02.04.1938
Neðri deild: 39. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 235 í C-deild Alþingistíðinda. (2560)

87. mál, ostrurækt

*Pétur Ottesen:

Það getur náttúrlega vel verið rétt, að það gæti verið einhvers virði, að hér væri hægt að koma upp þeirri ostrurækt eða ostruframleiðslu, sem gert er ráð fyrir í þessu frv., ef þau skilyrði væru fyrir hendi, sem nauðsynleg eru til þess, að þessi skelfiskur geti þrifizt hér við strendur landsins, sem mér skilst, af viðtali við hr. fiskifræðing Árna Friðriksson, að geta brugðið mjög til beggja vona með. Þess vegna væri það, ef þetta gæti gengið, þ. e. ostrurækt hér við strendur landsins, fullkomlega athyglisvert, hvaða leiðir hægt væri að finna til þess að koma þessu í framkvæmd.

Í sambandi við þetta efni, sem hér liggur fyrir, vil ég geta þess, að ég hefi nú verið að reyna í morgun að kynna mér þau skjöl, sem fyrir liggja hér frá því félagi í Svíþjóð, sem hv. frsm. þessa máls nefndi áðan og býðst til að gera tilraunir með ostrurækt hér við land, að mér skilst, ef það fái til þess einkaleyfi um 15 ára bil og að öðru leyti uppfyllt þau skilyrði, sem mér virðist, að það setji, en hv. frsm. minntist ekki á. En mér virðist, að þessi skilyrði séu alls ekki í samræmi við það frv., sem hv. sjútvn. flytur hér á þskj. 156. Mér virðist, að bæði í 1. og 2. gr. þessa frv., sem eru um aðalkjarna þessa máls, sé eiginlega alveg gengið á svig við þau skilyrði, sem félagið setur í bréfi, sem hér liggur fyrir frá því og dagsett er 21. des. 1936. því að eins og hv. frsm. sagði, var hafið máls á þessu einmitt á því ári. Í 1. gr. þessa frv. er talað um það í sambandi við þessa ostrurækt og þessar ostruveiðar, að friða í því sambandi tiltekin svæði á fjörðum inni. En í þessu bréfi, sem hér liggur fyrir frá félaginu, er gengið út frá því sem alveg sjálfsögðum hlut, að þeir firðir, sem þessa ræktun á að stunda í, verði algerlega lokaðir fyrir öllum öðrum veiðum. Það er talað um í þessu bréfi einn eða tvo firði, sem þessar tilraunir yrðu gerðar í og þá yrði algerlega lokað fyrir allri annari veiði. Þess vegna er ég dálítið undrandi yfir því, þar sem þetta frv. er miðað allt við framkvæmdir þessa eina félags, að upp í frv. skuli ekki vera tekin þau skilyrði, sem í þessu bréfi eru sett og verður að telja nauðsynleg til þess að leggja út í þessa ostrurækt, sem þar er um að ræða. Það leiðir líka alveg af sjálfu sér, hvernig útkoman yrði af því, ef fara ætti að friða einhvern tiltekin smásvæði inni á mjóum fjörðum og eiga svo að gæta þess, að veiðiskapur yrði ekki stundaður þar, þó að hann væri stundaður á firðinum annarsstaðar. Slíkt næði vitanlega ekki nokkurri átt.

Þá er hér í frv. talað um að veita sérleyfi innlendum og erlendum félögum og einstaklingum. Hér er þó auðvitað ekki um annað að ræða en að veita þessu ákveðna félagi sérleyfið. því er þá ekki tekið upp í frv., að það eigi að veita erlendu félagi þetta sérleyfi? Ef um sérleyfi til innlendra félaga er að ræða, þá er vanalega tiltekinn sá félagsskapur, sem veita á leyfið. Mér virðist því hér í frv. verið að fara hjákátlega fyrir utan og ofan það, sem um er í raun og veru að ræða, því að hér er um að ræða einkaleyfi til handa þessu tiltekna félagi.

