19.04.1938
Neðri deild: 49. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 249 í C-deild Alþingistíðinda. (2589)

105. mál, raforkuvirki

*Flm. (Bjarni Bjarnason):

Ég get verið mjög stuttorður um þetta mál við þessa umr. Það þarf að sjálfsögðu — ekki síður en önnur mál athugun í n. En þessu stutta frv. fylgir allýtarleg grg., og er hún samin í samráði við forstjóra rafmagnseftirlits ríkisins. Frv. er einnig flutt eftir hans ósk, eftir að hann hefir fram kvæmt l. um raforkuvirki nú í nokkur ár. Er hér um tvö höfuðatriði að ræða, annarsvegar endurbætur á framkvæmd eftirlits með raforkuvirkjum, og hinsvegar aukið eftirlit með innflutningi efnis til raforkuvirkja og rafmagnsnotkunar.

Um hið fyrra er það að segja, að það er samkv. núgildandi l. mjög takmarkað, sem eftirlitinu ber skylda til. Frá þessu er greinilega skýrt í grg., og sé ég því ekki ástæðu til að fara um það mörgum orðum. Hinsvegar er það og vitað, að rafmagnsstöðvar, sérstaklega þær smærri úti um landið, þyrftu að sjálfsögðu miklu meira eftirlit heldur en þær hafa nú, svo að af því hlýzt stórtjón fyrir hlutaðeigendur. Lagnir eru t. d. oft fljótfærnislega lagðar og ekki svo vel um þær búið sem skyldi. Og þegar við það bætist, að viðhaldið er lélegt, sem m. a. stafar af því, að ekki er eftirlit, þá er augljóst, hversu mikill skaði getur af hlotizt. Þó er það vitanlegt, að bæði ýms félög og einstaklingar hafa gert meira en í þeirra valdi hefir staðið til þess að tryggja allt öryggi í sambandi við notkun rafmagnsins. En verði frv. þetta aftur að lögum, þá yrði rafmagnseftirlit ríkisins skylt að hafa eftirlit með stærri og smærri rafstöðvum, og einnig er ætlazt til þess, að eftirlitsmaðurinn geri við það, sem aflaga fer. En eins og þessu er háttað nú, þá verða hlutaðeigendur að fá menn til þessa, svo að við aðgerðarkostnaðinn bætist ferðakostnaður aðgerðarmanna, en með þessu fyrirkomulagi á hann að geta sparazt.

Eitt höfuðatriði frv. þessa er þó aðferðin, sem hér er stungið upp á að farin verði til þess að afla fjár til að standast kostnaðinn við eftirlitið. Nú er þessa fjár aflað á þann veg. að stöðvarnar greiða 1 kr. fyrir hvert kw., og auk þess er skoðunargjald, sem er mjög misjafnt á hverjum stað. Hvorttveggja þessara gjalda hefir gengið mjög misjafnlega að innheimta, og virðist því ekki úr vegi að koma þeim á annan grundvöll. Samkv. frv. þessu er því gert ráð fyrir að leggja á gjald, sem nemi allt að 1% af tekjum allra stöðva, sem skráðar eru hjá eftirlitinu og heyra því undir eftirlit þess. Helminginn af gjaldi þessu á svo að mega leggja á rafmagnsnotendurna sjálfa. og er sýnt fram á í grg. frv., að það á að koma mjög létt niður.

Tekjur rafmagnseftirlitsins eru áætlaðar núna 16400 kr. Af því eru 9400 kr. árgjöld rafveitna, en skoðunargjöld 7 þús. krónur, en eins og stendur eru samanlagðar árstekjur þeirra rafveitna til almenningsþarfa, sem skráðar eru hjá eftirlitinu, um 2 millj. Árgjöld þeirra til eftirlitsins myndu því verða samkv. frv. um 20 þús. Það er því auðsætt, að hér er ekki um svo mikla breyt. að ræða frá því, sem er, að það þurfi að fæla menn frá að fylgja frv., þegar líka þess er ennfremur gætt, að í hinu aukna eftirliti verður meiri trygging. Auk þessa er gert ráð fyrir, að við hinar smærri stöðvar, þar sem ekki er vitað um raforkusölu, megi leggja á sem næst 2 kr. á hvert kw. í málraun þeirra.

Hitt aðalatriði frv. þessa er eftirlitið með innflutningi á hlutum til raforkuvirkja. Rafmagnseftirlitinu er eins og nú standa sakir ætlað að hafa eftirlit þetta með höndum, en því þykja ákvæði þau, sem um þetta eru nú í lögum, ekki nógu ákveðin eða trygg. Til þess að efnisviðurkenningin nái tilgangi sínum til fulls, er nauðsynlegt að fram fari raunveruleg prófun á efninu, en til þess þarf bæði húsnæði og tæki. Til þess því að standast þann kostnað, sem af þessu kann að leiða, er farið fram á í frv. heimild fyrir ráðh. til að leggja gjald á raforkuvirkin, er nemi þessum kostnaði.

Ég býst nú við, að þetta atriði geti orðið þyrnir í augum ýmsra hv. dm., en ég vil þá bara spyrja þá, hvort þeim finnist rétt að leggja þessi gjöld öll beinlínis á ríkissjóðinn. Mér finnst það ekki rétt.

Ég skal svo að síðustu geta þess, að ég hefi í vörzlum mínum töluvert af bréfum, bæði frá rafmagnsstjóra og rafmagnseftirlitinu, sem ég mun að sjálfsögðu láta n. þeirri, sem málið fær til meðferðar, í té.

Sé ég svo ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta að sinni. Það má vel vera, að það þurfi að breyta fyrirsögn frv. eitthvað, en það læt ég nefndina um.

Legg ég svo til, að frv. verði vísað til iðnn. að umr. lokinni.