19.04.1938
Neðri deild: 49. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 248 í C-deild Alþingistíðinda. (2584)

101. mál, tilraunabú

Flm. (Jörundur Brynjólfsson):

Ég vil þakka þeim hv. þm., sem hér hafa tekið til máls, fyrir góðar undirtektir undir þetta mál. Mér er það fullkomlega ljóst, að þetta frv. mun þurfa ýmiskonar breyt., og ég tek fegins hendi öllu því, sem fram kemur og má verða málinu til búningsbóta og til gagns. Ég get tekið undir það með hv. 2. þm. Skagf., að áður en ráðizt er í framkvæmdir í þessu efni, þá þurfi að gera nákvæmar athuganir á þeirri starfrækslu, sem fyrir er í landinu, og taka tillit til hennar, þegar þessu máli er ráðið til lykta. Það verður sennilega að gera það að meira eða minna leyti við setningu löggjafar um þessi efni, og þó ef til vill enn frekar, þegar ráðizt er í framkvæmdir. Það má vel vera, að frv. þyrfti að vera frjálsara og víðtækara að því leyti, að heimilt væri að haga starfrækslunni nokkuð á annan veg en hér er talað um, eins og hv. 2. þm. Skagf. drap á. Fyrir mér vöktu aðallega þessi 4 tilraunabú, og þar að auki taldi ég bændaskólana að sjálfsögðu, en með ákvæðum 10. gr. bjóst ég við, að ef til vill mundi mega ná þeirri starfsemi, sem ekki færi fram á aðalbúunum. Þó má vel vera, að einmitt ákvæði þessarar gr. þurfi að vera enn viðtækari til þess að vel sé fyrir þessu séð.

Þá var eitt atriði, sem hv. þm. A.-Sk. minntist á, en það var viðvíkjandi loðdýrarækt. Það er rétt, að þetta frv. minnist aðeins á refaeldi, en það er vafalaust ástæða til að hafa það rýmra, svo það geti tekið til annara loðdýrategunda, sem farið er að ala hér upp.

Ég hefi svo ekki frekar um þetta að segja. Það má vel vera, að það sé einmitt mjög eðlilegt, sem hv. 2. þm. Skagf. sagði í þessu efni. að málið sé tekið milli þinga til enn rækilegri undirbúnings og það verði um leið og l. eru sett um þetta efni nokkuð fyrirfram afmörkuð og ákveðin starfsemin. En hinsvegar get ég búizt við því, að eftir því sem tíminn líður og fengizt er við þessa starfsemi, þá þurfi að haga henni nokkuð eftir þeirri reynslu, sem fæst jafnóðum, og þá er — eins og hann vék að — nauðsynlegt, að löggjöfin sé það rúm og frjáls, að hægt sé að koma slíkum breyt. við jafnóðum og nauðsyn krefur.