11.04.1938
Efri deild: 46. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 329 í B-deild Alþingistíðinda. (246)

3. mál, bráðabirgðatekjuöflun ríkissjóðs og jöfnunarsjóðs bæjar- og sveitarfélaga

Jóhann Jósefsson:

Ég tók eftir því í ræðu hæstv. fjmrh., þegar hann talaði hér um þetta mál, að hann fór fram á það við mig og annan þm., hv. 6. landsk., að við tækjum okkar brtt. aftur til 3. umr. Skal ég fyrir mitt leyti ekki setja mig neitt upp á móti því. En hinsvegar get ég ekki annað en minnzt þess, að þessi sama aðferð var viðhöfð í fyrra, þegar ég flutti samskonar till., og hún var svo strádrepin á sínum tíma. Ég get þess í þessu sambandi til athugunar fyrir hv. n., að þegar benzínskatturinn var settur á, var hann fóðraður með því klæði fyrir þá, sem fyrir honum urðu, að það ætti að verja honum til vegabóta þegar í stað. Í öðru lagi vil ég benda hv. n. á það, að Vestmannaeyjar greiða af sínum 50 til 60 bílum í þennan aukaskatt, þ. e. a. s. 8 aura hækkunina, milli 5 og 6 þús. kr. Og krafan um, að þær fái að njóta þeirrar upphæðar til þess að bæta sína eigin vegi, sem hér er framsett, er því á fullkomlega réttum rökum byggð. Ég vonast til þess, að hæstv. fjmrh. hafi ekki verið það í hug að eyðileggja þetta réttlætismál fyrir Vestmannaeyingum og að það liggi ekki til grundvallar fyrir því, að hann vill láta taka aftur till. mína til 3. umr. Ég skýt því til hv. fjhn., að þessi sérstaka till. styðst við svo góð rök, sem sjálf ríkisstj. hefir lagt upp í hendur þeirra, sem eiga að borga þennan skatt, að það er ekki með nokkurri sanngirni hægt að halda fram, að rétt sé að skattleggja bifreiðaeigendur í Vestmannaeyjum til þess fyrir þann skatt að bæta vegina hér á meginlandinu. Hitt er miklu nær, að sá hluti af þessum skatti, sem Vestmannaeyingar greiða, fari til þess að bæta þá vegi, sem þessar bifreiðar Vestmannaeyinga renna á. — Ég verð við þessum tilmælum um að taka þessa till. aftur nú, en ég mun halda henni til streitu á þeim öðrum vettvangi, er opnast kann til þess að koma henni að. Og ég vil sérstaklega fara þess á leit við hv. n., að hún líti á þær ástæður, sem hér liggja fyrir um þessa till.

Svo eru till. sjálfrar fjhn., sem ég vildi aðeins drepa á. Það gengu allmörg ár í það fyrir hv. stjórnarflokkum hér á Alþ. að finna ráð við því, að tekjulindir bæjar- og sveitarfélaga fóru síþverrandi, en kröfurnar um fjárframlög af hendi þessara aðilja fóru sívaxandi. Og stjórnarflokkarnir munu ekki geta — og kannske ekki heldur Alþ. í heild sinni — talið sig undan því að hafa átt stóran þátt í því að auka byrðar sveitarfélaganna og bæjarfélaganna á undanförnum árum. Svo að það væri engum aðilja skyldara en Alþ. að bæta úr erfiðleikum bæjar- og sveitarfélaga um tekjuöflun. En þetta hefir gengið allböngulega fyrir hv. stjórnarflokkum, sem eru meiri hl. Alþ. Það var sett í þetta mál milliþn., sem kom með till., allar á við og dreif, þannig að í sjálfu sér var ekki hægt að segja, að neinn jákvæður árangur yrði af starfi þeirrar n. Hinsegar var þar haldið fram ýmsum till. í þessu máli. Og það, sem yfirleitt verður fangaráðið hjá hv. stjórnarflokkum, er að leggja á svokallaðan hátekjuskatt og leggja nýjan skatt og toll á innfluttar vörur, sem þeir svo kalla bráðabirgðatekjuöflun ríkissjóðs og jöfnunarsjóðs bæjar- og sveitarfélaga. Og hitt ráðið var að heimila bæjar- og sveitarfélögum að leggja nýjan fastelgnaskatt á húseignir og lóðir í kaupstöðum. Þetta ráð var upp tekið, og til þessara ráðstafana var vísað í umr. og bent á, að þar væri búið að sjá bæjunum fyrir tekjustofnum. Nú er því ekki að leyna, að ýmsir meðal hv. þm. hafa litið svo á, að þessi lausn, sem stjórnarflokkarnir hafa fundið á málinu, sé ekki í alla staði hin heppilegasta. Að sjálfsögðu mundu aldrei hafa fundizt leiðir, sem af öllum væru taldar hinar heppilegustu. Í sambandi við það liggur nærri að benda á, eins og gert hefir verið áður, að nýr fasteignaskattur í bæjum er, hvað innheimtu snertir og það að greiða hann, í sjálfu sér ekkert annað en eins og ný viðbót við útsvörin. Náttúrlega miðar hátekjuskatturinn beint til þess að rýra gjaldþol þeirra manna, sem hann greiða, til þess að greiða útsvör í bæjum. Hér var að nokkru leyti vegið í sama knérunn sem útsvarsgreiðslan er og var.