Það eru aðeins tveir firðir, sem ætlazt er til, að þessi ostrurækt verði stunduð í, þ. e. Hvalfjörður og Kollafjörður. Nú veit ég, að ef eitthvað yrði úr þessum framkvæmdum, þá kæmu þær ekki til mála á öðrum grundvelli en þeim, sem þetta félag vill reyna, sem vitanlega hefir þekkingu á þessum veiðiskap. Og þá verður þó ekkert framkvæmt í þessu, nema með því að banna alla veiði á þessum stöðum, sem gert er ráð fyrir að framkvæma þessa ostrurækt og ostruveiðar á. Nú hagar svo til, a. m. k. í Hvalfirði, að þar eru á sumum tímum árs — það eru þó áraskipti að því — stundaðar nokkuð handfæra- og lóðaveiðar, auk þess sem þar er um nokkra laxveiði og hrognkelsaveiði að ræða, sömuleiðis beitutekju og annað þess háttar, sem mér virðist allt saman koma í bága við þær fyrirætlanir, sem hér er verið með á ferð í sambandi við þessa ostrurækt. Það má vel vera, að þetta hafi ekki áhrif á laxgöngu upp í árnar, en það vill svo til, að í Hvalfirði eru skilyrði til laxveiða í sjó frá þó nokkrum jörðum, og þessi laxveiði er nú þegar þó nokkuð stunduð, þó að dálítil áraskipti séu að því eftir laxgöngu, hvaða arð þessi veiði gefur. Nú sé ég á þessu korti, sem ég hefi, að a. m. k. 1–2 staðir eru sérstaklega valdir til að framkvæma þessa ostrurækt, einmitt þar sem þessi laxveiði í sjó er stunduð. Hvort sem um er að ræða friðun á öllum firðinum eða aðeins þessum tilteknu svæðum, þá yrði vitanlega laxveiði og hrognkelsaveiði að víkja af þessum svæðum, sem sérstaklega eru talin hentug fyrir ostruræktina. Sama er að segja um Kollafjörð; þar er laxveiði og hrognkelsaveiði og líka nokkur fiskveiði bæði vor og haust. Ég held því, að athuga verði betur en gert hefir verið, hvort rétt sé að fórna öllum þessum fiskveiðum fyrir þá ávinningsvon, sem hér er um að ræða, hvort rétt sé að banna á þeim tilteknu svæðum að veiða allar fisktegundir, þorsk, þyrskling, ýsu. lax, hrognkelsi og skelfisk, fyrir væntanlega hagsmuni af þessari ostrurækt, og verður vitanlega að miða við það, sem kunnugir menn, sem fyrir þessu frv. standa, segja um það, hvað við þurfum til þess, að vænta megi nokkurs árangurs af þessari ostrurækt, sem útheimtir algerða friðun á þeim svæðum, þar sem um slíkt gelur verið að ræða.

Í 3. gr. er talað um, að fullar bætur skuli koma fyrir þær takmarkanir á afnotarétti, sem þessi ostrurækt hefir í för með sér, en hvergi er talað um, hverjir eigi að greiða þessar bætur. Ég býst því við, að það eigi að koma í hlut ríkissjóðs, þó að hér eigi að vera um að ræða einkaleyfi til handa sérstöku félagi, því að í frv. er farið fram á, að félagið eigi að borga kostnað af mati, og þá hlýtur það að vera ríkissjóður, sem á að greiða bæturnar. Ég verð að segja, að þar sem á að gefa einkaleyfi til slíkra hluta, og þar sem þetta félag virðist heldur sækja á að fá það einkaleyfi, þá væri eðlilegt, að það ætti að svara til bóta fyrir þær takmarkanir annarar veiði, sem yrði að gera, til þess að tryggja því árangur af þessari veiði.

Hv. frsm. var að tala um, að eðlilegt væri, að þetta félag þyrfti að fá nokkuð langan leyfistíma til þess að fá upp burinn þann kostnað, sem það mundi þurfa að leggja í við þetta allt saman. Mér virðist nú eftir þeim bréfum, sem ég minntist á, að þetta félag sýndi fullkomna viðleitni til að tryggja sig, að enduðum leyfistímanum, því að í bréfinu stendur, að ef stj. þóknaðist ekki að endurnýja einkaleyfið þeim til handa eftir 15 ár, þá ganga þeir út frá því sem sjálfsögðu, að þeir leggi fram skriflegar skýrslur um, hvað öll þeirra fyrirhöfn í sambandi við þetta hafi kostað þá, og svo ætla þeir að koma með reikning yfir, hvað þeir hafi fengið í aðra hönd fyrir þennan veiðiskap, og ef þeir hafa samkvæmt þessum reikningum orðið fyrir tapi, þá virðist mér, að þeir gangi út frá, að ríkissjóður greiði þeim mismuninn. Þeir virðast því ætla að tryggja sig vel, hvort sem þeir fá einkaleyfið endurnýjað eða ekki.

Mér virðast sem sagt vera allmiklir agnúar á þessu frv. og vildi mjög óska eftir því, að sjútvn., sem flytur þetta mál einróma, taki það til nýrrar athugunar og vegi og meti betur en mér virðist hún enn hafa gert þá hagsmunavon, sem hér getur verið á ferðinni, og það hagsmunaafsal, sem ég geri ráð fyrir, að verði í sambandi við þessar tilraunir, sem eru ekkert smáræði, ef framkvæma á þetta á þeim grundvelli, sem einkaleyfisbeiðendur ganga alveg út frá sem sjálfsögðum hlut, sem sé að banna allar veiðar á þeim fjörðum, þar sem tilraunirnar á að gera, og það leiðir af sjálfu sér, fyrst þarf friðun, því að hún er óframkvæmanleg nema með því að banna alla veiði á viðkomandi stöðum.