11.04.1938
Efri deild: 46. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 325 í B-deild Alþingistíðinda. (242)

3. mál, bráðabirgðatekjuöflun ríkissjóðs og jöfnunarsjóðs bæjar- og sveitarfélaga

*Magnús Jónsson:

Ég þarf í raun og veru ekki mikið að gera grein fyrir mínum fyrirvara í n. viðvíkjandi afgreiðslu þessa máls; það er orðið mjög kunnugt, í hverju hann liggur. Ég tel yfirleitt, að sú tekjuöflunarleið, sem hér er farin í þessu frv., sé nokkuð varhugaverð. Get ég tilnefnt hátekjuskattinn, sem lagður er á samkv. 2. gr., er ég tel vera mjög um of, þar sem eins er háttað eins og nú er í landinu. Það er augljóst mál ef á að fara að bæta hátekjuskatti ofan á alla beina skatta, verkar það heldur deyfandi á framtak manna um að afla verulegra tekna, og slík fjáröflun er svo skammt komin áleiðis, en hinsvegar mikil þörf á að örva hana. Ég ætla ekki að fara langt út í það, af því að það er gamalt deilumál á milli flokka.

Það er einnig ýmislegt í tekjuöflun 3. gr., sem ég tel vera nokkuð nálægt hámarki, þar sem svo mikið er aukið innflutningsgjaldið ofan á það, sem fyrir var. Ég álít, að það sé komið að því marki, að erfitt muni að framfylgja lögum. Það er alkunn reynsla, þegar allt er orðið svona reifað með tollum og sköttum, að menn reyna að svipta slíku af sér með smygli og öðru þess háttar. Og það er þess vegna, að ég ekki lagði til, að frv. yrði samþ. fyrirvaralaust. En hinsvegar sá ég ekki ástæðu til að kljúfa n., því að leggja á móti samþykkt slíks frv. myndi krefjast að koma með till. um að draga úr útgjöldunum eða að tekna væri aflað á annan hátt, sem ég sá ekki möguleika til eins og á stendur.

Eins og menn sjá á nál. 199, hefi ég skrifað undir nál. almennt með fyrirvara, en er alfarið mótsnúinn þeim aðalbreyt., sem eru við frv., sem sé að bæta ofan á þennan hátekjuskatt. En það dró nokkuð úr skaðsemi hans, að dálítill hluti hans rann til bæjarsjóðs. Nú er farið fram á að nema þetta burt, og lágu fyrir tvær brtt. Önnur frá þáv. atvmrh. um að taka þennan skattauka og verja honum til byggingarsjóðs. Svo er aftur komin önnur brtt. nú, sem meiri hl. n. hefir tekið upp á sína arma og flutt hér inn. Og það er að taka þetta fé til að lána þeim mönnum, sem gefa á kost á að eignast hlut í togara. Samkv. lögum frá í fyrra fá þeir lán, sem er hluti þess fjár, sem þeim var gert að leggja fram í þessu skyni.

Mín fyrsta ástæða á móti er sú, að ég vil ekki láta svipta bæjarsjóð þessu gjaldi, þótt það sé að vísu ekki stór upphæð. Ég hygg, að áætlunin á fjárhagsáætlun Reykjavíkur hafi verið um 90 þús. kr. hvort árið, og mun ekki hafa náð því. Ég ætla fyrir árið 1937 tæp 83 þús. kr., sem kom í hlut bæjarsjóðs af hátekjum. Ég hefi ekki aflað mér upplýsinga um, hvað það er mikið í allt. Það er búizt við, að fyrir árið 1938 verði upphæðin svipuð, kannske aðeins meiri. Mér finnst eiginlega þessi lög frá í fyrra um nýtízku togara, sem menn eiga að leggja 15% frá sjálfum sér til að kaupa, vera svona hálfgerð skrípamynd, ef svo á að auki að leggja fram ríflegan part af þessum 15%. Því þó að þetta sé kallað „lán gegn tryggingu“, þá þarf ekki langa reynslu til að sjá, hvernig gengur með að innheimta, ef fyrirtækinu gengur ekki vel. Menn geta náttúrlega haft sína skoðun á því, að þessir togarar róti inn fé, en eins og hefir gengið annarsstaðar með togara, þá hefir útkoman oft verið önnur. Það hefir verið sagt — og er nokkuð til í því —, að ég ætti ekki sem þm. Reykv. að hafa á móti þessari breytingu, því að sjálfsögðu verður fyrsti togarinn keyptur í Reykjavík. Og þetta sé því í raun og veru ekki annað en að sópa peningunum frá öllu landinu til Reykjavíkur. En ég tel, að það sé þó sá minnsti prófsteinn, sem hægt er að setja á alvöru manna að koma upp slíkum skipum, að þeir verði í raun og veru að leggja fram 15%, sem áskilið er í l., til þess að þeir geti notið þeirra fríðinda, sem fram eru tekin í þeim. Ég mun ekki geta fylgt þessu, og ég leit svo á, þegar till. atvmrh. kom fram í byrjun þingsins, að hér sé í raun og veru ekki um riftun neinna samninga að ræða, því enginn samningur hefir verið gerður um þetta, en það er svona hálfgerð brigðmæli í þessu, — að setja fyrst á þennan skatt og milda hann með því að skipta nokkuð á milli ríkis- og bæjarsjóðs, en koma svo nálega þegar í stað og kippa þessum hluta bæjarsjóðs í burtu. Það kom fram till. um þetta einmitt á síðasta þingi í báðum deildum, að svipta bæjarsjóð þessum parti, en þær voru felldar í báðum deildum, ég held með öllum atkv. móti atkv. flm. Ég hélt þess vegna, að það væri nokkuð fastur þingvilji fyrir því að halda þessu. Það er alstaðar reynslan sú að verða í bæjum, að það eru stórvandræði fyrir þá að ná sínum tekjum inn, vegna þess hve þrengt er að þessum aðaltekjustofnum, sem eru aukaútsvörin. Og hvað sem líður þeim lofsverða og góða tilgangi, sem er verið að þjóna með þessum tveim brtt., þá er leiðin, sem farin er, að mínu viti algerlega í öfuga átt við það, sem stefna ætti að.

