05.03.1938
Neðri deild: 15. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 172 í C-deild Alþingistíðinda. (2432)

42. mál, héraðsþing

*Gísli Guðmundsson:

Ég er einn af flm. þessa frv., sem hér er til umr. Mig hefir undrað það talsvert, með hvílíku offorsi sumir hv. andmælendur þessa frv. snúast á móti því. Það er ekki í fyrsta sinn nú, að menn eru tregir fyrst í stað að ljá lið sitt góðu máli. En ég geri ráð fyrir, að endirinn verði sá sami um þetta eins og í mörgum slíkum tilfellum, að þetta mál sigri að lokum, einnig þá menn, sem nú eru á móti því.

Annars er það táknandi fyrir andstæðinga þessa máls, að það, sem þeir segja um málið, er ekki beint mikið um frv., sem hér liggur fyrir, heldur um grg. þess. Nú er það ekki grg., sem stendur til að samþ., heldur frv. Grg. þessa frv. er þannig til komin, eins og fram hefir verið tekið, að upp í hana hefir verið tekinn alllangur kafli, sem 1. flm. hefir samið. Ég hygg, að hann muni vera úr ritgerð, sem birzt hefir eftir þennan hv. þm. áður. Það var því eðlilegast að birta þann kafla orðréttan. Þar með er það þó ekki sagt. að þó okkur hinum flm. hafi verið fullkunnugt um þetta plagg, þá værum við því samþykkir í öllum atriðum, þó að við hinsvegar vildum ekki breyta því, úr því að það var komið fram. En mér virðist það einkennandi fyrir andmælendur þessa frv., að þeir ræða aðallega grg. frv., en yfirleitt lítið frv. sjálft.

Það er óþarfi að hafa mörg orð um þetta mál. Og get ég í stuttu máli tekið fram, hvers vegna ég tel rétt að lögfesta þetta frv. Það tíðkast í kjördæmum landsins yfirleitt að halda fundi með kjósendunum, sem ýmist eru landsmálafundir, sem boðað er til af stjórnmálaflokkunum, eða það eru leiðarþing, haldin af þm. kjördæmanna. Ég fyrir mitt leyti tel þessa fundi mjög nauðsynlega. Og ég álít, þó að slík héraðsþing væru haldin, sem hér er gert ráð fyrir í þessu frv., þá eigi leiðarþingin ekki að leggjast niður fyrir því. En ef þetta fyrirkomulag, sem í frv. getur, kæmist á yfirleitt, þá álit ég það til bóta frá því fyrirkomulagi, sem nú er, aðallega með tilliti til þess, að með því að halda héraðsþing eftir fyrirkomulagi frv. er kjósendum og íbúum í viðkomandi héruðum gefinn kostur á að ræða málin miklu nánar og betur heldur en þeir nú eiga kost á og taka sínar ákvarðanir um þau.

Nú er það svo venjulega um landsmálafundina og leiðarþingin, að þeir fundir standa ekki nema 1 dag, eða þá aðeins part úr degi. Menn koma þangað oft án þess að vita, hvaða mál verði tekin fyrir á fundinum. Þá er líka stundum slæmt veður eða aðrar hindranir í vegi fyrir því, að menn geti komizt á þennan eða hinn landsmálafundinn. Svo þegar málin hafa verið rædd lítið eitt á fundinum, kemur þm. kjördæmisins eða einhver annar fundarmaður fram með till. í einhverju máli eða fleiri málum alveg undir fundarlokin, sem menn verða þá að greiða atkv. með eða móti, eða þá að taka ekki afstöðu til þeirra, ef þeir þykjast ekki geta það. Það er mjög gallað fyrirkomulag, að till. til slíkra fundarsamþykkta þurfi að verða til á þennan hátt. Hitt liggur í hlutarins eðli, að mikið af málum verður útundan á slíkum samkomum. Ef sá háttur yrði upp tekinn, að halda héraðsþing eins og hér er gert ráð fyrir í frv., við hliðina á þeim fundum, sem nú tíðkast un landsmál, sem stæðu nokkra daga, kannske allt að því viku, og þau væru sæmilega undirbúin, þá yrði vitanlega allt annar svipur á afgreiðslu mála frá fundum í héruðum. Þm. kjördæmisins væri mættur og gæfi skýrslu um meðferð mála á Alþ. og fulltrúar úr hreppum kjördæmisins væru þar mættir með sín áhugamál. Þá mundi tíðkast á þessum héraðsþingum sami háttur og hér á Alþ. Málin yrðu rædd, síðan sett í n., yrðu síðan rædd aftur og þá annaðhvort samþ. eða felld. Ekki er heldur vafi á því, að fyrir hið pólitíska líf og samvinnu í héruðum hefði þetta töluverðaþýðingu. Héraðsþingahaldið mundi vekja talsverða eftirtekt og umtal og umhugsun í hverju einasta héraði, þar sem þeim yrði komið á fót fyrst; og sú hreyfing mundi halda áfram.

