13.04.1938
Neðri deild: 48. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 243 í C-deild Alþingistíðinda. (2575)

98. mál, afréttarlönd í Mýrasýslu o. fl.

*Frsm. (Bjarni Ásgeirsson):

Þetta mál er, eins og í grg. segir. flutt í þeim tilgangi að bæta úr skorti einstakra sveita og sveitarhluta í Mýrasýslu á afréttarlöndum. Það hefir legið fyrir þinginu oftar en einu sinni áður, en ekki náð fram að ganga, af því að þingið hefir litið svo á, að það væri ekki komið á það stig heima í héraði, að tímabært væri að afgr. það með l. Nú hafa farið fram fundahöld í héraði, og málið er komið á þann rekspöl, að óhætt er að segja, að sú lausn þess, sem hér er lögð til, muni jafna að mestu leyti þann ágreining, sem um það hefir verið undanfarin ár.

Aðalágreiningurinn stafar af því, að afréttarlönd. sem Borghreppingar hafa haft þörf fyrir, hafa legið innan Stafholtstungnahrepps og verið eign Stafholtskirkju. En nú hafa farið fram makaskipti milli eiganda Svignaskarðs og forráðamanna kirkjujarðasjóðs á nokkrum hluta þessa afréttarlands, og hefir hinn nýi eigandi landsins leigt Borgarhreppi það og tryggt honum landið til eignar eftir sinn dag. Auðvitað hefir þarna borið á nokkurri misklíð, bæði af hálfu Stafholtstungnamanna og í Borgarhreppi sjálfum, þar sem Borghreppingar óskuðu að eignast landið. En til þess að bæta úr skorti á afréttarlandi fyrir Stafholtstungnamenn, er í gr. frv. heimild til að selja upprekstrarfél. Brekkuréttar — en í því eru þeir menn í Stafholtstungnahreppi, sem vantar afréttarlönd, afréttarlönd, sem Stafholtskirkj, á í Norðurárdalshreppi.

Í síðari hluta gr. er ákveðið, að um næstu 8 ár skuli mönnum, með tilliti til mæðiveikinnar, gefinn frestur á að nota kaupréttinn.

Þá er í 3. gr. heimild til að selja Borgarhreppi og Borgarneshreppi í Mýrasýslu jörðina Grísartungu í Stafholtstungnahreppi, en hún hefir til skamms tíma verið byggð.

Í 5. gr. er ákvæði um girðingu til öryggis því, að fé af afréttunum renni ekki á heimalönd Stafholtstungnamanna.

Í 7. gr. er ákvæði um, hvað gera skuli, ef ekki verður samkomulag um bætur. Þær skulu metnar af þriggja manna n.

Ég vil vænta þess, að frv. verði samþ. til 2. umr. og afgr. frá þessu þingi, því að það yrði, eins og ég hefi tekið fram, til að útkljá deilur í héraði um þetta mál.