19.04.1938
Neðri deild: 49. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 244 í C-deild Alþingistíðinda. (2581)

101. mál, tilraunabú

Flm. (Jörundur Brynjólfsson):

Ég hefi leyft mér að koma fram með frv. þetta nú, enda þótt allmjög sé liðið n tíma þingsins og því sé fyrirsjáanlegt, að ekki verði tækifæri til þess að sinna því mikið nú. En ég hefi viljað hreyfa því eigi að síður, ef það mætti verða til þess að flýta fyrir því síðar meir og fá menn til að athuga það jafnvel betur en mér hefir gefizt kostur á.

Um efni frv. get ég að mestu skírskotað til grg. þeirrar, sem því fylgir. Ég þykist vita, að hv. þdm. sé ljóst, að starfsemi sú, sem frv. ræðir um, er þýðingarmikil og getur leitt margt gott af sér, ef hægt er að sinna henni eins vel og nauðsyn ber til, og jafnframt hitt, að eigi að vænta árangurs af henni, þá útheimtir hún mikla fjármuni um langan tíma.

Að við höfum hafizt svo seint handa með framkvæmdir í þessu stórmáli, stafar ekki af því, að við höfum ekki tekið eftir, að slíkrar starfsemi sem þessarar væri hér full þörf, heldur hefir um það ráðið fjárskortur o. fl. Enda þótt sá litli vísir að tilraunastarfsemi, sem við höfum komið upp, hafi haft yfir litlu fé og litlum starfskröftum að ráða, þá hefir hann eigi að síður borið nokkurn árangur, þó að starfsemin verði að teljast mjög skammt á veg komin, ef við mælum okkur á mælikvarða stórþjóðanna í þessum efnum.

Þegar það auðnast að koma þessari starfsemi í nokkurnveginn nútímahorf, þá mun fara hér eins og alstaðar annarsstaðar, að hún verði landbúnaðinum til mikilla hagsbóta, svo mikilla, að um slíkt verði engar áætlanir gerðar á þessu stigi málsins. Að ég hefi viljað hreyfa þessu nú, er eins og ég þegar hefi tekið fram, til þess að fá menn til meiri umhugsunar um þetta en verið hefir. Fyrirkomulagið á starfrækslunni, þegar að framkvæmdum verður horfið, umfram það, sem nú er, verður að fara eftir því, sem bezt hentar í hverri grein, og að sjálfsögðu að sníða alstaðar stakk eftir vexti.

Að sjálfsögðu get ég ekki ætlazt til, að hv. landbn. geti offrað miklum tíma í þetta mál á þessu þingi, þar sem svo mjög er orðið áliðið þingtímans, en hins vil ég vænta, að hún gefi því síðar meir þeim mun meiri gaum og greiði þá fyrir því á þann veg, sem bezt má verða.

Um skýringar á hinum ýmsu atriðum frv.- vísa ég til grg. Ég vil geta þess, að af vangá hafði fallið niður í handritinu, sem fór í prentun, í 3. gr. B. við 2. tölul. orðin: Jafnframt sé lögð áherzla á gæði ullar. — Geri ég svo að till. minni, að málinu verði vísað til 2. umr. og landbn. að umr. lokinni.