til að tryggja hagsmuni sína í þessu sambandi. Segjum, að almenningi færi að þykja óálitlegt, hvernig ráðstafað væri fé lánsstofnananna, og færi að efast um, að lánsféð væri tryggilega ávaxtað. Hvernig eiga menn þá að fara að því að koma fram vilja sínum? Þeir hafa engin tök á því að breyta stefnu lánsstofnananna, því að þeir ráða ekki yfir þeim. Þeir geta ekki annað en byrjað að skannna þessar stofnanir í blöðum og á fundum, hefja miskunnarlausa áróðursstarfsemi gegn þeim. En verður það til þess að tryggja þetta lánsfé betur?

Ég held, að hér komi til greina hættulegasti þátturinn í þessari löggjöf. Með þessu væri unnið þvert í gegn því, sem tilgangurinn er með frv. Eina trygging þeirra manna, sem eiga fé í bönkunum, liggur í því, að þessar stofnanir séu sem tryggastar og fái að starfa í friði. Þetta er nú reynt að tryggja með því að búa sem bezt að stj. bankanna, t. d. með því að skipa þar sem öruggast eftirlit af hálfu þings og stj., með skipun bankastjóra, bankaráðs o. s. frv. Ef menn vilja hafa meira eftirlit, er það á valdi þingsins að ákveða slíkt.

En hvað á hér að gera? Skapa aukna möguleika til árása á þessar stofnanir. Þeir, sem inni eiga fé í lánsstofnununum, eiga nú að fá í hendurnar gögn til að hefja á þær árásir. Þetta er hið hættulegasta. Ég held, að það sé viðurkennt alstaðar, að ófriður um þessar stofnanir af hálfu pólitíkusa og annara sé það hættulegasta, sem fyrir þær getur komið. Við hér á Íslandi höfum fengið að prófa það, hversu þægilegt er fyrir bankana að vera milli tannanna á lýðskrumurum, er vilja ofan af þeim skóinn. Fáar lánsstofnanir standast það. Bankarnir eru einskonar samnefnari fyrir allt viðskiptalíf hvers tíma, og þegar erfiðleikatímar eru, má að sönnu ráðast á bankana fyrir það, að lánsfé þeirra sé ekki vel tryggt. En þetta eru stofnanir, sem geta orðið tryggar aftur, ef batnar í ári og þær fá að starfa í friði.

Annað, sem ég tel mjög skaðlegt við frv., er það, að það tekur aðeins til banka, sparisjóða og annara sjóða, er ávaxta fé almennings. Nú er það vitað, að menn vilja yfirleitt ekki láta gefa upp hag sinn. Löggjöfin viðurkennir þennan vilja manna m. a. með því að binda þagnarskyldu þá menn, sem skipaðir eru til þess að hnýsast í hag manna í umboði hins opinbera. Nú á að lögleiða, að allt skuli lagt opið fyrir almenning. Afleiðingin verður sú, að menn taka að leita til einstaklinga um lán, en ekki þessara stofnana, menn munu jafnvel taka á sig erfiðari lánskjör til þess að komast úr — orðið er svo ljótt, en mér liggur við að segja kjaftinum á þeim lýðskrumurum, sem vilja ofan af þeim skóinn. Það eru því líkur til, að þeir, sem fé eiga, myndu reyna að hafa það ekki í lánsstofnununum, heldur lána það beint út. Það væri laglegt ástand', sem af slíku myndi skapast, ef til þess kæmi, að prívatlán kæmu að miklu leyti í staðinn fyrir lánastarfsemi peningastofnananna!

Hvert þjóðfélag reynir að byggja upp sem bezt lánsstofnanir sínar, til að koma í veg fyrir þetta ástand, sem svo er háskalegt. Það er yfirleitt erfitt að setja reglur um slík einkaviðskipti og ógerningur að hafa slíkt eftirlit með þeim sem starfsemi opinberra lánsstofnana. Menn myndu yfirleitt kippa lánsfénu út úr þeim heilbrigða farvegi, sem það hefir streymt eftir, og veita því í hina óteljandi smáfarvegi, sem ekki er hægt að hafa eftirlit með. Þar fyrir utan er svo það, að við slíkt ástand myndi skapast víðari vettvangur fyrir allskonar svindlara, er vilja hafa fé út úr einstaklingunum.