Það má vel segja, að þessu fyrirkomulagi væri hægt að koma á án lagasetningar, eins og íbúar Norður- og Vestur-Ísafjarðarsýslu hafa gert og Barðstrendingar hafa reynt. En að setja slík l. hefir a. m. k. þann kost, að þarna er öllum héruðum fengið í hendur form fyrir þessum fundahöldum, sem Alþ. er búið að hafa til athugunar og hefir lagt samþykki sitt á, og svo hitt, að af hálfu Alþ. stæði sérstök yfirlýsing um, að það, sem frá þessum héraðsþingum kæmi, yrði tekið til alveg sérstakrar meðferðar. Það tel ég framför og í lýðræðisátt, ef kjósendur í landinu geta átt kost á því, hverjir í sínum héruðum, að eiga þannig frumkvæðið að flutningi mála á Alþ.

Hér er ekki um að ræða lögboð gagnvart einstökum héruðum um að halda svona þing, heldur ber að líta á þetta sem allsherjarform, sem samið er af Alþ., og jafnframt hvatningu af Alþ. hálfu til kjósenda um að koma slíkum fulltrúasamkomum á hjá sér. Hér í frv. eru að vísu atriði, sem gefa valdið ágreiningi, eins og t. d., hvernig hagað væri til um ferðakostnað fulltrúa úr hreppum. Að vísu eru þau atriði, sem gætu valdið ágreiningi, ekki stór, en þó gæti nokkuð haft að segja. hvernig fyrirmynd um slík atriði væri gefin í l. frá Alþ.

Ég gæti hugsað mér, ef þessi héraðsþing verða haldin, þá yrði sá siður almennt hafður, að leiðarþing eða landsmálafundir væru haldnir á þeim tíma árs, er samgöngur eru greiðastar og þess vegna auðveldara fyrir allan þorra manna að sækja þá fundi, en að héraðsþingin yrðu haldin að vetrinum, þegar menn hafa betra næði til þess að undirbúa málin og sitja á fundum heldur en að vorinu. En það er síður en svo, að þetta fyrirkomulag yrði léttir fyrir þá þm., sem heima eiga hér í Rvík, en eru fyrir kjördæmi úti á landi, heldur yrði það til þess að auka á erfiðleika þeirra þm., með því að þeir yrðu þá að sækja bæði héraðsþing og landsmálafundi eða leiðarþing. Það er því mjög vanhugsað að halda slíku fram, að þetta yrði léttir fyrir þessa þm.

Einn hv. þm. lét svo um mælt hér áðan, að þetta frv. mundi ekki koma aftur til umr. hér í þessari hv. d., er þessari umr. lyki. Mér þykir harla ólíklegt, að svo fari, ekki sízt vegna þess, að í þeirri n., sem fær sennilega þetta frv. til meðferðar, eru 3 af flm. frv. Ég geri því ráð fyrir, að frv. komi aftur til umr. í þessari hv. d., og líka, að það nái fram að ganga, og ennfremur, að jafnvel sumir þeir hv. þm., sem mælt hafa á móti frv., muni verða með í að samþ. það.