05.03.1938
Neðri deild: 15. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 166 í C-deild Alþingistíðinda. (2427)

42. mál, héraðsþing

*Thor Thors:

Ég á bágt með að skilja það, að þetta frv. skyldi geta vakið jafnmikinn úlfaþyt og orðið hefir hér í d. Því að ef hv. þm. athuga frv. sjálft með rökstuðningi, sjá þeir, að hér er aðeins um heimildarlög að ræða, og hverjum aðilja er því eftir sem áður í sjálfsvald sett, hvort hann yfirleitt vilji hafa héraðsþing, og þá hvort þeir vilji fella sig við það form á héraðsþingum, sem frv. ræðir um. Hér er um svo einföld heimildarlög að ræða, að það nær ekki nokkurri átt að staðhæfa annað eins og það, að verið sé að svipta menn réttindum til að ákveða, hvernig þeir skuli haga sínu fundahaldi. Því að enginn þarf að beygja sig undir þessi lög frekar en hann vill. — Ég hefi gerzt meðflm. frv. af því. að ég hefi oftsinnis fundið nauðsyn þess, að í kjördæmunum séu einhverjar samkomur, þar sem fulltrúar allra flokka eiga sæti, sem þm. geti rætt við. Og mér finnst, að hér sé fyrirmyndin fyrir þessi héraðsþing, sem a. m. k. getur komið til álita, þegar menn innan héraða hafa ákveðið að stofna til þeirra. En ég verð að segja það, að grg. þessa frv. er algerlega á ábyrgð aðalflm., enda tók hann það fram í sinni ræðu. Ég hefði álitið það kurteisara af hans hendi, að hann hefði sýnt meðflm. sínum grg., sem hann lét fylgja frv., og mjög tíðkast hér á þingi, að menn standi ekki aðeins saman um frv., heldur, og að grg. Þær skoðanir, sem koma fram í grg., eru vitanlega algerlega á ábyrgð aðalflm. (VJ: Ég játa það, og hefi tekið það fram áður). Og ég frábið mér nokkra samábyrgð á þeim óvirðulegu og að mörgu leyti óverðskulduðu ummælum, sem hann viðhafði um þá þingmálafundi, sem háðir hafa verið hér á landi.

Út af þeirri aths., sem hv. þm. V.- Húnv. gerði við 5. gr. frv., þar sem ætlazt er til, að kosið skuli til héraðsþings samkvæmt úrslitum alþingiskosninganna, vil ég segja honum það, sem ég raunar geri ráð fyrir, að hann hafi veitt eftirtekt, að alveg samskonar ákvæði er lögfest í kosningalögunum sjálfum, þegar um úthlutun uppbótarþingsæta er að ræða. Þar er miðað við þá niðurstöðu, sem fæst, þegar aðalkosningar fara fram, en síðari aukakosningar geta engu breytt því, sem þá hefir verið ráðið um úthlutun uppbótarþingsæta. Af því að þessi hv. þm. af eðlilegum ástæðum gerði það kjördæmi, sem hann er fulltrúi fyrir, að umræðuefni, þá ætla ég líka að halda mér við það. Nú er það vitað, að á síðasta kjörtímabili var bændaflokksmaður kosinn í Vestur-Húnavatnssýslu. og varð hann þess valdandi, að Bændafl. fékk tvö uppbótarþingsæti. Ef hann hefði nú fallið frá á kjörtímabilinu eða sagt af sér þingmennsku, kosningar farið fram að nýju og Sjálfstfl. eða Framsfl. unnið kjördæmið, þá hefði það engu breytt um það, að Bændafl. héldi sínum tveim uppbótarþingsætum, enda þótt hann ætti engan kjördæmakosinn þm. Það er ekki óeðlilegt að miða við þá heildarniðurstöðu, sem fæst við allsherjarkosningar. Að sjálfsögðu getur komið fram eitthvert misrétti við það, en það verður ekki alltaf hægt að synda framhjá því.

Annars vil ég geta þess, að ég er ekki allskostar sannfærður um öll ákvæði þessa frv., en gerðist flm. til þess að koma málinu áleiðis á Alþ., og er ég að sjálfsögðu reiðubúinn til þess að hlýða á allar skynsamlegar brtt., sem fram kunna að koma. — En ég endurtek það, að hér er ekki verið að skipa héruðunum fyrir að neinu leyti um þetta atriði. Þeim er eftir sem áður alveg í sjálfsvald sett, hvort þau vilja taka upp héraðsþing, og þá á hvern hátt þau vilja gera það. Hér bendum við flm. aðeins á eitt fyrirkomulag, sem gæti orðið til fyrirmyndar. ef héruðin vilja fella sig við það.