06.04.1938
Efri deild: 42. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 192 í C-deild Alþingistíðinda. (2478)

71. mál, lóðarnot í Reykjavík

Erlendur Þorsteinsson:

Herra forseti! Ég ætla ekki að tala sérstaklega mikið um þetta mál við þessa umr., en ég vildi gera nokkrar aths. út af því. sem fram hefir komið hjá hv þm. S.- Þ. og hv. 1. þm. Reykv. — Mér skildist á hv. þm. S.Þ., að það væri eðlilegt, að hann vildi ekki gefa þá heimild, sem um ræðir í þessu frv., vegna þess að hann bæri umhyggju í brjósti fyrir félaginu, og að hann teldi ekki víst, að hér yrði nema um stuttan tíma að ræða. Mér hefir verið skýrt frá því af forráðamönnum þessa félags, að húsið þyrfti ekki að standa nema 4 ár til þess, að það borgaði sig, miðað við venjulega leigu. Það verður athugað af ríkisstj. og eins þeim mönnum, sem óska að fá þetta leyfi, hvort það muni borga sig að byggja þetta hús eða ekki. Það verður þeirra mál, en ekki einstakra hv. þm.

Hv. 1. þm. Reykv. taldi óeðlilegt að samþ. þetta frv. vegna þess, að hér væri verið að skera úr ágreiningi, sem væri við byggingarnefnd Reykjavíkur um þetta mál. Mér skilst. að byggingarnefndin hafi yfirleitt leyft að byggja ýms hús, sem byggð hafa verið á sama hátt og þetta; neitunin mun þá helzt byggjast á því, að hér sé um svo stórt hús að ræða. — Í þessu sambandi talaði hv. 1. þm. Reykv. mikið um eldhættuna af þessu húsi, ef byggt yrði. Það er ekki farið fram á, að grunnflöturinn verði stærri en grunnflötur timburbyggingarinnar, sem nú stendur á lóðinni. En þetta hús verður steinhúðað, en sú bygging, sem fyrir er, er timburbygging, tjörguð og því miklu eldfimari. Það er því ljóst, að þarna verður meira öryggi og minni eldhætta en fyrir hendi er. Mér skilst því, að það, sem hv. þm. var að tala um, sé þveröfugt við það, sem hann vildi vera láta.

Ég geri ráð fyrir, að þessu máli verði vísað til n. og að hún taki það til athugunar, og gefst þá tækifæri til að ræða nægilega um þetta og hvernig með málið skuli fara, en ég held, að það sé alger misskilningur hjá hv. 1. þm. Reykv., að þeir, sem hafi beðið um þetta mál, séu að draga sig til baka. Ég held, að þeir leggi jafnmikla áherzlu á að fá þessa heimild nú eins og þeir gerðu í fyrstu, þegar þetta mál kom fram.