01.04.1938
Neðri deild: 38. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 186 í C-deild Alþingistíðinda. (2467)

71. mál, lóðarnot í Reykjavík

*Jakob Möller:

Ég vil vekja sérstaka athygli á, að meðferð þessa máls er alveg einstök og að mínu áliti fullkomin óhæfa. Hér er um það að ræða að gera í einstöku tilfelli, vegna misskilinna hagsmuna eins aðilja, breyt. á almennu skipulagi. Slík breyt. er gersamlega óheimil og siðferðislega alveg óverjandi, nema því aðeins, að almenningsnauðsyn krefji, en hér er alls ekki um það að ræða. Það er engin almenningsnauðsyn, sem liggur hér á bak við, og ekki einu sinni nauðsyn þess aðilja, sem hér á hlut að máli; og svo kemur ekki heldur til greina, að hans nauðsyn sé sama og almenningsnauðsyn, því að nauðsyn þessa aðilja er hægt að bjarga á annan hátt, og að mínum dómi og fleiri manna, jafnvel þeirra, sem láta sig hagsmuni þessa aðilja verulega skipta, er það honum tvímælalaust óhagkvæmara og óhyggilegra að leysa þessa þörf á þennan hátt.

Annars álít ég þýðingarlaust að lengja umr. um þetta mál. Ég taldi aðeins rétt að lýsa þessari skoðun minni, sem ég veit, að er jafnframt einróma skoðun þeirra stjórnarvalda bæjarins, sem um þetta mál eiga sérstaklega að fjalla.