06.04.1938
Efri deild: 42. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 193 í C-deild Alþingistíðinda. (2479)

71. mál, lóðarnot í Reykjavík

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti! Mér skilst, að þetta mál hafi tvær hliðar, og að það sé ekki nema önnur hliðin, sem snúi að Alþ. og okkur komi við. Mér skilst, þar sem ríkið á þessa lóð, og að það verður væntanlega Alþ., sem á sínum tíma ákvæði, hvenær þarna yrði byggt, að þá sé ekki nema eðlilegt, að leitað sé samþykkis Alþ. um að fá að byggja þarna hús til bráðabirgða. Ég sé ekkert óeðlilegt í því. Hinsvegar skilst mér, að Alþ. eigi ekki að skipta sér af því, hvernig hús sé byggt á þessari eða hinni lóðinni í bænum. Það er byggingarnefnd bæjarins, með eftirliti skipulagsnefndar, sem ræður því. Mér skilst, að þessi d. eigi yfirleitt að vísa frá sér að fara að grípa fram fyrir hendur annars aðilja um það, hvernig sé byggt þarna. Hitt getur Alþ. sagt, hvort það vilji, að lóðin sé notuð. þangað til byggt verði þarna skrifstofuhús, sem ríkið vantar.