29.03.1938
Neðri deild: 36. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 204 í C-deild Alþingistíðinda. (2508)

75. mál, rafveitur ríkisins

*Frsm. (Emil Jónsson):

Ég vildi segja fáein orð út af ummælum, sem nokkrir hv. þm. létu falla, þegar frv. var hér til umr. síðast. Yfirleitt er ég ánægður með þær viðtökur, sem frv. fékk. Hv. þm. voru yfirleitt sammála um það, að meginstefna þess væri rétt. Það væri ríkið, sem annast ætti um dreifingu raforkunnar til neytendanna, en það er einmitt sá möguleikinn, sem valinn var af þremur, er fyrir hendi voru. Niðurstaða n. var mjög sniðin eftir þeim árangri, sem fengizt hefir í nágrannalöndunum, eftir að n. hafði íhugað málið vandlega.

Þá er annað atriði, sem n. er einhuga um: að þessar raforkuveitur skuli reistar smátt og smátt, þannig að árlega sé tekinn fyrir ákveðinn kafli. Þetta hefir ekki sætt beinni gagnrýni, þó að hv. þm. Borgf. hafi viljað fá strax úr því skorið, hvort ein veita fremur en önnur skyldi lögð á ákveðnum tíma. Væri það óheppiIegt, ef hv. þm. færu almennt að knýja á um að fá úr því skorið, hvaða veitur muni fyrst verða teknar fyrir. Það verður að ákveðast af „tekniskum“ og fjárhagslegum ástæðum.

Í sambandi við þessa aðferð hefi ég ef til vill ekki undirstrikað nógu vel, að sá kostnaður, sem ríkissjóður mun hafa af umsjón með þessum málum, verður eins lítill og framast er hægt, þar sem ekki mun fyrst um sinn verða ráðinn sérstakur rafmagnsstjóri fyrir þessi mál. Það kom fram hjá hv. þm. Borgf., að bann ætlaðist til, að vitamálastjóra og starfsmönnum hans yrði áframhaldandi falið að gera till um þessi mál, og ég er honum fyllilega sammála, og eins n., um það, að ekki eigi að ráða nýja starfskrafta, heldur nota þá, sem fyrir eru. Það kann að vera, að þetta komi ekki nægilega skýrt fram í frv., og vildi ég gjarnan styðja brtt., sem gengi út á það að undirstrika þetta betur.

Eins og ég gaf í skyn áðan, var svo á þessum málum tekið við fyrra hluta þessarar umr., að það gefur mér ekki tilefni til verulegra aths., og get ég því látið máli mínu lokið.