21.03.1938
Neðri deild: 30. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 180 í C-deild Alþingistíðinda. (2449)

71. mál, lóðarnot í Reykjavík

*Garðar Þorsteinsson:

Ég þarf ekki að tala hér mörg orð, en það, sem ég vildi benda á, er það „prinsip“, sem væri brotið, ef þetta frv. yrði samþ., sem sé það „prinsip“, sem stöðugt hefir verið fylgt, að veita bæjum og kaupstöðum sjálfsforræði í samþykktum um byggingafyrirkomulag, hæð húsa, stærð þeirra, og hvort leyft sé að byggja timburhús o. s. frv. Bæjarstjórnin hefir t. d. samþ. hér að leyfa ekki að byggja timburhús í miðbænum. Það er nú svo, að allt frá 1893 hefir bæjarstjórn Reykjavíkur verið algerlega í sjálfsvald sett, hvað hún gerði að þessu leyti. Þá var stofnuð byggingarnefnd Reykjavíkur, og henni var gefið vald til að fylgjast með byggingum í bænum. Með l. 1901 var bæjarstjórn Reykjavíkur gefið vald til að setja enn fyllri ákvæði um þetta. Samkvæmt þessum l. var út gefin reglugerð 1903, og í þeirri reglugerð er byggingarnefnd gefið fullt vald til að synja um byggingarleyfi og setja ákveðin skilyrði fyrir, að bygging sé leyfð. Þetta sama vald hefir byggingarnefnd haft alltaf síðan. Það, sem ég nú vil benda á, er það, að ef þetta frv. yrði samþ., væri þessi regla brotin. Þá væri löggjafarvaldið búið að taka fram fyrir hendurnar á þeim aðilja, sem það sjálft hefir gefið fullt vald um þetta. Ég veit, að hv. þm. gera sér það ljóst, að ef þetta frv. yrði að l., þá gætu a. m. k. komið hingað til Alþ. fjölmörg önnur tilfelli, þar sem engu minni sanngirni væri í að veita undanþágu heldur en í þessu tilfelli. Ég get nefnt dæmi um það, að menn hafa sótt til byggingarnefndar um leyfi til að mega byggja hús, sem að einhverju leyti hafa farið í bága við reglur nefndarinnar. Ég sótti t. d. einu sinni um leyfi fyrir mann til að byggja hús á lóð. sem var 18 m. breið. Ég sótti um leyfi til, að þarna mætti byggja 12 m. breitt hús. Nú hafði byggingarnefnd sett þær reglur, að ekki mætti byggja hús stærra en svo, að það næði yfir helming lóðar. Það hefði í þessu tilfelli verið hægt að finna mjög mikil rök fyrir því, að þessi aðili ætti sanngirniskröfu á því að fá að nota sína lóð frekar en hann gerði. Ég hygg, að ef þetta frv. yrði samþ. og slík beiðni kæmi frá þessum einstaklingi eða öðrum, sem líkt væri ástatt um, þá mundu margir hv. þm. hugsa sig um, áður en þeir neituðu þessum manni um að byggja dálítið breiðara hús á lóð sinni. Ef einum, hvort sem það er einstaklingur eða kaupfélag, sem á í hlut, er leyft þetta, þá er erfitt að ganga á móti hinum. Það, sem gerir það sérstaklega, að ég er á móti þessu frv., er einmitt þetta, að löggjafarvaldið væri komið inn á hættulega braut, ef það færi með l. að veita einhverjum aðiljum undanþágu frá því að hlíta synjunum byggingarnefndar um fyrirkomulag á byggingum. Alþ. getur ekki sagt annað en að allir eigi að vera jafnir fyrir l., og þeirri yfirlýsingu sinni trútt gæti það ekki gefið kaupfélaginu þessa heimild, en neitað öðrum, sem svipað stæði á um. Alþ. getur ekki heldur farið inn á þá braut, að úrskurða um einstök tilfelli og setja l. um það. Nú vil ég geta þess, að byggingarnefnd var á einu máli um að synja um þetta leyfi. Eiga þó sæti í nefndinni ekki aðeins sjálfstæðismenn, heldur og jafnaðarmenn. Það er óneitanlegt, að það væri talsvert meiri afsökun fyrir Alþ. samþ. slík l. sem þessi, ef nefndin hefði verið klofin um málið, en nú var svo ekki. Það er undir engum kringumstæðum hægt að segja annað en að þetta sé hættulegt fordæmi.