Ég skal svo ekki fjölyrða frekar um þetta. Ég er sammála frsm. n., að hún sé farin að verða nokkuð óeðlileg, þessi upptalning vega í 4. gr. og að það sé verið að eyðileggja þann tilgang, sem var verið að reyna að ná, þegar á að kasta þessu fé út um hvippinn og hvappinn.

Ég álít, að eigi að koma meiri festa á þessi mál. T. d. að þetta fé þyrfti ekki að vera komið undir fjárlagaákvæðum í hvert skipti, heldur væri það ákveðið glöggt, hvaða vegir það væru, sem ætti að verja þessu fé í. Og finnst mér það þá eðlilegast að verja þessu fé einmitt í þá vegi, sem snerta ákaflega mikinn hluta þjóðarinnar. Og kæmi þá fyrst og fremst til greina vegurinn, sem tengir Suður- og Vestur- og Norðurland, og Austurland þegar til kemur. Mér finnst, að við eigum að keppa að því að fá verulega góða bifreiðabraut á milli Reykjavíkur og Akureyrar, og ekki um of, þó að þessu fé verði að mestu leyti varið til þessa. Þá væri það ekki óeðlilegt að taka af þessu fé í akbraut, sem tengdi meginland Suðurlandsundirlendis við Reykjavík, en láta svo staðar numið. Það er áreiðanlegt, að það er alveg nóg verkefni fyrir þetta fé fyrstu árin á þessum tveim stöðum.

Mér finnst vera farið að misnota þetta, þegar farið er að verja þessu fé eins og t. d. til Steingrímsfjarðarheiðar, sem að vísu gerir þar sitt gagn, eins og maður getur sagt um alla vegi, en liggur mjög utan við þá leið, sem allur almenningur í landinu notar. Mér hefði fundizt, alveg eins og frsm. sagði, eðlilegast að skipta þessu eftir tveim sjónarmiðum. Annarsvegar að leggja féð í þær brautir, sem mest af þjóðinni notar, og það er vafalaust brautin norður í land. En hinsvegar að taka nokkurt tillit til, hvar mest af benzínskattinum er borgað, og verja því aftur á móti til malbikunar og gera sem fullkomnastan bílveginn, sem er næstur þeim stöðum, þar sem aðalfjöldinn af bifreiðum nú er. Ef á að fara að búta þetta niður á hina og aðra staði, því þá ekki að bítast um hann í fjvn. eins og annað?

Ég verð að segja, að það er ákaflega leiðinlegt, þetta einkennilega þolleysi, sem alstaðar kemur fram. Það er ómögulegt að taka fyrir neinn hlut og Ijúka við hann. Það þurfa alltaf að koma inn endalausar undantekningar og hringl fram og aftur, svo að allt lendir í gagnsleysu. Mér skildist á frsm. n., að hann vildi taka þetta til athugunar til 3. umr. Og það er nauðsynlegt, að n. komi sér niður á einhverja fasta stefnu í þessu. Það er bæði tjón fyrir bíla og óþægindi fyrir vegfarendur, ef vegirnir eru meira og minna torsóttir og samsvara ekki þeim kröfum, sem þarf að gera til þeirra.

Um hinar smærri till. er. eins og hv. frsm. sagði, ákaflega mikill vafi á, hvað það er, sem taka á upp um undanþágur og þesskonar, og hirði ég ekki að telja upp einstaka hluti, þó að mér fyndist eðlilegast að losa þá þarna burt.