Ég skal nú ekkert undra mig á því, þó að sjómenn og verkamenn hafi ekki hlaupið til eða verið svo mjög ginnkeyptir af því fyrirheiti, sem síðasta þing gaf um að styrkja togarakaup með 25% framlagi, að þeir hafi farið að taka sína sparipeninga, ef einhverjir eru, til þess að leggja þá á móti, með þeim aðbúnaði, sem þessi útvegur á við að búa hjá núverandi valdhöfum.

Það hafa nú legið hér fyrir þinginu beiðnir frá sjávarútveginum, bæði smáútgerðinni og stórútgerðinni, til stj., rökstuddar beiðnir um að rétta úr ýmsum málum sjávarútvegsins, aðallega með því að létta af sköttum o. fl. En það hefir orðið sáralítil áheyrn, sem útvegurinn hefir fengið hjá ríkisstj. og þingmeirihl. Ég held, að maður geti sagt, að sú áheyrn hafi hingað til verið sama sem núll. En á sama fima hefir hæstv. ríkisstj. verið að veifa því framan í þá, sem talað hafa um þarfir sjávarútvegsins, að hún sé búin að veita 400 þús. kr. til þess að kaupa nýja togara, og þetta eigi svo að vera léttir fyrir sjávarútveginn. Um leið og þingmeirihluti fæst ekki til að hreyfa hönd né fót til þess að hjálpa þeim útvegi, sem fyrir er, hvorki smáútveginum né stórútveginum, þá er verið að veifa því framan í sjómenn, að það sé verið að veita 400 þús. kr. úr ríkissjóði, og í því sambandi er sagt við sjómenn: Ef þið viljið leggja í togarakaup, þá skulum við gefa ykkur nokkuð í skipunum. — Hvernig skyldu nú sjómenn leggja fram slíkt fé, þegar þeir vita fyrir víst fyrirfram, að það mundi verða tap af þeim rekstri? Það hefir heldur enginn maður komið og leitað eftir að fá þennan styrk, sem l. um fiskimálan. ákveða, að skuli lagður til þessara kaupa á nýjum togurum.

Hv. þm. Hafn. var hér með uppástungu í þessu máli, sem ef endilega á að fara inn á þessa braut, er miklu sanngjarnari en það, sem hér stendur í nál. fjhn. Það er till. um, að þeir bæir, sem alls ekki koma til greina um þá togaraútgerð, sem hér getur verið um að ræða samkv. þessu frv. fiskimálan., geti fengið að leggja það fé, sem hér er um að ræða, í sérstaka sjóði, hvert bæjarfélag hjá sér, sem svo væri varið til þess að styrkja sjómenn og verkamenn þar á hverjum stað fyrir sig til þess að geta eignazt fiskiskip, svo sem mótorbáta og aðra smábáta eða önnur fiskiskip, eða önnur framleiðslutæki. Vitaskuld eiga gjaldþegnarnir í þessum bæjum, þ. e. a. s. þar sem gjaldið er greitt, skýlausan rétt á því að fá að nota þetta gjald á þennan hátt. Öll sanngirni mælir með því. En eftir frv. eiga gjaldþegnarnir í hinum ýmsu kaupstöðum landsins vitanlega að standa undir þessu gjaldi.

