23.03.1938
Neðri deild: 32. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 196 í C-deild Alþingistíðinda. (2499)

75. mál, rafveitur ríkisins

*Frsm. (Emil Jónsson):

Það er ekki mikill tími til þess að reifa þetta mál eins og vert væri, því að það er ákaflega stórt og þýðingarmikið.

Fyrir rúmu ári síðan skipaði þáv. atvmrh., hv. þm. Seyðf., menn til þess að gera till. um rafveitumál, sérstaklega með hliðsjón af þeim möguleikum, sem opnuðust við Sogsvirkjunina. Menn voru óþreyjufullir að fá álit og till. um, hvernig orkuleiðslum og öllu skipulagi yrði fyrir komið. N. þessara manna hefir starfað frá því í jan. 1937 þangað til nú nýlega og sent álit sitt til iðnn. Alþingis. N. hér í d. flytur þetta frv. óskipt, en einstakir nm. áskilja sér rétt til að flytja við það brtt.

Til að skýra frv. verð ég að drepa á verkefni rafveitunefndarinnar. Það var í fyrsta lagi að gera sér grein fyrir, hvaða möguleikar væru fyrir leiðslum út frá Sogsstöðinni. Rafveitunefnd ríkisins hefir gert áætlun um þrjár meginlínur, Stokkseyrarlínu, Reykjaneslínu og Borgarneslínu. Fyrsta línan liggi til Eyrarbakka og Stokkseyrar, en frá henni tvær hliðarlínur til Hveragerðis og til Vestmannaeyja. Þessar línur eru áætlaðar:

Frá Sogi til Stokkseyrar ........ 255 þús. kr.

Hliðarlína til Hveragerðis ...... 99 — —

Hliðarlína til Vestmannaeyja .1266 — —

Hafnarfj.lína (til að byrja með) 295 — —

(Hafnarfjarðarlínan fullgerð .. 338 — —)

Keflavíkurlína frá Hafnarf. .... 377 — —

Grindavíkurlína ................ 143 — —

Sandgerðislína ................. 198 — —

Akraneslína .................... 367 — —

Borgarneslína .................. 292 — —

Hvanneyrarlína ................ 89 — —

Hafnarfjarðarlínan er talin munu hækka úr 295 í 353 þús. kr., þegar þarf að endurnýja leiðsluna frá Vífilsstöðum til Hafnarfjarðar, eins og óhjákvæmilegt er við framlenging höfuðlínunnar fram á Reykjanes.

Þannig er gert ráð fyrir, að þessar linur kosti allar um það bil 31/2 millj. kr. Þess skal geta, að þar eru meðtaldar nokkrar innanbæjarleiðslur, sem ekki er gert ráð fyrir, að fyrirtæki bæjanna taki að sér að setja á stofn og reka.

Þó að áætlun sé gerð um að veita frá Soginu raforku langar leiðir til Borgarness og Vestmannaeyja, og í sambandi við síðarnefndu leiðsluna viða um neðri hluta Árnes- og Rangárvallasýslu, þá er því ekki slegið föstu, að þær línur skuli lagðar, heldur kemur einnig til mála að virkja fossa, sem liggja nær notkunarstöðunum, eins og t. d. Andakílsfossa fyrir Borgarnes, ef það reyndist ódýrara. Áætlun um leiðslurnar verður fyrst að liggja fyrir til samanburðar, áður en nokkuð er fullráðið.

Fyrir utan orkuveitusvæði Sogsins, sem nær til upp undir 20 þús. manna utan Reykjavíkur, hefir einnig verið talað um orkuveitur út frá rafvirkjun Akureyrar við Laxárfossa. Þörfin á því, að eitthvað sé gert til þess að koma á rafveitum út frá stöðvum, er víðar til staðar en á orkuveitusvæði Sogsins.

