29.03.1938
Neðri deild: 36. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 215 í C-deild Alþingistíðinda. (2546)

79. mál, verðjöfnunar- og styrktarsjóður rjómabúa

*Flm. (Sveinbjörn Högnason):

Það er nú svo komið í öllum nágrannalöndunum vegna verzlunarörðugleikanna, að eitt hið erfiðasta viðfangsefni í sambandi við þá er að afla framleiðsluvörunum nægilegs markaðar. Það hafa verið gerðar margvíslegar ráðstafanir til að tryggja sem bezt innanlandsmarkaðina, og með verzlunarsamningum hefir verið reynt að tryggja markaði erlendis. Það, sem þjóðirnar hafa gert í þessum efnum, er að setja svokölluð skipulagslög um afurðasölu, og má telja þau á beztan rekspöl komin að því er snertir landbúnaðarafurðir, því að þar er þörfin hvað mest. Þessi skipulagslög um afurðasölu landbúnaðarins eru komin á í flestum löndum Evrópu og víðar og hafa gert sitt mikla gagn. Þau hafa verið bætt ár frá ári, og enn má segja, að þau séu á þróunarstigi. Þau hafa átt að tryggja þetta tvennt: Í fyrsta lagi að tryggja markaði, og í öðru lagi að tryggja sæmilegt verð fyrir framleiðsluna. En einmitt vegna þessara ráðstafana er svo komið, að það er varla nokkur þjóð, sem getur notað erlenda markaði með sæmilegum árangri, einkum að því er mjólkurafurðir snertir, af því að þeir eru styrktir svo mjög í heimalandinu, en ef um vörur er að ræða, sem eru framleiddar annarsstaðar, hvíla á þeim skattar og tollar. Þessar ráðstafanir hjá okkur um kjötið og mjólkina hafa þegar borið allmikinn árangur, en þó má fullyrða, að enn þarf mikil átök, svo að þær komi að betri notum. Sala mjólkurafurða hér hefir verið allvel tryggð á verðlagssvæði Reykjavíkur og Hafnarfjarðar og eins á Akureyri. Hinsvegar er framleitt allmikið af mjólk annarsstaðar, sem þessar ráðstafanir hafa ekki náð til, eða m. ö. o. er það bara annar þátturinn í þessu máli, sem hefir verið tryggður, nefnilega að skapa markaðinn. En utan verðjöfnunarsvæða hafa ekki verið gerðar neinar ráðstafanir til að bæta verð á afurðunum. Þetta frv., sem hér liggur fyrir, miðar í þá átt að bæta úr þessum ágalla, að tryggja sæmilegt verð fyrir afurðirnar með því að stofna verðjöfnunar- og styrktarsjóð rjómabúa. Það er að vísu svo, að í sambandi við þær ráðstafanir, sem gerðar hafa verið hér á þingi gegn mæðiveikinni, hefir verið ætlazt til, að styrkja skuli rjómabú á þeim svæðum, sem þar koma til greina, að helmingi stofnkostnaðar. Ég held, að betra sé að taka upp í eina heildarlöggjöf skipulag fyrir þessa framleiðslu, sem hlýtur að aukast á næstu árum meira en hingað til hefir verið, einmitt vegna mæðiveikinnar.

