29.03.1938
Neðri deild: 36. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 217 í C-deild Alþingistíðinda. (2547)

79. mál, verðjöfnunar- og styrktarsjóður rjómabúa

Einar Olgeirsson:

Herra forseti! Ég ætla ekki að fara að hafa á móti því, að þetta frv. fari til 2. umr., heldur vil ég í sambandi við till. þess gera að umtalsefni það vandamál, sem mjólkurframleiðslan og mjólkurverðlagið er. Ég vildi, að við gætum rætt þetta mál alveg rólega. Ég sé á frv., að það er nauðsynlegt að athuga betur, hverjar afleiðingar það getur haft, ef haldið er áfram á þeirri braut, sem frv. bendir til. Grg. þess byrjar á því að viðurkenna, að mjólkurskipulaginu stafi mest hætta af offramleiðslu. Það er nú svo, að mjólkurskipulagið hefir tryggt afkomu bænda og gert mjólkurframleiðslu að betri atvinnuvegi en hún áður var, og það er allt gott um það að segja. En hvað þýðir það, að tryggja atvinnugrein svo, að hún sé örugg og verðið fast? Það þýðir — eins og þetta þjóðfélag er —, að framleiðslan á slíkri vöru eykst, að auðmagnið streymir þangað og framleiðendur verða fleiri. Mjólkurskipulagið hlýtur að auka framleiðsluna. Hinsvegar er ástæðan til, að mjólkurskipulagið var sett, sú, að framleiðslan var of mikil, a. m. k. miðað við kaupgetu fólksins.

Ef afleiðing mjólkurskipulagsins er sú, að mjólkurframleiðslan hefir aukizt, þá er það vegna þess, að hún er orðin tiltölulega öruggur atvinnuvegur. Eins og réttilega er tekið fram í upphafi grg., þá stafar mjólkurskipulaginu hætta af þeirri aukningu, sem það hefir sjálft skapað. Þetta er spursmál, sem ekki verður hjá komizt að ræða. Mjólkurskipulagið sjálft felur í sér þá hættu, sem yfir því vofir nú, eftir því, sem slegið er föstu í grg. frv. Jafnframt því, sem það miðar að því að skapa gott og öruggt fyrirkomulag í þessari atvinnugrein hlýtur það að valda aukningu framleiðslunnar, þar sem hún er farin að borga sig. En við þessa auknu framleiðslu komumst við aftur í vandræði, því við vitum ekki, hvað við eigum að gera við það, sem of mikið er framleitt. Þegar skyggnzt er dýpra eftir orsök þessa, þá kemur það í ljós, að hún er það fyrirkomulag, sem við lifum við. Þar ræður raunverulega lögmál frjálsrar samkeppni, og því þýðir ekki að taka eina og eina atvinnugrein út úr og skipuleggja þær. 1 auðvaldsskipulögðu þjóðfélagi er aðeins eitt ráð til að framleiðslan beri sig; það er að auka kaupgetu almennings, svo að fólkið geti eytt meira af þessari vöru, svo að framleiðsluaukning geti alltaf verið mönnum blessun, en setji ekki framleiðendur í kröggur og vandræði. Eini möguleikinn í þessu sambandi er, að sölumöguleikarnir, sem verið er að kvarta yfir að séu ekki nógu miklir fyrir hendi, séu skapaðir og auknir, því það er vitað, að þörf er fyrir hendi hjá fjölda fólks fyrir miklu meiri mjólk en það, sem það nú fær. Einkum er þörf fyrir meiri mjólk hjá fólkinu í kaupstöðunum, en það getur ekki keypt hana. Þar er sú mótsögn milli þarfar og kaupgetu, sem auðvaldsskipulagið felur í sér. Það, sem myndi hjálpa mjólkurframleiðslunni, er það, að kaupgetan væri aukin hjá millistéttunum og verkamönnunum í kauptúnum og kaupstöðum, svo að þeir geti tekið við meiri mjólk en nú. Ég held, að ég hafi það rétt eftir einhverjum sérfræðingi í næringarefnafræði, að eðlileg, almenn mjólkurneyzla væri upp undir einn pott á dag, en svo mikil neyzla mun varla finnast nokkursstaðar eins og nú er háttað þessum málum, þó að nægileg mjólk sé til þess í landinu og þörfin einnig svo mikil í kaupstöðunum. Þess vegna er það ráðið, sem fyrst og fremst hlýtur að koma til greina að auka mjólkurneyzluna með því að auka kaupgetuna hjá almenningi. Þá fyrst er hægt og óhætt að auka framleiðsluna.

Kaupgetan verður ekki aukin nema á tvennan hátt. Annarsvegar með því, að hagur þeirra manna, sem kaupa mjólkina, verði almennt betri, eða með því, að mjólkurverðið lækki. Þetta hefir verið rætt hér nokkuð áður og reiknaður út svo að segja „skali“ fyrir, hvað borgi sig að lækka mjólkina mikið hlutfallslega við aukna neyzlu. Og það, sem liggur fyrir, er að koma því vandamáli út í „praksís“. Einnig er áreiðanlega rétt, sem hv. flm. minntist á, að hægt og æskilegt væri að koma betri samvinnu á milli framleiðenda og neytenda með aukinni auglýsingastarfsemi.

