06.04.1938
Efri deild: 42. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 190 í C-deild Alþingistíðinda. (2476)

71. mál, lóðarnot í Reykjavík

*Jónas Jónsson:

Þetta mál hefir vakið nokkuð umtal, og finnst mér rétt, þótt ég sé hér enginn frsm., að segja fáein orð um það við þessa umr.

Sú ósk, sem kaupfélagið hér í bæ hefir beint til Alþingis, er, að því verði með sérstökum l. leyft að nota lóð ríkisins við Bankastræti undir vöruhús. Á þessum stað stendur nú gamalt timburhús. Ríkið keypti lóðina mjög dýru verði, í því skyni að reisa þarna einhverja opinbera byggingu, t. d. stjórnarráðshús eða kannske þinghús. Fremst á lóðinni stendur lítil bygging úr fimbri, húðuð að utan, sem er ein af byggingum kaupfélagsins hér í bænum. Byggingarnefnd hefir neitað kaupfélaginu um þá ósk, að fá að reisa þarna timburhús, húðað utan með steini.

Um þetta hafa deilur staðið í Nd. og að nokkru leyti í hlöðum bæjarins. Ég ætla ekki að fullyrða neitt um það, a. m. k. ekki fyrir aðra, hvernig þessu máli verður tekið, en ég vil benda á, að það er mjög vafasamt, að þetta mál eigi fram að ganga.

Að vísu er það rétt, að það ætti ekki að hafa aukna brunahættu í för með sér, þótt reist yrði þarna húðað timburhús, sem nú standa byggingar, sem ekki eru húðaðar með steini. En ég hygg, að forráðamenn kaupfélagsins hafi ekki gert sér það ljóst, að hér er farið fram á framkvæmd, sem getur orðið þeim til mikils tjóns sjálfum. Það er mjög líklegt, að innan skamms verði reist á þessari lóð varanleg bygging, og þá yrði kaupfélagið að rífa sín hús bótalaust. Í öðru lagi, ef kaupfélagið vildi fá þarna hús, sem ekki væri mjög dýrt og fullnægði reglum um hús í Reykjavík, myndi vera heppilegast að byggja það úr víkursteini. Hann mætti nota aftur í annað hús seinna meir. Og það er mjög vafasamt, hvort þetta yrði dýrara en það, sem hér er farið fram á. Þess vegna er það, að ég hygg, að þessi ósk sé ekki borin fram af nægilegri framsýni af hálfu félagsins, og álít ég vafasamt af Alþingi að leyfa, að gerðar verði á þessari lóð nokkrar breytingar, sem kosta fé til stórra muna, vegna þess að innan skamms verður byggð þarna framtíðarbygging.

Ég vildi láta þessi orð fylgja málinu til n., og þykir mér ekki ósennilegt, að hún komist að þeirri niðurstöðu, að þetta mál eigi ekki að ná samþykki, vegna þess að það er miklu fleira, sem mælir á móti því, að þessar breyt. verði gerðar, en með því.