Þó að Sogið sé, eins og kunnugt er, virkjað af Reykjavíkurbæ, eru möguleikar til þess, að fleiri geti gengið inn í fyrirtækið. Það, sem mest knýr á, er að koma orkunni út til allra, sem geta haft hennar not, og það er einmitt verkefnið, sem ætlazt er til, að leyst verði með þessu frv. og framkvæmd þess, ef að lögum verður.

Ýmsir möguleikar eru til á því, hvernig þessu skuli hagað. Í fyrsta lagi gæti komið til greina, að orkustöðin sjálf tæki að sér flutning orkunnar; í öðru lagi að héraðasambönd gerðu það; eða í þriðja lagi ríkið, og hér er sá möguleikinn valinn. Allir hafa þeir verið ræddir í n. og staðnæmzt við þennan. Þar hefir verið stuðzt við erlenda reynslu. Þar, sem áður voru héraðasambönd, virðist ríkið nú vera að taka við þeim, t. d. í Noregi, og í Svíþjóð er ríkið að færast í aukana á þessu sviði. Auðvitað eru ýmsar hættur fólgnar í því skipulagi, eins og þær, að einstaklingar, sem hafa þörf, en ekki getu, til þess að fá orkuna, láti ríkið færa sér hana með kostnaði, sem aldrei borgar sig. En með ákvæðum 4. gr. frv., þar sem segir, að rafveitur ríkisins megi ekki taka að sér orkuveitu, nema rannsóknir og nákvæmar áætlanir sýni, að hún muni bera sig fjárhagslega, a. m. k. síðar meir, ætti að vera fullnægjandi trygging fyrir því, að þessara agnúa gæti ekki nema að litlu leyti. Og það þótti sýnt, að yfirburðir þessa fyrirkomulags væru mun meiri en annara. Takmark þessara rafveitna verður fyrst og fremst að vera það, að koma sem mestu af því rafmagni, sem ónotað er, til þeirra manna, sem hafa þörf á að nota það. Ef t. d. héraðasambönd yrðu stofnuð um þetta, þá yrði alltaf hætta á því, að héruðin, sem byrjuðu á þessu, mundu miða framkvæmdirnar við sinn eiginn hag, en hefðu ekki eins hag heildarinnar fyrir augum. Það var af þessum ástæðum, að sú leið var valin, sem hér er lagt til, að verði farin. Frá landbn. liggja fyrir ýmsar till. um það, hvernig þessum rafveitum skuli hagað, og nákvæmar áætlanir hafa verið lagðar fram hér í þingi, svo að hv. þm. geti gefizt kostur á að kynna sér málið. Ég þarf þess vegna ekki að fara út í það, enda er þess ekki kostur í stuttu máli. Ég þarf ekki heldur að tala um þá almennu nauðsyn, sem er á því að koma þessu rafmagni út um landið, því að ég veit, að hv. þm. mun sú nauðsyn fyllilega ljós. Það eina, sem um getur því verið að deila í sambandi við þetta mál, er leiðin, sem fara á. Raforkunefndin, ríkisstj. og iðnn. töldu heppilegast að fara þá leið, sem frv. leggur til, að farin verði. Þess skal þó getið, að allir nm. áskilja sér rétt til að koma fram með brtt. við frv., ef þeir teldu sig þurfa þess.

Í frv. er gert ráð fyrir, að ekki megi ráðast í byggingu á neinum af þessum veitum, nema undangengin rannsókn hafi sýnt, að líkindi séu til, að veitan geti borið sig og samþykki Alþ. hafi komið til. Þó er talið, að veita beri sig, þótt hún sýni halla fyrstu árin, ef hún getur náð þeim halla upp. Nú er það vitað mál, að rafveitur hafa misjöfn skilyrði til að geta borið sig, eftir fólksfjölda og öðrum aðstæðum. Þetta er ein ástæðan fyrir því, að æskilegra er að gefa rekið þessar rafveitur sem eina heild.