Ég er ekki að halda því fram, að þessar verkanir myndu koma í ljós í einni svipan. En á því er enginn vafi, að löggjöf sem þessi myndi á nokkru árabili vera búin að gera meira eða minna af þessum óskunda, sem ég hefi lýst.

Í grg. frv. er ein ástæðan, sem fram er færð, sú, að ríkisstofnanir birti árlega efnahags- og rekstrarreikninga sína, og því sé réttlátt að krefjast hins sama af einkafyrirtækjum. Þetta er hreinasta vitleysa, Þetta kemur ekkert hvað öðru við. Þetta stafar aðeins af þeim kommúnistiska hugsunarhætti, sem ekki kann að gera mun á einkaeign og almenningseign. Sannleikurinn er sá, að svo lengi, sem eignarrétturinn er stjórnskipulega verndaður í landinu, þá varðar engan um einkaeign manna, nema að því leyti, sem það snertir skattálagningu, og fyrir því er séð, svo og bankana, og þeir fá allar þessar upplýsingar. Þeir, sem varðar um það, eins og skattyfirvöldin og bankarnir, fá alla þessa reikninga, og miklu nákvæmari en nokkur vegur væri að birta þá. Auk reikninganna er skylt að gefa þeim munnlegar upplýsingar eins og þeir vilja. Að svo miklu leyti, sem opinberar stofnanir þurfa ekki að vita um hag manna, þá er nauðsynlegt að vernda fullkomna leynd. Ef svo væri ekki, væri einkennilegt, að sjálfstæðustu viðskiptaþjóðir heimsins, eins og t. d. Englendingar, skuli halda sem fastast í þessa leynd, ef hún byggðist aðeins á því, að nokkrir menn vildu ekki af meinfýsi láta aðra vita um efnahag sinn. Það ber aðeins vott um, hvað við erum ungir og nýir í þessu, hve mikið skeytingarleysi hefir oft komið fram um að heimta slíka leynd af bönkum og sparisjóðum um inneign manna þar. Það ákvæði gildandi l., að bankar skuli skyldir til að gefa skattyfirvöldum upp inneignir manna þar, hefir orðið til þess, að hópar manna hafa tekið fé sitt úr bönkunum, og þar með er það komið úr hinum heilbrigðu bankaviðskiptum í hin óheilbrigðu einkaviðskipti.

Fyrir ýmsa kaupsýslumenn er það hin mesta nauðsyn að sneiða hjá öllum deilum, og ég veit, að margir þeirra halda sér frá málum, sem þeir hafa áhuga fyrir, vegna þess að þeir vilja halda sér og sínum fyrirtækjum utan við allar deilur og umtal, því að þeir vita, að fyrirtækjunum er það lífsskilyrði að fá að starfa í friði. Menn sjá, hvort ekki væri allóþægilegt fyrir mann, sem skuldaði 100 þús. í banka, að þá gæti hvert einasta sorpblað landsins ráðizt á fyrirtæki hans og sagt almenningi, að þetta fyrirtæki væri að fara á hausinn, af því að það skuldi svona mikið. Þeir, sem lesa þessi blöð, mundu fljótt fara að trúa þessu, og þá er sjáanlegt, hver áhrif það mundi hafa á viðskipti félagsins. Allt öðru máli gegnir með ríkisfyrirtæki. Það er ekki nema eðlilegt, að þeirra reikningar séu birtir, því að það er almenningur, sem á þessi fyrirtæki, og verð ég þó að segja, að það er stór galli, að verða að birta reikninga þessarn fyrirtækja, en það verður svo að vera vegna réttar almennings til að vita, hvað fyrirtækjunum líður, en það er stór munur með fyrirtæki eins og tóbakseinkasöluna, áfengisverzlunina, viðtækjaverzlunina og önnur hliðstæð ríkisfyrirtæki, að þetta eru einkasölur, sem njóta sérstakra hlunninda og standa því ekki í því stríði, sem einkafyrirtæki eiga í vegna barðrar samkeppni. Ég álít þessa samlíkingu einka- og ríkisfyrirtækja alveg út í hött. Það er sama og að segja, að fyrst reikningar ríkisins séu birtir, þá eigi líka að birta reikninga allra einstaklinga í ríkinu. Einstaklingar þjóðfélagsins hafa rétt til að sjá reikninga ríkisins á sama hátt og einstaklingur á rétt til að sjá reikninga sins fyrirtækis hjá verzlunarstjóra eða forstjóra sínum, en það kemur hinu málinu ekkert við.

