21.03.1938
Neðri deild: 30. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 178 í C-deild Alþingistíðinda. (2445)

71. mál, lóðarnot í Reykjavík

*Frsm. (Gísli Guðmundsson):

Frv. þetta er flutt af meiri hl. allshn. eftir tilmælum hæstv. atvmrh., og er málið um það, að ríkisstj. verði heimilað að veita Kaupfélagi Reykjavíkur og nágrennis leyfi til að reisa einlyft timburhús steinhúðað á lóð ríkisins í Bankastræti. Ástæðan til þess, að þetta frv. er flutt, er sú, að kaupfélag það, sem starfað hefir hér í bænum, hefir haft þessa lóð á leigu ásamt húsum, sem á henni hafa verið, en vill nú fá leyfi til að reisa þar til bráðabirgða einlyft timburhús, sem yrði húðað utan með steini, en byggingarnefnd Reykjavíkur hefir ekki viljað leyfa það. Hinsvegar verður ekki talið, að eðlilegt sé að synja um þetta leyfi, af þeim ástæðum, að hér er aðeins um bráðabirgðabyggingu að ræða, sem yrði tekin burtu, þegar ríkið æskti þess og þarf á lóðinni að halda. Svo er hitt, að á þessari lóð eru nú byggingar, sem áreiðanlega stafar ekki minni eldhætta af en mundi verða af þessari byggingu, sem á að reisa, en ein að alástæðan til þess, að byggingarnefnd hefir á móti byggingu þessa húss, mun vera sú, að talið sé varhugavert að leyfa byggingu timburhúsa. Þar sem nú eru á þessari lóð timburhús, sem ekki stafar minni hætta af, þá er þetta frv. flutt, og vænti ég, að hv. þm. fallist á, að það sé eðlilegt og sanngjarnt að veita stj. þessa heimild. Eins og ég sagði áðan, er ætlazt til, að gerður verði samningur, sem áskilji, að félagið taki burt byggingarnar eftir nánari ákvæðum, þegar ríkisstj. óskar þess að fá lóðina undir opinberar byggingar, sem áformað hefir verið að reisa þarna.

Legg ég til, að frv. verði vísað til 2. umr.