Eitt mál kemur alltaf upp í sambandi við lækkun mjólkur og hefir verið mikið rætt hér á hv. Alþ. Það er það, að svo framarlega, sem mjólkin verði lækkuð, þá verði ætíð nokkuð margir framleiðendur, sem ekki standast þá lækkun, sem sé að framleiðsluaðferðir eða framleiðsluskilyrði þessara manna séu þannig, að þeim sé ekki mögulegt að lækka mjólkina. Eru það sérstaklega stórbúin í Mosfellssveitinni, sem ekki geta lækkað verðið, en hinsvegar er vitað, að bændur austan fjalls myndu hagnast á því, að mjólkin væri lækkuð til neytendanna.

Af hverju stafar nú, að mikill hluti mjólkurframleiðenda þolir ekki lækkun mjólkurinnar. þótt mikill hluti þeirra myndi hafa hag af því? Það liggur í því, að framleiðslukostnaður þessara manna er óhæfilega mikill. Í hinn fjarlægara nágrenni Reykjavíkur liggur þetta mikið í jarðaverðinu; það er allt of hátt. Því tel ég óhjákvæmilegt, fyrr eða síðar, að þetta atriði í framleiðslukostnaðinum verði að breytast. Jarðaverðið verður að lækka á þessum stöðum. Með núverandi skipulagi gengur þetta venjulega fyrir sig með gjaldþroti eða einhverskonar hruni. Á síðasta þingi benti ég á, að einhverjar ráðstafanir yrði að gera í sambandi við þetta vandamál. Nú hafa þær ekki verið gerðar, og menn virðast ekki heldur hafa látið málið ganga sinn eðlilega gang, sem yrði til þess, að mjólkurverð lækkaði, heldur hefir verið kosið að hækka mjólkina og gera þar með ráðstöfun, sem hlýtur að draga úr neyzlunni og gera enn erfiðara fyrir mjólkurframleiðendur sem heild að fá varanlegar kjarabætur. Þessa staðreynd verðum við að horfast í augu við, og einnig verðum við að gera okkur grein fyrir því, að þetta spursmál er ekki leyst með því að hækka mjólkurverðið. Þetta var rætt hér á síðasta þingi, einmitt í sambandi við afstöðu bænda austan fjalls og bænda í Mosfellssveit. Hv. flm. lýsti því réttilega, hver væri ástæður fyrir því, að framleiðsla væri of dýr í Mosfellssveit, og einnig því, að mjólkurskipulagið ætti ekki að hækka mjólkurverðið til neytenda, enda yrði það mörgum framleiðendum til ógagns.

Með því þjóðfélagsskipulagi, sem hér er, þýðir ekki að ætla að taka mjólkurframleiðsluna út úr og reyna að gera hana öruggari en aðrar framleiðslugreinar með sérstöku skipulagi; það stefnir alltaf til vandræða. Enda er það það, sem hv. flm. slær föstu í grg., sem hér liggur fyrir.

Ég vildi vekja eftirtekt á þessu, ekki til þess að við förum að deila mikið um þetta nú, heldur til þess að viðkomandi n., sem fær það til athugunar, sjái þessa hættu.

Hv. flm. vildi fara þá leið úr þeim vandræðum, sem hann viðurkennir, að séu fyrir hendi, ekki að auka markaðinn, heldur að leggja sérstakt gjald á allt smjörlíki, sem framleitt er í landinu, og láta svo það gjald bæta upp smjörframleiðsluna í mjólkurbúunum. Um þetta er það að segja, að smjörlíkisskatturinn er í raun og veru skattur á alla aðilja, bæði bændur og þó einkum fyrir kaupstaðabúa, þar sem smjörlíki myndi hækka í verði við hann, og því er ég þeim hluta frv. andstæður og býst við, að fleiri séu það. En það, sem ég vildi benda hv. flm. á, er það, að við komumst alls ekki út úr vandræðunum á þennan hátt. Hver yrði afleiðingin af því, að svo yrði gengið frá þessu frv., að það yki enn mjólkurframleiðsluna? því meira sem greitt yrði af þannig löguðum bótum, því meira mundi mjólkurframleiðslan aukast og við myndum innan skamms lenda í sömu vandræðunum aftur. Mjólkurskipulagið veldur aukinni mjólkurframleiðslu, og þannig veldur það sjálft þessum vandræðum. Við höldum því áfram að snúast í þessum sama vítahring, svo framarlega sem við þorum ekki að horfast í augu við þá staðreynd, að ef kaupgeta fólksins er ekki aukin, þá verður að koma til samvinna milli neytenda og framleiðenda, þannig, að mjólkurverðið verði lækkað í hlutfalli við aukna neyzlu. Þó að það yrði gott fyrir framleiðendur landsin, sem heild, yrði það til þess, að viss hluti þeirra færi á höfuðið, ef ekki væru þá gerðar einhverjar sérstakar ráðstafanir til að afstýra því.

Þetta held ég, að sé hlið á málinu, sem rétt sé að athuga í sambandi við þetta frv. Hinsvegar er ég sammála um, að frv. fari nú til fjhn. og 2. umr.