Mér finnst það einkennilegt við meðferð þessa máls í hv. Nd., að n. sú, er hafði málið til meðferðar þar, sendi það nokkrum stofnunum, sem höfðu skilyrði til að geta sagt eitthvert heilbrigt orð um það. Það var sent bönkunum, S. Í. S., Vinnuveitendafélagi Íslands og verzlunarráði, og það var ágætt, og sjálfsagt að hlýða á, hvað þessar stofnanir segðu. En þegar meiri hl. n. skrifar nál. sitt, segir hann, að tveir þessara aðilja séu mótmæltir slíkri lagasetningu, og sé það skiljanlegt og eðlilegt. En þegar ekki á að taka tillit til þess, hvað þeir segja, — til hvers er þá verið að senda þeim frv. til umsagnar? Og hvers vegna á aftur á móti að taka rök S. Í. S. til greina? Er það af því, að það er sammála meiri hl. n.? Það álit er einar 5 línur, og þær ekki heilar. Þetta fyrirtæki, sem hér á að fara sérstaklega eftir, leggur þó til, að skuldarupphæðin verði lækkuð, en n. fer þannig eftir því, að hún hækkar upphæðina. Þetta sýnir ekki annað en yfirdrepskap n., að senda þessum stofnunum málið til umsagnar, en taka svo ekkert tillit til þeirra raka, sem þær færa fram, nema að því leyti, sem þær eru í samræmi við það, sem n. hefir hugsað sér að leggja til málanna.

Mál þetta er svo víðtækt, að hægt væri að tala um það óendanlega lengi, það grípur inn í allt mögulegt, en mínum aths. og gagnrýni er hér með lokið. Það eru ýms smærri atriði, sem ýmist hafa verið tekin fyrir áður eða ég kæri mig ekki um að ræða, eins og t. d., að það skuli vera sama, hvaða eðlis skuldirnar séu. Það gæti t. d. verið, ef fyrirtæki ætti húseignir upp á hundruð þúsunda og á þeim væri 100 þús. kr. veð, að þá ætti að birta alla reikninga þess fyrirtækis og gera það sambærilegt við fyrirtæki, sem skuldar 100 þús. kr. og á ekkert fyrir því. Menn hafa sagt, að vel stæðum verzlunarfyrirtækjum ætti að vera hagur að því að birta reikninga sína. Nei, ég verð að segja, að ef frv. þetta hefir átt að miðast við hag atvinnuveganna og viðskiptanna, þá er það mjög vanhugsað, en það er sniðuglega úthugsað, ef tilgangurinn hefir verið annar, sem sé að fá árásarefni á atvinnuvegina í landinu yfirleitt. Þá er þetta gott vopn — vopn, sem að vísu má gera bitlaust og hættulaust, ef rétt er á haldið, en hinsvegar má líka gera hættulegt með þeim tækjum, sem til eru. Það er táknandi, hve kommúnistar hér í þinginu fögnuðu frv. þessu meira en aðrir. Það er eðlilegt frá þeirra sjónarmiði, sem hugsa svo einkennilega, að það sé bezt, að okkar þjóðskipulag með þess atvinnulífi fari í hundana. Út frá þessu sjónarmiði skilst, að þetta frv. sé talið gott og að samþ. ætti það þegar í stað og halda síðan áfram á þessari braut. En ég þykist vita, að enginn einasti maður nema kommúnistar muni í rauninni reyna að verja slíka löggjafarstarfsemi. — Mun ég svo ekki, að svo komnu, fjölyrða frekar um þetta mál.