05.03.1938
Neðri deild: 15. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 169 í C-deild Alþingistíðinda. (2429)

42. mál, héraðsþing

Skúli Guðmundsson:

Ég vildi aðallega leiðrétta þann misskilning á orðum mínum, sem fram kom í ræðu hv. þm. N.-Ísf. Ég vænti, að enginn annar hafi skilið orð mín svo, að ég teldi, að þm. kjördæma þyrftu ekki að hafa samband við neina aðra kjósendur í kjördæmunum heldur en sína eigin flokksmenn. Það bar ekki að skilja orð mín þannig, þó að ég minntist á flokksfélög, því að ég sé ekkert því til fyrirstöðu, að þau geti sent sínar till. og ályktanir til þm. kjördæmisins, jafnvel þótt hann sé ekki í sama flokki. — Og ég vil undirstrika það, sem ég sagði áðan, að ég tel sjálfsagt að láta það afskiptalaust með öllu, á hvern hátt kjördæmaþm. haldi sambandi við kjósendur sína, og að því sé þessi lagasetning a. m. k. óþörf og geti að ýmsu leyti orkað tvímælis.

Eins og hv. 6. þm. Reykv. tók að nokkru leyti fram í sinni síðustu ræðu, þá er þetta vitanlega ekkert hliðstætt ákvæði kosningalaganna um úthlutun uppbótarþingsæta, og sá samanburður, sem hv. þm. Snæf. gerði, er því alveg út í loftið.

Ég sé ekki ástæðu til þess að hafa um þetta fleiri orð. Mér virðist horfa svo vel um þetta mál, að það muni ekki koma fyrir aftur hér í d., þar sem einn af flm. þess, hv. þm. Snæf., hefir séð ástæðu til þess nú þegar að taka það fram, að ýmislegt geti verið athugavert í frv., og um grg. hefir hann lýst því yfir, að hann sé henni mjög ósammála, og hefir það eitt sér til afsökunar, að hann hafi skrifað upp á þennan víxil óútfylltan hjá hv. þm. N.-Ísf., og ef því er þannig farið með fleiri flm. frv., þá sýnist mér óþarft að fjölyrða um málið, því þá eru góðar horfur á, að það tefji ekki fyrir okkur oftar.