04.04.1938
Neðri deild: 40. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 209 í C-deild Alþingistíðinda. (2522)

75. mál, rafveitur ríkisins

Pétur Ottesen:

Það er síður en svo, að ég hafi nokkuð að athuga við hina skrifl. brtt., sem fram er komin frá hv. 2. þm. Árn., því að það var meining okkar, að ekki fengist aukagreiðsla fyrir þetta, sem starfsmenn vegamálaskrifstofunnar eiga að vinna í sínum launaða starfstíma, enda álít ég, að það komi skýrt fram í till. okkar, þar sem segir, að vinna skuli þetta eftir því, sem tími vinnist til frá öðrum störfum. En ég hefi síður en svo á móti því, að þessu sé bætt inn í till., þótt við ætluðumst til, að hitt nægði.

Það er alveg rétt, að það á ekki við hér að fara út í meting um það, hvar þetta eigi að koma fyrst til framkvæmda. Og að ég fór að minnast á þetta, stafaði af þeim tvennskonar sjónarmiðum, sem ég vildi vekja athygli á, að væru fyrir hendi á Akranesi, sem sé að byggja nýja stöð við Andakílsfossa og svo hin leiðin, að leiða rafmagnið frá Soginu. Ég vildi vekja athygli á, að þetta hvorttveggja gæti fallið inn undir ramma þessarar löggjafar. Hv. 2. þm. Árn. fór að gera samanburð milli kauptúnanna í Árnessýslu og kauptúnanna í Borgarfirði að því er mannfjölda snertir. Ég geri nú ráð fyrir, að Borgarfjarðarhérað sé fjölmennara, en það er annað, sem er þungt á metunum að því er snertir rafmagnsþörfina, og það er hin mikla útgerð á Akranesi. Þar er ennfremur útibú frá Sláturfélagi Suðurlands, svo að þaðan þarf að flytja mikið af kjöti út. Loks er þarna síldarverksmiðja, sem hefir þrefalt hlutverk, sem sé að vinna mjöl úr fiskúrgangi, bræða lifur og vinna síldarafurðir. Auk þess er það svo, að í frystihúsunum eru skilyrði til að frysta fisk til útflutnings. Af þessu öllu má sjá, að það skiptir miklu máli fyrir staðinn að geta fengið ódýrt rekstrarafl, og með tilliti til þess erum við knúðir til að ýta á eftir þessu máli.