Þetta frv. kveður svo á, að teknir skuli tvennir tekjustofnar til þess að tryggja smjörframleiðsluna. Eru það þeir sömu tekjustofnar, sem notaðir eru í öllum nágrannalöndum okkar, sem sé, að lagður sé skattur á smjörlíki og á erlendan fóðurbæti. Ég hefi gert ráð fyrir 10 aur. skatti á hvert kg. smjörlíkis og 4 aur. skatti á hvert kg. erlends fóðurbætis, sem til landsins flyzt. Til samanburðar má geta þess, að á Norðurlöndum eru slíkir skattar fyrir löngu komnir í framkvæmd Í Noregi er lagður 20 aur. skattur á hvert kg. smjörlíkis og 4–6 aur. á hvert kg. fóðurbætis, en í Svíþjóð 30 aur. á smjörlíki og 6–8 aur. á erl. fóðurbæti. Í Danmörku er skatturinn á smjörlíki sá sami og gert er ráð fyrir í þessu frv. Ég hirði ekki a ð telja upp fleiri lönd, þó að lengi mætti halda áfram. Það er fullkomlega réttmætt að taka þessa skattstofna hér, því að þegar mjólkurframleiðslan er að verða hér svo mikil, er ekkert, sem mælir með því, að verið sé að flytja inn erlendan fóðurbæti til að skapa offramleiðslu.

Um smjörlíkið er það að segja, að eftir því, sem hægt er að blanda það meira smjöri, er það heilbrigðara til fæðu. Heilbrigðisstj. í flestum menningarlöndum láta sér annt um að bæta þessa vöru, og sérstaklega, að hægt væri að útrýma smjörlíkinu alveg. T. d. var í Hollandi smjörlíkisframleiðslan bönnuð á tímabili.

Ég hefi gert lauslega áætlun um það, sem þessir tekjustofnar mundu gefa í tekjur, en það eru eftir því, sem ég kemst næst, um 120 þús. kr. á ári af smjörlíkinu, en af fóðurbætinum nál. 150 þús. kr., ef miðað er við innflutninginn 1935 og 1936. Hagstofan hefir ekki enn gert þetta upp fyrir árið 1937, en allar líkur eru til, að ekki hafi verið flutt minna inn af fóðurbæti þá en áður, nema síður sé, vegna óþurrkanna. M. ö. o. mætti gera ráð fyrir allt að 250 þús. kr. árlega, og með því fé mætti styrkja allverulega mjólkurframleiðslu hér á erfiðustu sölusvæðunum. Ég vil skjóta því hér inn, að í grg. frv. hefi ég gert ráð fyrir 200 þús. kr. tekjum, en hefi síðar fengið nánari upplýsingar, þannig að of lágt er áætlað í frv.

Í 2. gr. frv. er kveðið svo á, að þessum tekjum, sem hér yrði um að ræða, skuli varið á fernan hátt: Til að verðuppbæta smjör, sem unnið er í löggiltum rjómabúum; til að verðuppbæta smjör, sem unnið er í löggiltum mjólkurbúum, úr rjóma frá framleiðendum, sem hafa erfiða aðstöðu til að senda mjólk sína óunna til búanna. Það yrði mikill hagnaður að því, að í afskekktum héruðum þurfi ekki að flytja mjólkina óunna til búanna, og á þann hátt væri hægt að koma því við, að undanrenna væri meira notuð til heimilanna. Í þriðja lagi er gert ráð fyrir að styrkja byggingu nýrra rjómabúa á þeim framleiðslusvæðum, sem mjólkurbúin ná ekki til, um allt að helmingi stofnkostnaðar, og í fjórða lagi að styrkja þá þætti mjólkurskipulagsins, sem landbrh. telur sérstaka ástæðu til, en ekki verður gert eftir ákvæðum gildandi mjólkurlaga. Það vaka fyrir mér ýmsar ráðstafanir til að auka söluna, bæði með auglýsingastarfsemi og öðru, og ég álít, að nauðsynlegt sé, að eitthvert fjármagn sé fyrir hendi til slíkrar starfsemi.

Ég skal ekki að sinni fara fleiri orðum um þetta. Ég veit, að það er óþarfi, því að þessi mál eru þm. yfirleitt svo kunn. Það er full nauðsyn þess, að þessum endurbótum verði komið á hér eins og í nágrannalöndunum. Ég vil því vona, að hv. þd. taki þessu máli með velvild og vísi því til 2. umr. og fjhn. Ákvæði frv. eru frekar fjárhagsatriði en landbúnaðar, þar sem um nýja tekjustofna er að ræða.