11.04.1938
Neðri deild: 46. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 241 í C-deild Alþingistíðinda. (2569)

97. mál, fiskimálanefnd

*Flm. (Sigurður Kristjánsson):

Ég get tekið undir það, sem hv. 7. landsk. sagði, að það er mikil nauðsyn að endurnýja togaraflotann, og ég hefi áður haft tækifæri til að láta þá skoðun mína í ljós. En ég geri ráð fyrir, að þótt þessi breyt. kæmist inn í l. um fiskimálan., þá myndi n. láta það ganga fyrir, ef unnt væri að fá menn til að leggja fé í togara. Það er rétt, sem hv. 7. landsk. segir, að togaraflotinn er orðinn svo gamall, að mjög er óálitlegt og mjög lítil skilyrði virðast vera fyrir því, að þeir togaraeigendur, sem nú eru, hafi fé til að endurnýja flotann, nema árferði breytist mikið til batnaðar. Frv. er ekki borið fram í þeim tilgangi að koma á neinn hátt í veg fyrir þennan höfuðtilgang laganna, að togaraflotinn megi aukast og endurnýjast, en það er alveg víst, að tregðan á því að hagnýta sér þennan styrk stafar af því, að það er nokkuð mikið í að ráðast að stofna togaraútgerðarfélag, en miklu viðráðanlegra er að stofna félög um vélbáta, og ég vænti, að þótt þetta frv. verði að l., þá verði það ekki skilið á þann hátt, að vélbátakaup eigi að koma í stað togarakaupa og rýma togurunum á brott. Það er mín skoðun enn, eins og alltaf hefir verið, að togarar séu og eigi að vera framtíðar veiðitæki okkar, en það hagar svo til á mörgum stöðum á landinu, að ekki er hægt að gera út togara þaðan, en þeir verða að haldast uppi að mestu leyti á sjávarútvegi. Útvegurinn verður því, eins og eðlilegt er, að hafa tæki af öllum stærðum, allt frá róðrarbátum upp í nýtízku togara.

Út af því, sem hv. 5. landsk. sagði, skal ég geta þess, að ég leit svo á, að með ákvæði 1. gr. frv. væri í raun og veru slegið föstu, að skip þau, er styrkur fengist til, væru ný og nýtízku bátar, því þar er tekið fram, að styrkurinn skuli veittur með sömu skilyrðum og til togaranna, en um þá er tekið fram, að þeir skuli vera nýtízku togarar. Það getur verið, að þetta sé ekki rétt skilið hjá mér, og ég mundi þakksamlega ganga inn á breytingar, er fram kunna að koma í þessa átt, væri það ekkj á annan hátt öruggt, að það næðist, sem var tilgangur minn, að það væri tryggt, að skipin væru ný, nýtízku skip.