Þegar ég hefi verið að baksa við að fá leyfi þingsins til þess fyrir Vestmannaeyjakaupstað að fá að leggja á vörugjald í Vestmannaeyjum á Vestmannaeyinga sjálfa, til þess að viðhalda bæjarfélaginn, þá hefir sú mótbára komið fram hjá einstökum mönnum, að það væri varhugavert, af því að það kynni að koma niður á öðrum en Vestmannaeyingum sjálfum að standa undir þess gjaldi. Nú er sú mótbára ekki á rökum byggð. En nú hafa menn komið fram með till. um, að önnur bæjarfélög, sem eru áföst við sveitir, fengju að leggja á hjá sér þetta gjald. Og þá hafa risið þær mótbárur upp gegn því, sem ég greindi, að hefðu komið fram viðvíkjandi því að leggja á vörugjald í Vestmannaeyjum. Þetta hefir hv. þingmeirihl. þótt nægileg ástæða til þess að leggjast á móti vörugjaldi í þeim kaupstöðum, þar sem hugsanlegt væri, að einhver lítill hluti vörugjaldsins kæmi á bök annara manna en íbúa sjálfra kaupstaðanna, sem vörugjaldið áttu að fá samkv. till., sem um það voru gerðar. En ég vil nú gera fyrirspurn um það, svona í allri kurteisi, hvað orðið sé nú af þessari viðkvæmni hv. stjórnarflokka fyrir því að láta ekki aðra aðilja greiða gjöld til hjálpar bæjarfélögum í sinni baráttu fyrir lífinu en þá, sem njóta eiga ávaxtanna af þeim gjöldum, þ. e. a. s. þau bæjarfélög, sem gjöldin eiga á einhvern hátt að vera til styrktar. Ég sé ekki þessa viðkvæmni í sambandi við það frv., sem hér liggur fyrir a. m. k., því að hér er lagt til að skattskylda alla landsmenn til ágóða fyrir einhvern hóp sjómanna og verkamanna í einum stað á landinu, sem þá sennilega yrði Reykjavík, til þess að geta hjálpað þeim með því að lána þeim fé til þess að eignast togara. Mér er spurn: Hvað er nú orðið af þessari viðkvæmni manna fyrir því að láta ekki gjöld, einum stað eða stétt til framdráttar, vera borin uppi af öðrum aðilja óskyldum? Mér sýnist, að það prinsip, ef prinsip skyldi kalla, hafi beðið nokkurn hnekki við þessa till. hv. fjhn.

Ég hefi nú látið uppi það álit, að ef á annað borð á að fara að hverfa frá hinum upprunalega tilgangi með jöfnunarsjóð bæjar- og sveitarfélaga, þá sé miklu skynsamlegra að hverfa að fyrirkomulagi eins og drepið var á af hv. þm. Hafnf. heldur en að hverfa að þessum till. hv. fjhn.

Annars er það í hæsta máta grátbroslegt, þegar hv. þingmeirihl. og hæstv. ríkisstj., sem hafa sýnt sig einskis megnug um að ráða bót á vandræðum útgerðarinnar og hafa hvorki vit né vilja til að sinna á nokkurn hátt hinum aðkallandi málum útvegsins, málum, sem eru svo aðkallandi, að jafnvel mætustu flokksmenn hv. frsm. fjhn. hafa látið uppi það álit, að ef eins verði haldið áfram og hingað til, sé ekki annað fyrirsjáanlegt en algert hrun þessa atvinnuvegar — það er grátbroslegt, segi ég, þegar þessir menn, sem horfa með köldu blóði á þennan atvinnuveg hrynja, koma nú með till. um að taka háan skatt af landsfólkinu til að lána öðrum mönnum, sem ekki taka þátt í útveginum, svo að þeir komist í sama öngþveitið.

Manni sýnist sem það væri sjálfsagðari leið fyrir hv. þingmeirihl. og hæstv stj. að reyna heldur að hjálpa útgerðinni, sem er á heljarþröm, en að ausa enn af landsfé til þess að koma nýjum mönnum af stað út í nýjan taprekstur á þessu sviði. Og hvað skyldi landið svo vera bættara, þó að hingað kæmi einn eða tveir nýir togarar, ef allir hinir eru reknir með tapi og sjávarútvegurinn í heild í kaldakoli?

Ég geri svo ráð fyrir, að hv. frsm.n. taki til athugunar tilmæli, sem komu frá hv. þm. Hafnf., um að taka aftur til 3. umr. þessa einkennilegu brtt., sem þeir hafa flutt á þskj. 199, því að það má sannarlega bæta hana mikið, ef endilega á að fara inn á þessar brautir. Má þá m. a. gera hana réttlátari í garð landsmanna.