11.04.1938
Neðri deild: 46. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 241 í C-deild Alþingistíðinda. (2568)

97. mál, fiskimálanefnd

*Ísleifur Högnason:

Ég verð að lýsa ánægju minni yfir því, að þetta frv. er fram komið, og ég er með því í öllum aðalatriðum. Eins og hv. flm. mælti með því, skildist mér, að fé fiskimálan. ætti að verja til að styrkja kaup nýrra vélbáta, en samkv. frv. mætti e. t. v. misskilja þetta svo, að félögum þeim, sem styrkina fá, væri heimilt að nota hann til að kaupa fyrir gamla báta, en þessu álit ég, að ætti að breyta svo, að skýrt sé tekið fram, að átt sé við nýbyggingu vélskipa.

Annað hefi ég ekki við frv. að athuga, en ég mun bera fram brtt. við fjárl.frv. um, að ríkissjóði sé heimilað að styrkja nýbyggingu mótorskipa með ábyrgðarheimild.