11.04.1938
Efri deild: 46. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 327 í B-deild Alþingistíðinda. (244)

3. mál, bráðabirgðatekjuöflun ríkissjóðs og jöfnunarsjóðs bæjar- og sveitarfélaga

Þorsteinn Þorsteinsson:

Ég ætla nú að snúa mér aðeins að einni gr. þessa frv., 4. gr. Ég get tekið það fram strax, að mér þótti nm. tala viturlega um málið og sanngjarnlega, og virtist þeir vilja beina benzínskattinum inn á réttlátari leið en áður hefir verið. Og ég er sammála frsm. um það, að benzínskatturinn eigi ekki að vera til togstreitu hér og þar úti um land til nýrra vega, heldur eingöngu til viðhalds á vegum, því að það eru bílarnir, sem borga þennan skatt, og það eru þeir, sem skemma mest vegina. Ég er líka sammála þeim nm., sem hér hafa talað, að það sé ekki rétt að vera að úthluta þessu í tvennu lagi. Þetta er mjög óþægilegt og veldur meira og minna ósamræmi, væri alveg sjálfsagt, að þetta lægi allt í valdi fjvn. Tilmæli þeirra hæstv. fjmrh. og hv. frsm. um það að taka till. mína aftur til 3. umr. skal ég fúslega taka til greina. Ég heyrði, að það á að taka þessa gr. til athugunar, og það er a. m. k. hugur hjá nm. að beina þessu fé inn á viðfelldnari brautir. Ég verð að segja það hér áður, af því, sem fram hefir komið, að þegar á að fara að setja tugi þúsunda út á annnes og fáfarnar heiðar, þá má þó ekki minna vera en að fyrir liggi, hvort rétt sé að setja þessar brautir, sem fara á að leggja.

Það hefir verið lesið upp efni úr fundargerð frá Austur-Barðstrendingum, þar sem þeir telja, að meginleið vestur um land eigi að vera um Þorskafjarðarheiði, og þá á hún að ganga fyrir Steingrímsfjarðarheiði um benzínskattinn. Frá þessari togstreitu, hvar leiðin eigi að liggja, er ekki búið að ganga rækilega, og finnst mér varla koma til greina að fara að verja stórfé í aðra leiðina. En þar sem ég hefi tekið till. mínar aftur, þá ætla ég ekki að fara lengra út í atriði, sem í henni felast. Ég vænti, að hv. nm. haldi þeirri stefnu, sem ég gat um áðan, eins og þeir hafa tekið hana upp.