05.03.1938
Neðri deild: 15. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 174 í C-deild Alþingistíðinda. (2433)

42. mál, héraðsþing

*Gísli Sveinsson:

Herra forseti! Það er aðallega af því, að ég er einn af flm. þessa frv., að ég vildi segja hér nokkur orð.

Í umr. hefir það í raun og veru komið fram, sem eru aðalatriði þessa frv. Og málið er tvíþætt. Það horfir bæði að hæstv. Alþ. og meðferð mála þar, en þó á hinn bóginn ekki síður til kjósenda úti í héruðum landsins, sem eiga í lýðræðislandi að taka mikinn þátt í undirbúningi og meðferð landsmála.

Hv. 1. flm. þessa máls er úr þeim flokki, sem þekktur er orðinn fyrir það að tala mikið um að vilja hafa alla alþýðu með um að ráða undirbúningi og meðferð landsmála. Ég held, að það megi teljast nokkur trygging fyrir því, að hér sé með þessu frv. ekki stefnt út á hála braut frá sjónarmiði lýðræðis.

Þm., sem fást mikið við undirbúning og meðferð opinberra mála úti um land og eiga síðan að flytja málin á Alþingi, hljóta að komast að þeirri niðurstöðu, að hér sé um rétta og í alla staði sanngjarna till. að ræða, að kjósendurnir eigi að undirbúa málin í héruðum, þannig að hægt sé að taka nokkru verulegar mark á þeim, þegar þau koma fram á víðtækari og ábyrgðarmeiri vettvang. sem sé Alþ. Það er kunnara en frá þurfi að segja, að þingmálafundir hafa oft verið of líkir kosningafundum. En kosningafundir eru óra- og reifarafundir. Og aldrei mundi mönnum koma til hugar, ef héraðsþing væru komin, að flytja mál ótilneyddir á almennum umræðufundum, eins og menn verða að gera á vorþingum. Þingmálafundir hafa jafnvel stundum fallið niður af því, að menn, sem nærstaddir hafa verið og viljað taka þátt í almennum málum, hafa ekki tekið þá alvarlega. Nú vil ég ekki bera það á einn einasta hv. þm., að nokkrum þeirra séu þeir fundir kærastir, sem hóað er saman fyrirvaralítið, og þar sem svo eru gerðar fyrirvaralaust ýmsar samþykktir um meira eða minna þýðingarmikil landsmál og héraðsmál. Enda veit ég reyndar, að engum hv. þm. muni koma til hugar að bera það fram hér á þingi, að slík fundahöld séu til fyrirmyndar. Við hljótum og verðum að komast að þeirri niðurstöðu, að réttara er að taka málefnin öðrum og fastari tökum. Vandinn er meiri að undirbúa vel landsmál, til þess að verða tekin til umr. hér á Alþ., en svo, að sá undirbúningur geti orðið nægilegur með því að halda slíka flaustursfundi, þar sem oft ræður kylfa kasti um, hvað samþ. er.

Tilraunir hafa verið gerðar um héraðsþing, svipuð og hér er farið fram á að setja form fyrir, þar sem áhugamál kjósenda eru rakin og rædd og undirbúin á allt annan hátt en möguleg er að koma við á þessum „skottu“-fundum, sem tíðkazt hafa og þingmálafundir hafa verið nefndir. — Nú hefir hv. þm. N.- Ísf. skrifað hér öllum á óvart grg. fyrir þessu frv. Hann hefir sjálfur gert fulla grein fyrir því, að sú grg. er aðeins hans rökstuðningur, sem stendur fyrir hans reikning einungis. Ég vil ekki endurtaka neitt nm það, að hann ber einn ábyrgð á þeirri grg. En þar með er ekki sagt, að aðrir hv. þm. og fleiri mundu ekki treysta sér til að samþ. það, sem þar stendur. Það er óvenjulega hreinskilnislega sagt það, sem þar stendur. En ég er ekkert á móti því, að menn séu berorðari heldur en almenningur þekkir, að sumir eru stundum, þegar þeir eru að reyna að veiða atkv. úti um héruð landsins.

Frv. þetta er þannig, að með því er ekki stefnt að því að neinu leyti að þvinga nokkurn mann eða félagsskap til þess að meira eða minna leyti að fara eftir reglum þeim, sem þar eru fram settar sem form fyrir héraðsþingum. Hér er að minni hyggju stungið upp á heppilegu formi fyrir slík þing, þó að í einstökum atriðum mætti deila um, hvort beztu leiðina hafi heppnazt að finna. Til þess að girða fyrir allan misskilning, er í 1. gr. frv. tekið bert fram, og það með samþykki allra, sem standa að frv., að hér sé aðeins um heimildarl. að ræða. Tilgangurinn hefir líka frá upphafi aðeins verið sá. Ég veit ekki til, að nokkrum manni hafi komið í hug að lögskipa héraðsþingin, enda mundi slíkt tæpast fært. Þetta er aðeins uppástunga um form, sem gæti orðið þýðingarmikil fyrir héruð landsins og málefni þeirra. En ef menn vilja heldur halda þingmálafundahöldunum áfram, en engin héraðsþing hafa, þá er þeim vitanlega það („skottu“-funda-) fyrirkomulag frjálst.

Ég vænti, að hv. þm. átti sig svo vel á þessu máli við umr. hér á þingi og réttmæti þess, að samþ. frv. þetta, að það nái fram að ganga.

Þó svo nú bæri til, að sumum hv. þm. þætti of mikið í ráðizt að samþ. þetta frv. sem heimildarl. og teldu, að þeir mundu bera eitthvað skarðan hlut frá borði í sínum kjördæmum, ef þetta kæmist á í héruðum landsins, þá fullvissa ég þá hv. þm. um það, að málið kemur aftur fram á Alþ., þótt ekki yrði samþ. nú. Því að ef veruleg hreyfing er komin á málið utan þings og innan, þá verður reynt að koma málinu áfram og gerðar samþykktir um það utan þings, að Alþ. skipti sér eitthvað af málinu. Þess vegna er það ekkert höfuðatriði, hvort málið nær fram að ganga nú eða síðar, en ég veit, að ef nokkurt vit á að ráða, verður að fara þessa leið.